Toguðust á við 400 kílóa túnfisk á Tene

Elsa í fullu átaka og nýtur aðstoðar leiðsögumanns. Á hinum …
Elsa í fullu átaka og nýtur aðstoðar leiðsögumanns. Á hinum endanum var þrgiggja metra langur bláuggi eða túnfiskur. Hann var áætlaður í kringum 400 kíló. Ljósmynd/SJ

Ef þú ert núna á Tenerife eða á leiðinni þangað bíddu með minigolfið, skoðunarferðirnar og grísaveisluna. Núna er besti tíminn fyrir túnfiskveiðar. Silli kokkur og Elsa Blöndal, kona hans slógust um páskana við 400 kílóa túnfisk. 

Sigvaldi Jóhannesson og Elsa Blöndal Sigfúsdóttir skelltu sér á túnfiskveiðar um helgina, einmitt frá Tenerife þar sem þau eru stödd. Við sögðum frá því í síðustu viku að hópur Íslendinga hefði leigt sér bát og farið á túnfisk og landað einum um 300 kíló.

Sigvaldi, eða Silli kokkur frétti einmitt af veiðinni hjá Reyni Sigmundssyni og félögum.

„Þetta var alveg klikkað,“ sagði Silli þegar Sporðaköst náðu tali af honum í gærkvöldi. „Við fórum fjögur saman og þetta kostaði hópinn 260 evrur. Við gátum tekið prívat bát og það hefði kostað um 500 evrur. En við vorum bara fjögur saman og það kom svo í ljós að það var eins gott að við vorum fleiri.“

Silli segir að það hafi verið merkilegt að sjá hversu iðandi af lífi sjórinn var fyrir utan. Stökkvandi höfrungar um allt og svo komu þau að þar sem voru stökkvandi túnfiskar. „Við vorum búin að vera að trolla og allt í einu var túnfiskur stökkvandi í kringum okkur. Við vorum með lifandi beitu með okkur sem við höfðum veitt fyrr um daginn. Þeir byrjuðu að henda beitunni út og fljótlega öskraði skipstjórinn. „Núna, núna, núna.“ Þá var beitt makríl á stóran krók og kastað. Gefin út smá lína og svo bara; Búmm. Túnfiskur negldi þetta. Eftir nokkurn tíma sáum við hann almennilega þegar hann stökk og synti þvert fyrir aftan bátinn. Ég held að allir hafi öskrað, vá. Þegar við áttuðum okkur á stærðinni.“

Silli kokkur kominn í stólinn. „Þetta var alveg klikkað,“
Silli kokkur kominn í stólinn. „Þetta var alveg klikkað,“ Ljósmynd/SJ

Mars og apríl eru bestu mánuðirnir í túnfiskveiði við Tenerife. Þá er mest af fiskinum í kringum eyjarnar og þeir eru oftast á bilinu 200 til 400 kíló.

„Við tókumst á við þennan risafisk í tæpa tvo tíma. Hann var um þrír metrar á lengd, sagði leiðsögumaðurinn. Það voru sex aðrir með okkur á bátnum og það mátti ekki minna vera. Allir fengu að fara í stólinn og taka á honum. Ég hefði ekki boðið í það ef við hefðum verið færri. Þetta voru ótrúleg átök og maður bara varla haggaði honum til að byrja með.“

Þessi mikli bláuggi var kominn nánast alveg að bátnum. Var svona tvo metra frá skutnum þegar hann skyndilega sneri sér að bátnum og vatt svo upp á sig og á augnablikinu skaust hann í hina áttina. „Ég horfði á það hvernig línan rann yfir tennurnar á honum og söng svo í sundur,“ sagði Silli. Hann segir hópinn hafa fengið allt út úr þessari siglingu sem hægt var.

Með þeim í för voru tveir veiðimenn sem voru að fara sinn þriðja túr á örfáum dögum. Deginum áður höfðu þeir landað 360 kílóa túnfiski. Þeir sögðu að þessi hefði verið mun stærri. Í fyrsta túrnum settu þeir líka í túnfisk en sá braut öngulinn og slapp.

„Við eigum viku eftir hérna og svo byrjar bara brjálæðið,“ hló Silli aðspurður um framhaldið. Hann er eins og svo margir vita með margverðlaunaðan matarvagn sem birtist hér og þar. Nú eru þau búin að bæta öðrum vagni við sig, fyrir sumarið. „Já, ég keypti annan vagn. Strákurinn vildi hafa eitthvað að gera í sumar svo við bættum öðrum vagni við. Hann verður með annað þema og býður upp á smash hamborgara,“ sagði kokkurinn káti.

Fyrir fólk sem hefur áhuga á að sjá hvar vagnarnir eru staðsettir eða panta Silla og vagnana hans er hægt að nálgast upplýsingar á sillikokkur.is hvort sem er á facebook eða á heimasíðunni. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.
100 cm Miðfjarðará Róbert G. Grímsson 24. september 24.9.
104 cm Stóra Laxá Rúnar Gauti Guðjónsson 23. september 23.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.

Skoða meira