Skógrækt helst ógn við rjúpnastofninn?

Rjúpnapar sem Ólafur myndaði í vor. Kjörlendi rjúpu og annara …
Rjúpnapar sem Ólafur myndaði í vor. Kjörlendi rjúpu og annara mófugla skarast við það land sem skógræktarfólk vill rækta upp. Ljósmynd/ÓKN

Metnaðarfull áform um skógrækt á Íslandi kunna að vera ein mesta ógn við rjúpu og aðra mófugla til framtíðar. Þær áætlanir sem uppi eru um skógrækt til lengri tíma litið munu eyða um helmingi varpsvæða rjúpunnar.

Ólafur Karl Nielsen fuglafræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands er sá núlifandi fræðimaður sem mest hefur rannsakað rjúpuna. Hann flutti fyrirlestur um fuglinn og rannsóknir sínar og vöktun á honum á ráðstefnu Skotveiðifélags Íslands sem haldin var í apríl í tilefni þess að 25 ár eru liðin frá því að Veiðikortakerfið var tekið upp á Íslandi.

Ólafur fór vítt og breitt í erindi sínu og velti meðal annars fyrir sér hag rjúpunnar til lengri tíma litið. Þar kom hann inn á ýmsa þætti er lúta að rjúpunni og horfði þá sérstaklega til þeirra þátta sem geta mögulega flokkast sem ógn. Þar ræddi hann meðal annars um þau áform sem uppi er um skógrækt á Íslandi. Hann vitnaði til framtíðarsýnar Skógræktarinnar. Hann tók fram að þau gögn sem hann notaði væru af heimasíðu Skógræktarinnar ásamt gögnum frá þessari ríkisstofnun.

Ólafur Karl Nielsen er sá núlifandi fræðimaður á Íslandi sem …
Ólafur Karl Nielsen er sá núlifandi fræðimaður á Íslandi sem mest hefur rannsakað rjúpnastofninn. Hann hefur áhyggjur af skrógræktaráformum sem uppi eru. Hér er hann að merkja fálkaunga. Ljósmynd/ÓKN

„Þeirra framtíðarsýn gerir ráð fyrir því að innan hundrað ára verði tólf þúsund ferkílómetrar landsins vaxið skógi. Í dag eru um tvö þúsund ferkílómetrar lands vaxið skógi. Viðbótin er því um tíu þúsund ferkílómetrar á næstu tæplega hundrað árum,“ sagði Ólafur í erindi sínu.

Hann tók næst til við að setja þessi markmið, sem hann kallaði metnaðarfull, í samhengi við það land sem er fýsilegt til skógræktar á Íslandi. Hann benti á að Skógræktin væri fyrst og fremst að horfa til lands sem er undir fjögur hundruð metrum yfir sjávarmáli. „En það er einmitt þetta land sem er kjörlendi rjúpunnar og annarra mófugla.“

Ólafur fór því næst yfir hversu víðfeðmt þessi hluti landsins er. Hann benti á að um væri að ræða ríflega 44 þúsund ferkílómetra sem væri land undir 400 metrum yfir sjávarmáli. Hann gerði gott betur. Hann setti fram hvernig þetta skiptist. Rétt tæpur helmingur þessa lands hentar ekki til skógræktar þar sem hluti þess er jöklar, standlendi, klettar og svo framvegis. Þá standa eftir eftir ríflega 24 þúsund ferkílómetrar sem samanstanda af Mólendi (12.371 ferkílómetri), melar og sandlendi (4.187), moslendi (4.062), graslendi (3.534) og moldir (23).

„Ef þessi framtíðarsýn skógræktarinnar nær fram að ganga verða um tíu þúsund ferkílómetrar af þessu landi vaxið skógi eftir um hundrað ár,“ sagði Ólafur í fyrirlestri sínum. Það eru þessi búsvæði sem eru aðaluppeldisstöðvar rjúpu og annarra mófugla.

Sporðaköst höfðu samband við Ólaf í framhaldi af þessu og spurðu frekar út í þessi áform Skógræktarinnar og mögulegt samspil við rjúpuna.

Það eru ekki lengur veiðar á rjúpu sem eru helsta …
Það eru ekki lengur veiðar á rjúpu sem eru helsta ógnin til framtíðar. Ágætt utanumhald hefur náðst um veiðarnar. Ólafur hefur áhyggjur af metnaðarfullum skógræktar áformum. Ljósmynd/ÓKN

Er þessi skógræktaráform raunveruleg ógn við rjúpnastofninn?

„Það eru ekki endilega veiðarnar sem ógna rjúpunni til framtíðar. Þar hefur náðst gott utan um hald. Það sem ógnar raunverulega er eyðing búsvæða og þar með eyðing varplenda. Þegar horft er til metnaðarfullra áforma sem uppi eru um skógrækt þá er augljóst að blikur eru á lofti varðandi framtíð rjúpunnar. Þegar Skógræktin kynnir umfang sinnar framtíðarsýnar þá er gjarnan miðað við heildarflatarmál landsins sem er um hundrað þúsund ferkílómetrar. Þetta er kynnt sem óverulegt hlutfall lands sem eigi að fara undir skóg. En þetta er land neðan 400 metra hæðarlínunnar sem verður plantað í og hér skarast hagsmunir rjúpu og mófugla við hagsmuni Skógræktarinnar. Stærstur hluti þeirra rjúpna sem sækja til fjalla á haustin eru klaktar úr eggjum og uppaldar í móum á láglendinu. Búsvæði rjúpunnar eru brothætt. Við sjáum til dæmis að um leið og beit er hætt á ákveðnum landsvæðum þá breytist gróðurfar og verður ekki jafn hagfellt rjúpunni og áður. Ef við breytum móum og graslendi í barrskóg þá er það algerlega horfið rjúpunni,“ sagði Ólafur í samtali við Sporðaköst.

Hann ítrekar að það séu því í raun bæði loftslagsbreytingar og breytt landnotkun sem geti reynst rjúpunni hættulegust til framtíðar. „Þetta bitnar ekki bara á rjúpunni. Þetta mun líka bitna á þessum stóru mófuglastofnum sem við Íslendingar berum ábyrgð á. Þar erum við að tala um lóuna, spóann og lóuþrælinn svo við nefnum einhverjar tegundir, sem byggja þessi sömu svæði og rjúpan.“

Deilur hafa staðið um þetta mál árum saman, þar sem takast á vilji til skógræktar annars vegar og hins vegar þeir náttúruverndarþættir sem Ólafur Karl Nielsen nefndi hér að ofan.

Ólafur þekkir vel til þessara deilna sem hafa staðið yfir lengi án niðurstöðu. Hann hafnar alfarið röksemdum Skógræktarinnar um að búsvæðaskerðingin sé léttvæg, að aðstæður á vetrarstöðvum ráði stofnstærð mófuglanna, og að mófuglarnir fari bara eitthvað annað er skógurinn vex upp. En ljóst er að ef um helmingur varplanda rjúpu og mófugla hverfa þá mun fækka verulega í stofnum þessara fugla.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.
100 cm Miðfjarðará Róbert G. Grímsson 24. september 24.9.
104 cm Stóra Laxá Rúnar Gauti Guðjónsson 23. september 23.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.

Skoða meira