Kuldahrollur fer um laxveiðimenn

Fyrsti laxinn í Brennunni, háfaður í morgun.
Fyrsti laxinn í Brennunni, háfaður í morgun. Ljósmynd/IH

Opnanir í Norðurá og Þverá/Kjarrá gáfu ágæt fyrirheit miðað við síðustu ár. En framhaldið hefur fengið menn til að staldra við. Veiði í þessum ám er býsna róleg. Vonin um að tveggja ára fiskurinn kæmi í töluverðu magni, þvert á það sem fiskifræðingar hafa sagt og þó svo að lítið hafi verið af smálaxi i fyrra, var svo sannarlega til staðar og menn voru óvenju bjartsýnir eftir þrjú léleg ár í laxveiðinni.

Það er verið að slíta upp fiska eins hann Óskar Hængur Gíslason gerði í Brennunni í morgun. Það er fyrsti laxinn sem veiðist þar í sumar og reyndar slapp annar nokkru síðar. Brennan er ósasvæði Þverár í Borgarfirði.

Kátir feðgar með fyrsta laxinn úr Brennunni í sumar. Það …
Kátir feðgar með fyrsta laxinn úr Brennunni í sumar. Það var Óskar Hængur Gíslason sem veiddi hann en pabbi, Gísli Ásgeirsson heldur á honum. Ljósmynd/GÁ

Hvað er jákvætt í upphafi veiðitímans?

Laxar hafa sést í flestum ám og þannig fréttum við af fyrstu nýrenningunum í Selá í Vopnafirði. Fimm smálaxar sáust í Kjósinni í gær. Útganga seiða í fyrra var víða ágæt og það gæti verið vísbending um góðar smálaxagöngur þegar líður aðeins inn í sumarið. Fyrstu smálaxarnir eru farnir að sjást í fleiri ám. Þokkaleg veiði hefur verið í Urriðafossi en þó aðeins minni en í fyrra.

Hvað er neikvætt í upphafi veiðitímans?

Stórlaxinn virðist ekki vera að koma í miklu magni. Í Blöndu er nú búið að veiða í viku og þar hefur enn ekki veiðst nýgenginn lax svo Sporðaköst viti af. Eftir þokkalegar opnanir er virkilega rólegt í Norðurá og Þverá/Kjarrá.

Bjartsýnasta fólk í heimi er án efa laxveiðimenn. En þeir geta líka verið fljótir að hengja haus. Auðvitað eru þetta fyrstu dagar veiðitímans en þegar menn mættu með bakpoka fulla af bjartsýni er ástandið fljótt að breytast þegar lítið eða ekkert gengur.

Á næstu dögum opna margar ár og myndin mun skýrast smátt og smátt. Sól og meiri lax munu eyða þessum kuldahrolli sem margir veiðimenn viðurkenna að finna fyrir. Þetta er frétt sem vonandi verður úrelt eftir örfáa daga með vaxandi straumi sem nú er til staðar en það á að vita á aukna laxagengd.

Á morgun opnar Laxá í Leirársveit og á miðvikudag eru það Laxá í Kjós, Eystri – Rangá og Hítará.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Laxá í Dölum Stefán Sigurðsson 24. júní 24.6.
102 cm Laxá í Aðaldal Dagur Ólafsson 24. júní 24.6.
104 cm Þverá Snorri Arnar Viðarsson 15. júní 15.6.
105 cm Laxá í Leirársveit Pétur Óðinsson 13. júní 13.6.
Veiðiárið 2021:
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.

Skoða meira