Conráð í hrakningum í Haukadalsá

Jóhann Guðmundsson leiðsögumaður með 97 sentímetra hæng sem hann veiddi …
Jóhann Guðmundsson leiðsögumaður með 97 sentímetra hæng sem hann veiddi í dag, í Laxá í Kjós. Þessi fiskur er farinn að taka mikinn lit og áætlað er að hann hafi mætt um miðjan maí. Ljósmynd/JG

Fram til þessa er tvennt sem stendur upp úr í laxveiðinni. Það er annars vegar sú staðreynd að opnanir hafa verið afar misjafnar. Jafnvel í ám sem eru nánast með sama ós. Hitt atriðið er það að víða kvarta menn um tökuleysi sem yfirleitt er ekki vandamál á þessum tíma.

Opnanir í Elliðaánum, Grímsá, Langá, Laxá í Kjós, Norðurá, Kjarrá, Mýrarkvísl, Ytri – Rangá og Víðidalsá hafa verið frá því að vera allt í lagi yfir í það að vera góðar.

Svo eru aðrar ár sem hafa valdið vonbrigðum. Þannig má nefna Laxá á Ásum, Vatnsdalsá, Haukadalsá, Þverá, Blöndu, Eystri – Rangá og Laxá í Aðaldal.

Í seinni flokknum eru ár sem hafa núllað eða skilað minna af fiski en búist var við. Rétt er þó að setja allt þetta undir mælistikuna að menn áttu von á lélegu stórlaxaári. Bjuggust ekki við miklu af tveggja ára laxi, en það er jú hann sem ber uppi veiðina fyrstu daga og vikur á veiðitímanum.

Opnun í Blöndu, Laxá á Ásum og Vatnsdalsá skilaði frá engum og upp í tvo laxa. Víðidalsá í næsta nágrenni var með opnun upp á sextán laxa. Miðfjarðará á sama svæði skilaði tólf löxum. Þar eru hins vegar gerðar kröfur um svo mikla veiði í ljósi síðasta áratugar að slík opnun flokkast sem vonbrigði.

Vesturlandið er misjafnt. Þannig hefur Þverá verið býsna róleg á meðan að Kjarrá hefur verið allt í lagi. Greinilegt að þar hefur fiskurinn straujað upp á fjall.

Fjölmargir leigutakar og veiðimenn hafa haft orð á því við Sporðaköst að lítil eða léleg taka hafi verið í fiskinum þessa fyrstu daga og verður það að teljast í hæsta máta óeðlilegt því yfirleitt er vorfiskurinn tökuglaður.

Svona var stemmingin í opnun í Haukadalsá. Meðlimir Conráðs uppgefnir. …
Svona var stemmingin í opnun í Haukadalsá. Meðlimir Conráðs uppgefnir. Sáu ekki lax en samt var opnunin fjörleg en þá helst í kringum veiðihúsið. Ljósmynd/Conráð

Hrakfarir Conráðs

En þá að Conráð blessuðum. Það er veiðihópur sem hefur undanfarin ár opnað Haukadalsá. Hópurinn kallar sig Conráð og segir farir sínar ekki sléttar úr opnun þar dagana 20. til 22. júní. Svo hljóðandi er skýrsla frá forsvarsmanni hópsins, en það er Sigþór Sigurðsson.

„Vildi deila með þér miklum hrakförum veiðifélagsins Conráðs sem opnaði Haukadalsá 20. – 22. júní. Ekki bara það að hópurinn sem samanstendur af átta þrautreyndum veiðimönnum hafi núllað algjörlega í veiðinni heldur varð hreinlega ekki vart við neinn fisk í ánni. Hvergi !! Utan einn smálax sem sást stökkva á grunsamlegum stað. Við fullyrðum eftir að hafa kembt staðina að hreinlega enginn lax sé mættur í ánna. Veiðifélagar í Conráð hafa ekki upplifað annan eins túr síðan seint á síðustu öld.

Þetta var með hreinum ólíkindum. Frægir staðir eins Blóti og Hornið galtómir. Berghylur og Bjarnarlögn, staðir sem alltaf geyma fisk – allt galtómt.“

Svo mörg voru þau orð. Sigþór sem sér um samskipti við fjölmiðla fyrir hönd hópsins tók þó fram að fjörlegt hefði verið í opnuninni en það hefði helst verið í veiðihúsinu.

Sumar betri aðrar lakari

Vikutölur úr veiðinni birtust á hádegi í dag á vefnum angling.is Tölurnar miðast við lok veiðidags í gær.

Urriðafoss í Þjórsá trónir á toppnum með mikla yfirburði eða 235 skráða laxa. Athygli vekur að það er mun minni veiði en í fyrra. Á sama tíma fyrir ári voru komnir 331 lax á land.

Norðurá er í öðru sæti með 85 laxa en var á sama tíma í fyrra með 65 í bók.

Þriðja sætið vermir Þverá/Kjarrá með 87 fiska sem er líka töluvert betra en í fyrra. Þá var veiðin á þessum tíma 72 laxar.

Svo þéttist pakkinn. Laxá í Leirársveit vekur athygli. Átta laxar höfðu veiðst þar á þessum tíma í fyrra en nú er búið að landa 32.

Miðfjarðará er aðeins undir miðað við sama tíma í fyrra. Nú 31 lax. Í fyrra voru þeir orðnir 47.

Elliðaárnar komnar í 30 laxa.

Laxá í Kjós langt yfir, miðað við í fyrra. 29 nú voru 11 í fyrra.

Haffjarðará með 27 og svo kemur Víðidalsá með 16.

Leginn og lúsugur í Kjósinni

Veiði hjá Jóhanni Guðmundssyni í Laxá í Kjós vakti verðskuldaða athygli í morgun. Hann veiddi tvo laxa. Sá fyrri var 97 sentímetra hængur sem var orðinn nokkuð leginn. Sennilega gengið í ána fyrri hluta mái mánaðar. Þetta er stærsti lax til þessa í sumar í Kjósinni. Þessi snemmgengni hængur féll fyrir lítilli Sunray shadow í Kitchen eða Eldhúshyl. Nokkru síðar fékk Jóhann svo annan lax og var það ríflega 80 sentímetra lúsugur lax. Nokkrar andstæður þar á ferð í einum og sama hylnum. Annar lax veiddist í Bugðu í Kjósinni í gær og var ljóst að sá fiskur var búinn að vera að minnsta kosti fimm vikur í ánni.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Laxá í Dölum Stefán Sigurðsson 24. júní 24.6.
102 cm Laxá í Aðaldal Dagur Ólafsson 24. júní 24.6.
104 cm Þverá Snorri Arnar Viðarsson 15. júní 15.6.
105 cm Laxá í Leirársveit Pétur Óðinsson 13. júní 13.6.
Veiðiárið 2021:
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.

Skoða meira