„Ég var bara í losti eftir þetta“

Þórarinn með hrygnuna miklu sem veiddist í Minkahyl og tók …
Þórarinn með hrygnuna miklu sem veiddist í Minkahyl og tók heimatilbúna Sunray númer fjórtán. Mæld 100,7 sentímetrar. Ljósmynd/Steingrímur Friðriksson

Deildará á Sléttu er að eiga mun betra ár en í fyrra. Að sögn veiðimanna sem eru fyrir norðan er hún að verða komin í 180 laxa. Á sama tíma í fyrra var hún að komast í hundrað laxa. Sporðaköst ræddu við þá Þórarinn Blöndal og Steingrím Friðriksson sem áttu sannkallað galdrakvöld þar í gær þegar þeir lönduðu risahrygnu í Minkahyl.

Það var Þórarinn sem setti í hrygnuna í fyrsta kasti og efst í hylnum. „Við vorum bara steini lostnir þegar við sáum hana stökkva, hvað hún var björt og falleg. Ég var bara í losti eftir þetta. Ég get sagt þér það. Við áttum ekki von á þessu,“ sagði Þórarinn í gærkvöldi. Þeir félagar voru þá nýbúnir að gæða sér á dýrindis mat. Létt grilluð langreyð með kartöflum og hrísgrjónum. Hvað er meira við hæfi en hvalkjöt eftir að hafa landað svona skepnu?

„Þetta var var sannkallað ævintýri. Eftir að við lönduðum hrygnunni og slepptum henni þá setti Steingrímur í annan svona stóran fisk en við misstum hann. Ég tók fast á henni enda þarf maður að hafa allan vara á sér þarna. Það er mikið af grjóti í hylnum. En hún tók efst og rauk svo alveg niður úr öllu og lyfti sér þar svo hátt í loft. Ég hugsa að viðureignin hafi tekið um hálftíma þegar upp var staðið.

Þetta var mjög fallegt. Sléttan var eins falleg og hún getur verið og kvöldið var hreinlega göldrótt.“

Þetta er flugan sem hrygnan tók. Afbrigði af Sunray sem …
Þetta er flugan sem hrygnan tók. Afbrigði af Sunray sem Þórarinn hnýtti sjálfur. Ljósmynd/Þórarinn Blöndal

Þeir voru búnir að landa fimm löxum og missa þrjá þegar kom að þessu ævintýri. Það voru fallegir smálaxar og hrygna sem mældist 82 sentímetrar. Svo kom þessi drottning og hún mældist 100,7 sentímetrar. Þetta er stærsti fiskur sem Þórarinn hefur landað og ekki skemmdi það ánægjuna að fiskurinn tók heimagerða Sunray útgáfu á tvíkrækju númer fjórtán.

„Við vönduðum okkur mjög við að mæla hana og Steingrímur hefur landað mörgum fiskum í þessum stærðarflokki og fiskurinn sem er uppstoppaður í veiðihúsinu er 105 sentímetrar og Steingrímur einmitt veiddi hann. Við lögðum alla áherslu á að halda lífi í henni og ég var ekkert að lyfta henni upp í myndavélina. Bara hvíldi hana við hnéð á mér.“

Hér er svo önnur mynd þar sem Þórarinn skoðar hrygnuna. …
Hér er svo önnur mynd þar sem Þórarinn skoðar hrygnuna. Hann var í losti eftir viðureignina og þetta var ekki það sem hann átti von á. Ljósmynd/Steingrímur Friðriksson

Þórarinn sagði að mesta fjörið hjá þeim hefði verið yfir miðjan daginn. Þá náði lofthiti átta gráðum og sól skein þannig að áin hitnaði nokkuð og það hljóp líf í laxinn. Þegar þeir félagar keyrðu niður af heiðinni var hiti kominn í þrjár gráður. „Það er ljóst að við munum ekki flýta okkur út í fyrramálið,“ sagði Þórarinn í gærkvöldi.

Það er góður siður þegar komið er fram á þennan tíma og nætur orðnar kaldar að vera ekki að fara snemma út. Hver gráða sem vatnshiti eykst er dýrmæt og líkurnar aukast eftir því sem hitnar. Ef menn fara of snemma að kasta á veiðistaðina eyðileggja þeir að öllum líkindum fyrir sér. Geti menn ekki stillt sig er best að geyma líklegustu staðina.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Lagarfljót Jóhannes Sturlaugsson 2. október 2.10.
100 cm Stóra - Laxá Vigfús Björnsson 30. september 30.9.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.

Skoða meira