Lokaspretturinn hafinn í laxveiðinni

Laxá á Ásum gaf umtalsvert betri veiði en í fyrra. …
Laxá á Ásum gaf umtalsvert betri veiði en í fyrra. Þá státar áin líka af stærsta laxi sumarsins til þessa. Hér eru Sturla Birgirsson og Falmouth lávarður með 105 sentímetra fisk sem sá síðarnefndi veiddi í Langhyl 22. júlí. Ljósmynd/SB

Fyrstu lokatölurnar í laxveiðinni eru komnar í hús. Þannig eru bæði Haffjarðará og Laxá á Ásum búnar að senda frá sér lokatölur. Ásarnir gerðu töluvert betur en í fyrra og loka með 820 löxum á móti 600 í fyrra. Haffjarðará er aðeins undir lokatölunni í fyrra en þar er ekki mikill munur. Talan í ár er 870 en var í fyrra 914 laxar.

Hér að neðan er topp tíu listinn og vekur helst athygli ágæt vikuveiði bæði í Miðfjarðará og Þverá/Kjarrá en bæði veiðisvæðin skiluðu vikuveiði upp á 101 lax.

Rangárnar eru báðar í kringum 200 laxa vikuveiði og var sú Eystri örlítið betri. Þá er Affallið á hraðri leið upp listann og er áin komin í 770 laxa eftir rólega byrjun.

Sem fyrr er það NA – sem er besta landsæðið þegar veiðin er borin saman við veiðina í fyrra. Allar ár á svæðinu eru komnar yfir heildarveiði síðasta árs og sumar jafnvel tvöfaldað hana eins og Hofsá og Miðfjarðará í Bakkafirði.

Fleiri ár sem vekja athygli eru Stóra – Laxá sem er komin í 713 laxa en lokatala í fyrra var 485 laxar. Flókadalsá í Borgarfirði er komin í 500 laxa en gaf í fyrra 281 lax.

Sérstakt áhyggjuefni er svo Laxá í Aðaldal sem virðist ekki ná sér upp úr þeim mikla öldudal sem áin er í. Talan nú er 368 laxar og stefnir í enn eitt afleita árið í Aðaldalnum og stefnir i hennar lélegasta ár, frá upphafi, eða eins langt og tölur ná aftur til ársins 1975. Hennar lélegasta ár fram til þessa var 2020 en þá gaf hún 388 laxa.

Við birtum hér topp tíu listann og í sviga fyrir aftan er fjöldi laxa sem höfðu veiðst á sama tíma í fyrra. Þriðja talan er svo vikuveiði síðustu viku.

1. Ytri – Rangá og Vesturb. Hólsár 4.233 (2.939) Vikuveiði 196

2. Eystri – Rangá 3.191 (2.801) Vikuveiði 206

3. Þverá/Kjarrá  1.414 (1.377) Vikuveiði 101

4. Miðfjarðará 1.391 (1.596) Vikuveiði 101

5. Norðurá 1348 (1.431) Vikuveiði 68

6. Hofsá 1.145 (560) Vikuveiði 48

7. Selá 1.117 (764) Vikuveiði 46

8. Urriðafoss 983 (820) Vikuveiði 17

9. Langá  960 (757) Vikuveiði 59

10. Haffjarðará 870 (914). Vikuveiði 53 LOKATÖLUR

Þessar tölur eru fengnar af vef Landssambands veiðifélaga angling.is og þar má finna upplýsingar um fjölmargar laxveiðiár.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.
101 cm Víðidalsá Rögnvaldur Guðmundsson 12. september 12.9.
103 cm Ytri - Rangá Adrian Stauss 8. september 8.9.

Skoða meira