Ragnheiður Thorsteinsson verður næsti formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur og jafnframt fyrst kvenna til að gegna embættinu. Ekki vekur síður athygli að meirihluti stjórnar félagsins verður skipaður konum. Þó svo að aðalfundur SVFR verði ekki fyrr en 23. febrúar liggur fyrir að ofangreindar breytingar munu eiga sér stað.
Jón Þór Ólason, sem gegnt hefur formennsku í félaginu í fimm ár, gefur ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Hann mun ef að líkum lætur taka við formennsku í fulltrúaráði og „verða ávallt til aðstoðar og ráðgjafar, verði þess leitað“, eins og hann orðaði það í samtali við Sporðaköst í dag.
Framboðsfrestur til stjórnar og formanns er runninn út og því ljóst hverjir munu skipa embættin. Jón Þór segir þetta góðan tíma til að nýr aðili taki við keflinu. „Þegar maður starfar sem hæstaréttarlögmaður, og með lögmannsstofu og rektor í lagadeild Háskóla Íslands, þá eru fimm ár bara góður tími. Það fer mjög mikill tími í að vera formaður og það er um margt krefjandi. En við erum annað árið í röð með methagnað af félaginu og eigið fé að nálgast hundrað milljónir og fjölgun félagsmanna verið mikil síðustu ár. Við erum líka búin að ganga frá samningum um okkar lykilsvæði vel fram í tímann. Þannig að ég met þetta sem góðan tímapunkt,“ sagði Jón Þór í viðtali við Sporðköst.
Hann er ekki farinn langt. Hann tekur við sem formaður fulltrúaráðs SVFR og ætlar að vera á fullu í baráttunni gegn laxeldinu og ef þörf er á er hann tilbúinn til aðstoðar og ráðgjafar. Jón Þór fer hlýjum orðum um eftirmann sinn, hana Röggu, og segist vita að félagið verði í góðum höndum hjá henni og þeirri stjórn sem tekur formlega við á aðalfundi þann 23. „Hvers manns hugljúfi með bein í nefinu,“ segir hann um nýja formanninn.
„Þegar ég tók við fyrir fimm árum lofaði ég félagsmönnum því að ég myndi koma félaginu á betri stað fjárhagslega, gera okkur sýnilegri út á við, taka upp baráttuna gegn laxeldinu, auka hlut kvenna í félaginu ásamt því að styrkja barna- og unglingastarf félagsins. Loks lagði ég á það áherslu að útrýma klíkuskap í SVFR. Markmið mitt var að búa til hið nýja Stangó og færa það inn í nútímann. Ég vona að það hafi tekist,“ segir Jón Þór.
Auðvitað eru það tímamót þegar fyrsta konan tekur við formennsku í SVFR. Jón Þór rifjar upp að þegar fyrsta konan tók sæti í stjórn félagsins hafi Loki sagt á baksíðu DV að nú væri síðasta vígið fallið.
Ragnheiður Thorsteinsson, sem tekur við embættinu á aðalfundinum, sagði í samtali við Sporðaköst að auðvitað væri þetta spennandi verkefni og hún væri mjög stolt af þessu. „Verkefnin eru áfram fjölmörg, en Jón Þór hefur farið fyrir góðum hópi sem hefur unnið frábært starf. Ég hlakka til framhaldsins og það er gott að taka við góðu búi,“ sagði verðandi formaður SVFR.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Lagarfljót | Jóhannes Sturlaugsson | 2. október 2.10. |
100 cm | Stóra - Laxá | Vigfús Björnsson | 30. september 30.9. |
102 cm | Laxá í Aðaldal | Aðalsteinn Jóhannsson | 19. september 19.9. |
103 cm | Víðidalsá | Rob Williams | 17. september 17.9. |
101 cm | Stóra - Laxá | Jim Ray | 16. september 16.9. |
102 cm | Víðidalsá | Svanur Gíslason | 15. september 15.9. |
101 cm | Miðfjarðará | Stebbi Lísu | 14. september 14.9. |