Uppgjöf og vonleysi hjá Bretunum

Vorveiðin á Bretlandseyjum hefur verið sú lélegasta í manna minnum. …
Vorveiðin á Bretlandseyjum hefur verið sú lélegasta í manna minnum. Hér er Árni Baldursson að kasta fyrir lax í Dee í Skotlandi í mars. Hann náði fyrsta laxinum eftir tvær og hálfa viku. Ljósmynd/Árni Baldursson

Veiðimenn sem stunda vorveiði á laxi á Bretlandseyjum eru sammála um að veiðitímabilið nú í vor sé það lélegasta sem menn muna. Fjölmargir veiðimenn sem hafa verið að tjá sig um veiðina lýsa ekki bara yfir áhyggjum heldur láta margir reynslusögur fylgja. Þannig skrifaði Crispin Rodwell færslu á facebook í gærkvöldi að þetta versta vorveiðitímabil sem hann hefði upplifað í fjörutíu ár. „Ég veiddi sautján daga á mjög góðum svæðum í Tweed og einn dag í ánni Tummel. Ég landaði einum laxi,“ skrifar Crispin.

Fjölmargir veiðimenn tjáðu sig um færslu hans og voru allir sammála um að þetta væri versta útkoma í manna minnum. Þannig skrifaði Kevan Gath, „Algert hrun þetta árið og það virðist vera í öllum ám.“

Árni Baldursson er einn af þeim sem tjáir sig og tekur undir með öðrum. Hann veiddi í Skotlandi í hátt í þrjátíu daga í vor og landaði einum laxi. Þegar Árni Baldursson finnur þá ekki er það bara vegna þess að þeir eru ekki á staðnum. „Í fyrra var ég fimm vikur í vorveiði í Skotlandi og landaði 15. Ég var svipaðan tíma núna í vor og fékk tvo laxa. Þetta er algert hrun. Dee gaf níu laxa í síðustu viku á 150 stangir,“ upplýsir Árni. 

Eitt af svæðunum sem hann hefur stundað hefur gefið tólf laxa frá því í febrúar og þar af er Árni með þessa tvo sína. Hann segist sannfærður um að loftslagsbreytingar séu ástæðan. Hann nefnir storminn Frank sem reið yfir Bretlandseyjar 2015. Hann hafði gríðarleg áhrif og segir Árni að síðan hafi fleiri fylgt í kjölfarið og leikið þessar ár og íbúa þeirra grátt. „Ég er þeirrar skoðunar að loftslagsbreytingar séu meiri óvinur laxins en sjókvíaeldi. Við sjáum bara hvernig þessar veðrabreytingar hafa farið með árnar í Skotlandi. Þetta hafa verið náttúruhamfarir í sverari kantinum. Ég er skíthræddur um að flóðin hjá okkur á Norðurlandi í vetur muni hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér.“

Hann segir leiðsögumenn við Dee, þar sem hann þekkir vel til vera í öngum sínum. Þeir sjá margir fram á að missa vinnu sína miðað við þá þróun sem nú er í gangi. Flestir þeirra hafi svo húsnæði í tengslum við vinnuna og þeir muni samfara uppsögn missa húsnæðið. „Verði það raunin munu fjölskyldur flosna upp þarna. Dee er lífæð þessa svæðis og hótel og veitingastaðir treysta á veiðimenn sem koma til að veiða. Ef laxinn hverfur er þetta allt í voða.“

Vorlax eins og þeir gerast bestir á Bretlandseyjum. Marina Gibson …
Vorlax eins og þeir gerast bestir á Bretlandseyjum. Marina Gibson fékk þennan í ánni Tweed í apríl. Laxarnir hafa verið fáir og langt á milli þeirra. Ljósmynd/Marina

Vika sem var að gefa í þokkalegu vori í Dee um 150 laxa er nú að skila ríflega fimm til tíu löxum. Á bak við þá tölu eru, eins og Árni nefnir 150 stangir.

Það sem segir alla söguna er skýrsla Andrew Douglas-Home um veiði síðustu viku í nokkrum af bestu laxveiðiám Skotlands, fyrir síðustu viku. Hann byrjar á að nefna að hlutverk þess sem tekur saman veiðiskýrslur af þessum toga sé að auka mönnum bjartsýni og horfa jákvæðum augum á hlutina. Jafnvel leyfa sér að vera nálægt því að ýkja en allavega bjartsýnismegin í túlkun sinni á stöðunni. Svo segir hann. „Þegar svo er komið að maður á erfitt með að finna bjartsýnina og jákvæðnina þá er ekki mikið eftir.“

Tölurnar tala sínu máli. Stóru nöfnin, Tweed, Tay, Dee og Spey, með öllum sínum stangafjölda náðu ekki hundrað löxum í síðustu veiðiviku. Sennilega miklu færri en hundrað löxum. Eins og kom fram hér að ofan var Dee eins og sér að skila um hundrað og fimmtíu löxum á viku fyrir nokkrum árum. Hrun virðist vera staðreynd í vorveiðinni á þessum slóðum.

Forvitnilegt verður að sjá hvað sumarið og haustið gerir í þessum efnum í skosku ánum. Þó eru enn ljós í myrkrinu því árnar Thurso og Helmdale hafa verið að gefa einhverja veiði. Smálaxagöngur bjarga einhverju en „springerarnir“ eða stóri vorfiskurinn hefur verið mikið aðdráttarafl fyrir veiðimenn.

Írland virðist stefna í sömu átt, en þar hefur veiðin líka verið léleg.

Í ljósi þess sem segir hér að ofan má skilja enn betur ummæli Haralds Eiríkssonar, leigutaka í Laxá í Kjós, þegar fyrstu laxarnir sáust þar í síðustu viku. „Manni er alltaf létt þegar maður sér hann koma.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert