Fyrsti laxinn á land í Urriðafossi

Stefán Sigurðsson með fyrsta lax veiðisumarsins 2023. Lúsug 70 sentímetra …
Stefán Sigurðsson með fyrsta lax veiðisumarsins 2023. Lúsug 70 sentímetra hrygna. Með honum á mynd eru Haraldur Einarsson og Birna Harðardóttir. Ljósmynd/Eggert Skúlason

Laxveiðitímabilið hófst formlega nú í morgun þegar veiðimenn mættu spenntir í Urriðafoss í Þjórsá. 1. júní er dagurinn og klukkan átta voru veiðihjónin Stefán Sigurðsson og Harpa Hlín Þórðardóttir mætt að vitja þessa silfraða. Með í för var Matthías sonur þeirra og ábúendur að Urriðafossi. Haraldur Einarsson og Birna Harðardóttir sem eiga Urriðafoss voru ekki síður spennt.

Veiðistaðirnir Lækjalátur og Hulda eru þekktustu staðirnir. Fyrsti laxinn kom einmitt úr Lækjarlátri og var það Stefán Sigurðsson sem landaði honum. Þetta var fallegur lax, mældur 70 sentímetrar, sennilega lítil tveggja ára hrygna. 

Opnunardagurinn í fyrra gaf sautján laxa og var þá áberandi að hængar voru uppistaða í aflanum.

Laxinn mættur í Norðurá

Fyrsti laxinn sást í Norðurá í gær. Árnefndarmenn voru við merkingar á ánni enda hefst veiði þar á sunnudag. Áin var gríðarlega vatnsmikil í byrjun viku og skyggni lítið sem ekkert. Hún hefur svo fallið hratt í vatni og fór úr tvö hundruð rúmmetrum í tæplega fimmtíu í gær. Þegar komið var niður á Munaðarnessvæðið þá sá árnefndarmann fallegan lax stökkva á Klettsbreiðu. Giskuðu viðstaddir á að þetta hefði verið um 85 sentímetra fiskur. Spegilbjartur og á leið til móts við veiðimenn ofar í ánni.

Fréttin verður uppfærð

Eftir því sem líður á opnunardaginn munum við uppfæra frétt af gangi mála við Urriðafoss.

Haukur H. Ómarsson og Haraldur Haraldsson með þennan líka flotta …
Haukur H. Ómarsson og Haraldur Haraldsson með þennan líka flotta hæng. Einhvern veginn alveg fullkominn. Hann mældist 89 sentímetrar. Ljósmynd/IO

Uppfært 19:06

Nú eru komnir fimm laxar á land í Urriðafossi það sem af er degi. Stærsti fiskurinn til þessa er hængur sem mældist 89 sentímetrar. Haukur H. Ómarsson setti í hann í Huldu og landaði.

Símasamband er af skornum skammti við Urriðafoss og oft þarf að bíða eftir að fólk komist í samband til að fá upplýsingar. Það er skýringin á drættinum við að uppfæra fréttina.

Þessi sjón gleður alla veiðimenn. Laxalús með hala. Þessi fiskur …
Þessi sjón gleður alla veiðimenn. Laxalús með hala. Þessi fiskur er nýkominn úr sjó. Fyrst missir lúsinn halann og svo dettur hún sjálf af. Það eru innan við 24 tímar frá því að þessi gekk í ána. Ljósmynd/Eggert Skúlason

Fyrstu tveir laxarnir í morgun voru lúsugir og því nýgengnir. Stækkandi straumur er næstu daga og nær hámarki þann 5. Verður forvitnilegt að sjá hvort það skilar sér í auknum aflatölum.

Uppfært 22:33

Niðurstaða opnunardagsins í Urriðafossi voru sjö laxar. Stærsti var 89 sentímetrar en sá minnsti 70. Hinir voru á bilinu 75 – 80. Þetta er mun lakari veiði en á sama degi í fyrra. Hins vegar verður spennandi að sjá framhaldið. Allir laxarnir voru lúsugir og sagði Harpa Hlín í samtali við Sporðaköst í kvöld að þegar veiðimenn voru að hætta hefði fiskur verið að ganga inn í veiðistaðinn Hulda og þar hefðu sést fiskar stökkvað. Stærsti straumur er á mánudag.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jorgensen 17. september 17.9.

Skoða meira