„Ástæða fyrir því að febrúar er stuttur“

Spáin fyrir fyrstu daga febrúar. Umhleypingar og tilvalið að hnýta …
Spáin fyrir fyrstu daga febrúar. Umhleypingar og tilvalið að hnýta flugur í öllum landshlutum. Í ár er hlaupár þannig að febrúar er lengri en ella. Kristján fangar þarna upphaflega ástæðu Febrúarflugna. Ljósmynd/Kristján Friðriksson

„Það er ástæða fyrir því að febrúar er svona stuttur og það er af því að hann er leiðinlegasti mánuðurinn af þeim öllum. Maður er þakklátur Gregoríusi páfa fyrir að hafa stytt hann á sínum tíma. En já í þessum mánuði er lítið við að vera og skammdegið enn við völd og frekar langt í veiðitímann. Þannig að þetta kom nú eiginlega til af því að það var svo lítið við að vera,“ segir Kristján Friðriksson upphafsmaður árvissrar vakningar meðal fluguhnýtara og áhugamanna um fluguhnýtingar, aðspurður hvernig hugmyndin Febrúarflugur kviknaði á sínum tíma.

Febrúar er lagður undir Febrúarflugur sem er samfélagsmiðlaverkefni sem Kristján hefur staðið fyrir. Fólk á öllum aldri og báðum kynjum getur tekið þátt og þátttaka felst í því að birta mynd af flugu sem sendandinn hefur hnýtt. Opin grúbba er á Facebook þar sem hnýtarar senda inn myndir og athugasemdir og útskýringar ef við á. Sama gildir um Instagram. Svo eru alltaf einhverjir sem ekki eru með aðgang að þessum miðlum og þeir geta sent mynd í tölvupósti til Kristjáns á netfangið fos@fos.is og hann kemur myndinni til skila. FOS.IS er einmitt veiðivefurinn sem Kristján heldur úti og miðlar þar fróðleik og ýmiskonar afþreyingu.

Kristján er náttúrubarn og veiðimaður. Hér er hann í sínu …
Kristján er náttúrubarn og veiðimaður. Hér er hann í sínu náttúrulega umhverfi. Hann er upphafsmaður að Febrúarflugum sem hafa heldur betur undið upp á sig. Ljósmynd/Kristján Friðriksson

„Þetta er ellefta árið sem Febrúarflugur eru í gangi. Áhuginn hefur vaxið mjög mikið frá því að ég byrjaði á þessu. Fyrst var þetta nú bara svona dund og gert til dægrastyttingar. Vinir og kunningjar tóku þátt í þessu. Ég held að við höfum verið tuttugu í lokuðum hópi. Hentum þar inn myndum af því sem við vorum að sýsla við. Mig minnir að þetta hafi verið 135 flugur á þeim tíma. Svo var mér bent á að gera eitthvað meira úr þessu og ég byrjaði með þetta sem viðburð á Facebook og svo hefur þetta aukist jafnt og þétt. Í fyrra birtust ríflega 1.400 myndir frá hinum og þessum,“ upplýsir Kristján.

Þarna ægir saman alls konar. Byrjendur í bland við gömlu meistarana, ef því er að skipta. Innsendingar á myndum eru ekki liður í keppni. Fólk er bara að sýna sitt og skoða hjá öðrum. Enda eins og Kristján bendir á, þá er hópurinn opinn og miklu fleiri en þeir sem senda inn eru að skoða það sem fram fer.

Fyrsta myndin sem Kristján sendi okkur. Hér hefur Dýrbítur litið …
Fyrsta myndin sem Kristján sendi okkur. Hér hefur Dýrbítur litið dagsins ljós í væsinum hjá Jóni Ágústi Runólfssyni. Ljósmynd/Jón Ágúst Runólfsson

Þegar þessi „ömurlegi“ mánuður er að baki þá lætur Kristján tölvuna hjá sér velja nokkur nöfn af handahófi og hinir heppnu fá glaðning fyrir þátttökuna. „Það er alveg magnað hversu mörg fyrirtæki hafa verið tilbúin til að styrkja þetta í gegnum árin. Ég hef verið að fá allt frá inneignarnótum frá verslunum upp í veiðidaga í laxveiði. Hinir heppnu í lok mánaðarins fá svo tilkynningu um vinningana.“

Kristján minnist þess eitt árið að rétt fyrir úrdráttinn kíkti hann inn á Facebook á Febrúarflugur og fimm mínútum áður en lokað var fyrir innsendingar sendi einn inn sína fyrstu flugu og viti menn hann vann stærsta vinninginn. Kristján hlær.

„Mér finnst bjútíið við þetta vera að þarna eru að deila og gefa af sér tíu ára strákar og stelpur og svo þrautreyndir hnýtarar til áratuga. Ég man að eitt árið var einn maður búinn að vera mjög duglegur og hafði skilað inn flugu á hverjum einasta degi. Síðasta daginn fékk sjö ára dóttir hans einn öngul og mikið af bleikju hnýtingaefni og glimmeri. Hún hnýtti flugu og sendi inn mynd og nafnið hennar kom upp úr pottinum þegar dregið var. Pabbinn var ekki svo heppinn.“

Copper John eftir Pétur Geir Magnússon. Strax í gærmorgun hrúguðust …
Copper John eftir Pétur Geir Magnússon. Strax í gærmorgun hrúguðust inn myndir af flugum í Febrúarflugum. Ljósmynd/Pétur Geir Magnússon

Kristján segist sjá margt jákvætt við þennan áratug sem Febrúarflugur hafa verið við líði. Fyrir tíu árum var febrúar bara leiðinlegur mánuður og það var leit að góðu hnýtingaefni í verslunum á Íslandi. Það var lítil eftirspurn og því var framboðið í takt við það. Hann segir að þetta hafi verið orðið hálfgert „gamla karla sport“ á hnýtingakvöldum hjá Ármönnum.

Nú er öldin önnur segir Kristján. „Óli í Veiðihorninu er að styrkja mig þetta árið og hann fær þá á móti að nota nafnið Febrúarflugur eins og hentar við markaðssetningu. Þetta skiptir svo miklu máli. Ég veit að þau hjónin hafa verið að moka inn hnýtingavörum í búðina. Farðu bara í Veiðihornið í dag og úrvalið er endalaust. Flugubúllan, Vesturröst og Veiðiflugur og fleiri búðir eru allar komnar með ótrúlegt úrval. Ef þeir eiga það ekki til og þú spyrð hvort hægt sé tékka á tilteknu efni þá er það yfirleitt komið nokkrum vikum seinna.“

Já. Mig vantar einmitt ísbjörn.

„Já. Góða ferð til Svalbarða,“ skellihlær Kristján.

Sigþór var með þessa í væsnum. Laxafluga en nafn ekki …
Sigþór var með þessa í væsnum. Laxafluga en nafn ekki klárt. Enda ekki aðalatriði. Laxinn veit ekki hvað þær heita. Það er ekki nafnið sem fær hann til að taka. Sigþór Steinn Ólafsson

Eru einhverjar flugur sem þú manst eftir sem hafa fengið útbreiðslu eftir að hafa verið frumsýndar í Febrúarflugum?

„Já. Það er svolítið frægt með hana Helgu Gísladóttur. Hún var að birta myndir af flugum, einmitt í Febrúarflugum. Hún skilaði inn nokkrum og spurði hvort þær gætu virkað. Ein þeirra var þessi Rauða og hún sást einmitt fyrst í Febrúarflugum. Þetta var bara eitthvað fikt í Helgu. Hún fór með þessa flugu inn í Veiðivötn og hún virkaði svona líka vel. Ég held að tuttugasti hver fiskur sem komu á flugu í Veiðivötnum það sumarið hafi komið á Rauðu. Þeir sögðu mér strákarnir í Flugubúllunni og Vesturröst að þeir höfðu ekki undan að panta efnið sem hún var að nota í þessa flugu. Þessi útfærsla Helga lukkaðist svona líka ljómandi vel.“

Strax í gærmorgun fóru að hellast inn myndir á Facebookgrúbbuna Febrúarflugur og það voru myndir úr öllum áttum og af ólíkum flugum. Kristján féllst á að senda okkur nokkrar myndir til birtingar frá því í gær. Hann heldur vel utan um allt sem birtist og í gær stóð talan í 7.566 flugum, sem birst hafa í Febrúarflugum frá upphafi.

Svo er bara að kíkja á facebookgrúbbuna Febrúarflugur og annað hvort skoða eða jafnvel senda inn mynd ef eitthvað verður til í hnýtingasettinu.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert