Ráðleggingar reynslubolta í vorveiðinni

Matthías Stefánsson með vorfisk úr Leirá. 90,5 sentímetrar mældist þessi …
Matthías Stefánsson með vorfisk úr Leirá. 90,5 sentímetrar mældist þessi vígalegi hængur. Hann deilir hér með okkur hvaða fimm flugur hann notar í vorveiðinni. Ljósmynd/Stefán Sigurðsson

Nýtt veiðitímabil stangveiðimanna hefst eftir 26 daga. Að þessu sinni ber 1. apríl upp á annan í páskum og þá hefst vorveiðin í sjóbirtingsám víða um land. Sporðaköst leituðu í smiðju nokkurra reynslubolta þegar kemur að vorveiði á sjóbirtingi og urriða. Fyrir valinu urðu Sigþór Steinn Ólafsson grúskari, leiðsögumaður og stjórnandi hlaðvarpsins Hylurinn, Kristján Páll Rafnsson sem á og rekur Fish Partner og Matthías Stefánsson, leiðsögumaður og ástríðuveiðimaður.  

Veiðimöguleikar eru raunar fjölmargir þegar þann 1. apríl. Handhafar Veiðikortsins geta byrjað í Vífilsstaðavatni þann dag og bjóði veður upp það hafa fjölmargir lagt leið sína að vatninu til að bleyta línur og hefja veiðitímabilið. Fleiri vötn opna um mánaðamótin og svo fjölgar þeim þegar líður fram í mánuðinn. Elliðavatn opnar hins vegar þann 25. apríl eða á sumardaginn fyrsta.

Byrjum á Matthíasi. Spurt var um eftirlætis flugur í vorveiðinni. Matthías er afar iðinn við kolann þegar kemur að vorveiði og veiðir eins marga daga og hann mögulega getur. Síðustu ár hefur Leirá verið hans fyrsti veiðitúr og veiðin oft verið ævintýraleg í opnun. Matthías var ekkert að flækja málin. „Black Ghost, Svartur Nobbler, Krókurinn, Pheasant tail og Squirmy Wormy. Þetta eru einu flugurnar sem ég nota í vorveiðinni,“ upplýsti Matthías. Sem dæmi um eljuna hjá honum þá gerðu Sporðaköst frétt um Matthías vorið 2022, en þá hafði hann veitt í 21 dag í aprílmánuði. Hann fór víða það vorið. Leirá, Laxá í Kjós, Varmá, Eyjafjarðará, Hólaá, Ytri–Rangá og í vötnin í nágrenni borgarinnar eftir að þau voru opnuð. Þó að Matthías sé enn ungur að árum er hann samt kominn í hóp reynslubolta í vorveiðinni. Vorið sem hér er vitnað til veiddi hann yfir hundrað sjóbirtinga.

Sigþór hnýtir sínar flugur sjálfur. Hann vill vera viss um …
Sigþór hnýtir sínar flugur sjálfur. Hann vill vera viss um að krókarnir þoli þessa stóru birtinga sem bjóðast víða á Íslandi. Hér er hann með Frencie Ljósmynd/Sigþór Steinn Ólafsson


Sigþór Steinn er næstur. Hann var líka spurður um þær flugur sem hann notaði.

„Púpurnar, eru Blue Magic PT, Frencie PT, bleikan, Sexy Waltz og Copper John með og án rubberlegs.“ Sigþór hnýtir sínar flugur sjálfur og þar kemur fyrst og fremst til að hann vill vera með sterka króka og vita á hvaða króka flugurnar eru hnýttar. PT stendur fyrir Pheasant Tail og eins og sjá má af myndunum þá eru útfærslan sótt í þá mögnuðu flugu. Sigþór heldur áfram.

Sexy Walts. Sigþór hvetur menn til að nota frekar smærri …
Sexy Walts. Sigþór hvetur menn til að nota frekar smærri púpur. Hann veit hvað hann syngur. Ljósmynd/Sigþór Steinn Ólafsson

„Reynsla síðustu ára hjá mér er að fiskurinn vill frekar taka minni flugur en stærri í tæru vatni. Ég hef ekki mjög sterkar skoðanir á hvaða straumflugu ég nota. En mér finnst almennt að menn vanmeti hve styggur vorfiskurinn getur verið í tæru vatni, kannski fyrir utan allra fyrstu dagana, og noti of stórar flugur. Í kulda í Húseyjarkvísl og Eyjafjarðará verða þær alveg gintærar þar sem enginn snjór er að bráðna og þá hefur gefið vel að grenna tauma og minnka flugur. Það hefur verið mín tilfinning til dæmis í Eldvatni að opnunin veiði vel á straumflugur en svo þurfa þeir sem á eftir koma að beita varfærnari aðferðum.

Blue Magic útfærsla af Pheasant Tail. Það er nóg til …
Blue Magic útfærsla af Pheasant Tail. Það er nóg til eins og einhver sagði. Ljósmynd/Sigþór Steinn Ólafsson


Í Syðri Hólma í Tungufljóti eru svo allt öðruvísi aðstæður, mér finnst mikilvægt að átta mig á því hvort að fiskurinn sé í tæra vatninu sem kemur úr Tungufljóti eða í jökulvatninu í Kúðafljóti. Ef að mér finnst fiskurinn vera í tæra vatninu þá nota ég léttari græjur, lengri tauma og minni flugur. Sé hann í jöklinum þá vil ég miklu öflugri aðferð. Nota þá sökktauma, og flugu sem riður frá sér vatni. Þarna er fiskurinn mikið á ferðinni og því mikilvægt að vera með bæði „set up“ tilbúin á bakkanum. Oft í vorveiði er fiskurinn bunkaður á ákveðnum stöðum og mikið barið á honum.“

Sigþór segist hafa mótað sér þá skoðun að liturinn á flugunni sé ekki stóra atriðið í þessari veiði. Hins vegar sé mikilvægt að menn séu vakandi fyrir aðstæðum og séu að veiða en ekki bara að kasta.

Kristján Páll Rafnsson leigutaki og veiðimaður með fallegan birting sem …
Kristján Páll Rafnsson leigutaki og veiðimaður með fallegan birting sem veiddist í Syðri Hólma. Það er eins gott að klæða sig vel þessa fyrstu daga veiðitímans. Ljósmynd/Fish Partner

Loks er það Kristján Páll Rafnsson. Fyrsta sem hann nefnir er Black Ghost og þá helst í zonker útgáfu. Svo er það Super Tinsel í trailer útgáfu og ýmsar útgáfur af Intruders flugum. „Svo er það Pussy fly, bleik og margvíslegar útgáfur af zonker straumflugum sem gúmmílöppum. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki með nöfnin á þeim öllum sem ég er að nota enda margar þeirra nafnlausar og mínar útgáfur,“ upplýsir Kristján Páll.

Ef við tökum þetta saman þá er Black Ghost flugan en hún er til í svo mörgum útgáfum. Eitt sem er líka vert að hafa í huga er að Olive Black Ghost hefur verið að virka afar vel síðustu ár í urriða og vorveiði almennt. Ólívugrænn litur sem urriðinn virðist spenntur fyrir. Svo er það kannski oft hitastig sem ræður því hvað virkar. Ef koma heitir dagar og vatnshiti hækkar um nokkrar gráður eru meiri líkur á að birtingurinn taki ofar í vatninu eða jafnvel í yfirborðinu. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert