Staða villta laxins orðin ískyggileg

Ævintýramaðurinn Árni Baldursson hefur veitt í Dee í Skotlandi í …
Ævintýramaðurinn Árni Baldursson hefur veitt í Dee í Skotlandi í rúma þrjá áratugi. Hann er einn af þeim sem hefur upplifað hnignunina. Þessi mynd er frá árinu 2019. Hann er við veiðar þessa dagana í Dee og er enn fisklaus eftir tæpa viku. Ljósmynd/Árni Baldursson

Staða villta laxins í Norður–Atlantshafi er orðin afar ískyggileg. Veiðitölur tala þar sínu máli. Síðasta ár var það næst lélegasta á Íslandi þegar horft er aftur til ársins 1974, frá því að farið var að halda skipulega utan um veiðiskráningu.

Veiðin í Noregi í fyrra er sú lélegasta sem menn hafa séð þar. Hrun varð í laxveiðinni í Svíþjóð og var veiðin einungis um tuttugu prósent af því sem hafði verið árin á undan.

Kanada berst líka í bökkum þegar kemur að villta laxinum. Áin Skjern í Danmörku hefur verið ljós í myrkrinu og þar hefur tekist vel til við að endurreisa laxastofninn í ánni sem hafði nánast verið útrýmt á síðustu öld. En árið í fyrra var ekki í takt við vonir veiðimanna og dróst veiðin saman um þrjátíu prósent frá metárinu 2022.

Andrew Flitcroft, ritstjóri Trout and Salmon tímaritsins helgar leiðara febrúarútgáfu blaðsins ástandi laxastofna á Bretlandseyjum. Hann segir það hafa verið sorgardag þegar sérfræðinganefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna endurskilgreindi stöðu villta laxins á Bretlandseyjum. Hann segir sorglegt að horfa upp á þróunina. Ekki fyrir svo mörgum árum var laxinn á þessum slóðum flokkaður sem „Of least concern“ eða ekki þörf á að hafa áhyggjur af honum. Svo gerðist það 11. desember á síðasta ári að villti laxinn féll niður í skilgreininguna „Endangered“ eða í útrýmingarhættu. Andrew bendir á að fallið sé mikið þar sem að á milli þessara tveggja flokka er flokkurinn „Vulnerable" eða viðkvæm staða. „Svo fólk átti sig á hversu mikil breyting þetta er, þá deilir laxinn okkar nú sömu stöðu og fjallagórillur og tígrisdýr.“ 

Lakselva í Noregi er á sem margir Íslendingar hafa kynnst. …
Lakselva í Noregi er á sem margir Íslendingar hafa kynnst. Laxveiðin í Noregi í fyrra var sú lélegasta sem hafa séð þar í landi. Ljósmynd/Nils Folmer

Þegar horft er til stofns Atlantshafslaxins í heild sinni er hann í dag skilgreindur sem stofn sem stendur frammi fyrir hættu. „Near threatend.“

Frá árunum 2006 til 2020 hefur heildarstofninn í Atlantshafi minnkað um 23%. Þetta kemur svo fram í veiðitölum, þar sem veiði síðustu ára hefur verið léleg. 

Sagt hefur verið um Ísland að hér sé í raun síðasta vígi laxins og ef takast á að bjarga stofninum þá gerist það á Íslandi. Efnahagslegu áhrifin af minni veiði sjást greinilega í Bretlandi. Í vorveiðinni sem nú stendur yfir er mikið af stöngum sem selst ekki og það þrátt fyrir að verðið sé lágt, sérstaklega miðað við það sem gerist hér á landi. Þar sem áður voru uppbókuð veitingahús og hótel með iðandi mannlífi er nú rólegt yfir og færri veiðiferðamenn.

Tekist á við lax í Jöklu. Veiðin á Íslandi var …
Tekist á við lax í Jöklu. Veiðin á Íslandi var sú næst lélegasta frá árinu 1974. Nú eru sex léleg ár að baki. Margir vonast til þess að sumarið í sumar bindi enda á niðursveifluna. Bjartsýni og vonir kosta ekki neitt. Ljósmynd/Morgunblaðið

Ísland er byrjað að finna fyrir þessum áhrifum. Langt er síðan að svo erfiðlega hefur gengið að selja „útlendingatímann“ eins og raun ber vitni fyrir komandi veiðitímabil.

Sérfræðinganefndin sem vitnað er til hér að ofan og hefur metið ástanda laxastofnsins telur upp helstu ógnanir sem nú steðja að. Loftslagbreytingar, fiskeldi, manngerðar hindranir á borð við virkjanir og stíflur, nýjar ágengar tegundir og mengun.

Á Íslandi eru þessar ógnir sumar hverjar þekktar. Þurrkasumur, sjókvíaeldi og slysasleppingar í tengslum við eldið og hnúðlax sem hefur verið í töluverðum vexti. 

Ritstjóri Trout and Salmon beinir sjónum að stjórnvöldum. Hann segir nauðsynlegt að grípa í taumana og gera það sem hægt er til að snúa þessari þróun við. Á Íslandi getum við lítið gert til að breyta veðrinu. Við getum hins vegar gert breytinar sem varða sjókvíaeldi. Fært eldið upp á land eða leyfa einungis ófrjóan fisk í kvíunum. Hnúðlaxinn er breyta sem við getum lítið ráðið við. Mengun og slíkir þættir er í betra standi hér en í mörgum öðrum löndum. Þar hjálpar fámennið okkur.

Meðaltalsveiði frá 1974. Punktalínan sýnir meðaltalsveiðina. Sumarið 2023 er rétt …
Meðaltalsveiði frá 1974. Punktalínan sýnir meðaltalsveiðina. Sumarið 2023 er rétt fyrir ofan sumarið 2019, sem er það lélegasta frá 1974. Laxveiði í hafbeitarám er undanskilin og leiðrétt hefur verið fyrir áhrifum veiða og sleppa. Mynd/Hafrannsóknastofnun

Verði laxveiðisumarið 2024 enn eitt árið sem ekki nær meðalveiði er viðbúið að ríku útlendingunum fækki í takt við laxinn. Þá er ljóst að það háa leiguverð sem viðgengist hefur á Íslandi verður erfiðara að fjármagna með sölu veiðileyfa. Það vita það allir sem til þekkja að útlendingatíminn svokallaði hefur gert leigutökum kleift að standa undir leigugreiðslum. Blikur á þeim markaði, sem nú sjást, munu aukast haldi veiðin áfram að þróast með sama hætti og síðustu ár.

Þá geta verið framundan vatnaskil. Hverjum á selja dýrasta tímann? Íslenskir veiðimenn munu ekki kaupa þessi allra dýrustu leyfi nema í litlum mæli. Hvað gera bændur þá?

Veiðileyfasali í Bretlandi sem hefur selt mikið af veiðileyfum í íslenskar ár segir að mun erfiðara hafi verið að selja Ísland fyrir þetta sumar. Hann telur hins vegar að skellurinn komi næsta ár.

Hins vegar er það svo að ef sumarið verður gott og vel veiðist þá er viðbúið að salan taki við sér. Flestir laxveiðimenn eru jú að kaupa veiði síðasta árs. Vandamálið við langa niðursveiflu eins og Ísland er að upplifa er hættan á að menn snúi baki við sportinu. Lögmálið færri laxar – fleiri krónur virkar ekki. Framundan eru erfiðir tímar á þessu sviði ef fram heldur sem horfir.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert