Að undirskrift lokinni nældi Páll Skúlason háskólarektor merki Háskólans í barm Björgólfs Thors Björgólfssonar við mikla kátínu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra.
Að undirskrift lokinni nældi Páll Skúlason háskólarektor merki Háskólans í barm Björgólfs Thors Björgólfssonar við mikla kátínu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. — Morgunblaðið/Kristinn
BJÖRGÓLFUR Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands, og Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu í gær sameiginlega viljayfirlýsingu um breytingar á starfsemi Háskólasjóðsins, sem fela í sér stóraukna styrki úr...

BJÖRGÓLFUR Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands, og Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu í gær sameiginlega viljayfirlýsingu um breytingar á starfsemi Háskólasjóðsins, sem fela í sér stóraukna styrki úr sjóðnum til rannsóknatengds framhaldsnáms við Háskóla Íslands. Þá mun Háskólasjóður leggja 500 milljónir króna á næstu þremur árum til byggingar Háskólatorgs.

Páll sagðist telja þennan samning bæði einstakan og mikilvægan. "En hér er stigið eitt stærsta skref í því að gera Háskóla Íslands að alvöru alþjóðlegum rannsóknarháskóla," sagði háskólarektor.

Björgólfur Thor rifjaði upp að í skipulagsskrá Háskólasjóðs væri kveðið á um að tilgangur sjóðsins væri að efla velgengni Háskóla Íslands og styrkja efnilega stúdenta til náms við Háskólann. Hann sagði að útgreiðslur úr sjóðnum til Háskólans hefðu til þessa verið litlar, sem hlutfall af ávöxtun sjóðsins, en að með þessari breytingu myndu arðgreiðslur til Háskólans aukast til muna. Fyrstu styrkir úr sjóðnum verða veittir árið 2006, en ætla má að frá og með árinu 2009 muni sjóðurinn veita styrki fyrir um 100 milljónir króna árlega.