Tadic, forseti Serbíu, á fundi með íbúum bæjarins Orahovac í Kosovo.
Tadic, forseti Serbíu, á fundi með íbúum bæjarins Orahovac í Kosovo. — AP
MIKIL spenna var í Kosovo í gær í tengslum við heimsókn Borís Tadic, forseta Serbíu, sem er fyrsta heimsókn æðsta embættismanns í Serbíu til héraðsins frá lokum stríðsins 1999.

MIKIL spenna var í Kosovo í gær í tengslum við heimsókn Borís Tadic, forseta Serbíu, sem er fyrsta heimsókn æðsta embættismanns í Serbíu til héraðsins frá lokum stríðsins 1999. Köstuðu albanskir íbúar héraðsins grjóti, eggjum og snjóboltum að bílalest forsetans er hún fór um héraðið í gær og fyrradag.

Nokkur albönsku blaðanna birtu myndir af Tadic í gær þar sem hann sást halda á serbneska fánanum á fyrra degi heimsóknar sinnar til Kosovo, en hún hófst á sunnudag. Vöktu þau ummæli hans jafnframt reiði Kosovo-Albana að stjórnvöld í Serbíu myndu aldrei una því að Kosovo fengi sjálfstæði. Serbar vilji að Kosovo verði áfram hérað í Serbíu en Albanar, sem eru um 90% íbúa í Kosovo, vilja sjálfstæði.

Á myndinni sést Tadic ásamt blaðamönnum og íbúum í bænum Orahovac í gær en hann sagði m.a. að aðstæður serbneska minnihlutans þar væru "þær verstu sem nokkurt þjóðarbrot í Evrópu þyrfti að upplifa". Aðeins um 500 Serbar búa í Orahovac en þeir voru um 4.000 fyrir aðeins ári; nítján dóu í óeirðum í mars í fyrra er tengdust þjóðernisdeilum Albana og Serba og flýðu margir Serbar Kosovo eftir það.