* KJARTAN Henry Finnbogason skoraði sitt fyrsta mark fyrir unglingalið skoska knattspyrnufélagsins Celtic um helgina. Hann gerði fyrra markið í sigri á Inverness , 2:1, með skalla.

* KJARTAN Henry Finnbogason skoraði sitt fyrsta mark fyrir unglingalið skoska knattspyrnufélagsins Celtic um helgina. Hann gerði fyrra markið í sigri á Inverness , 2:1, með skalla. Theodór Elmar Bjarnason lék ekki með Celtic þar sem hann var í fríi heima á Íslandi . Þeir félagarnir úr KR gengu til liðs við Celtic um áramótin.

* SIR Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, gerir sér vonir um að geta teflt hollenska miðherjanum Ruud Van Nistelrooy fram í bikarleiknum gegn Everton um næstu helgi. Nistelrooy , sem hefur verið æfingum og keppni síðustu þrjá mánuðina vegna meiðsla í hásin, mætir á æfingu hjá United í dag en hann hefur verið í meðferð í Hollandi og hefur stundað æfingar hjá sjúkraþjálfara sem gengið hafa vel að sögn Sir Alex .

* DAVID Moyes, knattspyrnustjóri Everton, segir að félagið muni sekta framherjann James Beattie fyrir brottreksturinn sem hann hlaut í leiknum við Chelsea um nýliðna helgi. Moyes sagði í viðtölum strax eftir leikinn að brottreksturinn hefði verið rangur dómur en eftir að hafa skoðað atvikið af myndbandi skipti knattspyrnustjórinn um skoðun og sagði að ákvörðun Mike Riley , dómara, hefði verið hárrétt.

* BEATTIE hefur beðið knattspyrnustjórann, félaga sína í liðinu og stuðningsmenn Everton afsökunar á hegðan sinni. ,,Þetta var skelfilega vitlaust af mér að gera þetta og ég er alveg eyðilagður," sagði Beattie sem fer í þriggja leikja bann. Hann missir meðal annars af leik Everton gegn Manchester United í 5. umferð bikarkeppninnar sem fram fer á Goodison Park um næstu helgi.

* DAVID Moyes segir að Everton sakni danska landsliðsmannsins Thomas Gravesen mikið, en hann fór frá liðinu til Real Madrid á Spáni á dögunum. "Það er erfitt að fá leikmenn til að fylla skarðið, sem hann skildi eftir. Við leitum eftir rétta manninum," sagði Moyes.

* ESPEN Olofsen hefur fengið leyfi frá störfum sem þjálfari norska knattspyrnuliðsins Lyn og reiknar með því að koma aftur til starfa í haust. Olofsen missti bæði eiginkonu sína og dóttur í náttúruhamförunum í Suðaustur-Asíu á öðrum degi jóla en hann mun eftir sem áður verða þjálfurum félagsins innan handar næstu mánuðina. Kaz Sokolowski, sem starfar við sérþjálfun hjá félaginu, leysir hann af á meðan.

* JULIAN Duranona, fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik, skoraði 7 mörk þegar HSG Vulkan Vogelsberg tapaði á heimavelli, 28:30, fyrir TuS Dotzheim í 3. deild þýska handknattleiksins um helgina.