Græðlingar Vignir Sveinsson og Jón Arnarson fylgjast með þeim Eydísi Hörpu Ólafsdóttur og Hjörtínu Guðmundsdóttur klippa græðlinga.
Græðlingar Vignir Sveinsson og Jón Arnarson fylgjast með þeim Eydísi Hörpu Ólafsdóttur og Hjörtínu Guðmundsdóttur klippa græðlinga. — Morgunblaðið/Kristján
BREYTINGAR á skipulagi hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga hafa nú að fullu gengið eftir með aðskilnaði á félagslegri starfsemi og samkeppnisrekstri, en félaginu var fyrir réttu ári skipt upp í tvennt.

BREYTINGAR á skipulagi hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga hafa nú að fullu gengið eftir með aðskilnaði á félagslegri starfsemi og samkeppnisrekstri, en félaginu var fyrir réttu ári skipt upp í tvennt. Stofnað var einkahlutafélagið Gróðrarstöðin í Kjarna sem tók við rekstri gróðrarstöðvar og jólatrjáasölu en Skógræktarfélagið mun áfram annast útivistarsvæði, skógarreiti og félags- og fræðslumál. Sameiginlegur framkvæmdastjóri, Jón K. Arnarson, var ráðinn fyrir bæði félögin.

Aðaleigendur nýja hlutafélagsins eru Skógræktarfélagið og Kaupfélag Eyfirðinga sem eiga hátt í helming hlutafjár hvort félag. Vignir Sveinsson, formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga, sagði að ákveðið hefði verið að bjóða félagsmönnum og starfsmönnum forgang að því að gerast hluthafar auk þess sem bændum í Félagi skógarbænda á Norðurlandi og einstaklingum innan þess var einnig boðinn forgangur að hlutafjárkaupum. "Þetta skilaði þeim árangri að 20 einstaklingar hafa skráð sig fyrir hlutafé og við stefnum að því að fjölga þeim enn frekar á næstunni, þannig að eignaraðildin breikki enn frekar og hluthöfum fjölgi," sagði Vignir. Gróðrarstöðina í Kjarna er mikilvæga stoð fyrir allt skógræktarstarf í fjórðungnum. Ársframleiðsla þar nemur um 1,2 milljónum plantna, en framleiðslan hefur aukist ár frá ári og fyrir hendi eru framleiðslusamningar um milljónir plantna, einkum við ræktendur á Norður- og Austurlandi.

Stjórnarformaður hlutafélagsins er Ásgeir Magnússon. Hjá stöðinni og Skógræktarfélaginu eru 10 til 15 störf.

"Við sjáum fram á stóraukna þörf fyrir plöntuframleiðslu á næstu misserum til þeirra landshlutabundnu verkefna sem eru í gangi," sagði Jón K. Arnarson, en hann sagði að stöðin hefði á liðnum árum verið stækkuð og tækjabúnaður aukinn. "Skógræktarfélagið hefur verið að framfylgja því markmiði sínu um hríð að plöntuframleiðsla verði sjálfstæð starfsemi," sagði Jón, en nokkuð væri um liðið frá því menn sáu að nauðsynlegt væri að skipta rekstrinum upp.

Skógræktarfélagið Eyfirðinga er elsta skógræktarfélagið á landinu, var stofnað 11. maí árið 1930 og verður því 75 ára í vor. Til stendur að minnast tímamótanna og er undirbúningur hafinn. "Hlutverk félagsins hefur verið að breytast á liðnum árum, því trúboðastarfi sem það sinnti frá upphafi og framundir 1990 er að mestu lokið. Skógrækt er nú orðin atvinnugrein, raunar víða mjög öflug og hefur færst yfir til landshlutabundnu skógræktarverkefnanna og til bænda," sagði Vignir.

Félagið mun áfram sinna öflugri fræðslu- og félagsstarfsemi, en nauðsynlegt þykir að móta því nýja stefnu. Þá mun Skógræktarfélagið áfram hafa umsjón með útivistarsvæðum og skógarreitum, en um er að ræða tvö útivistarsvæði, Kjarnaskóg og Hánefsstaðaskóg í Svarfaðardal og níu skógarreita. "Við kappkostum að gera þessi útivistarsvæði og skógarreiti aðgengileg fyrir almenning," sagði Jón.

Félagsmönnum í Skógræktarfélagi Eyfirðinga hefur um nokkurt árabil gefist kostur á að leigja spildur í landi Háls í Eyjafjarðarsveit, en þar er um 160 ha svæði til afnota og er það fullnýtt. Vignir sagði að félagið hefði fengið vilyrði landbúnaðarráðuneytis fyrir því að fá óræktað land í landi Saurbæjar til skógræktar. "Það eru um 40 manns með landnemaspildur á Hálsi og menn eru á biðlista eftir að fá úthlutað landi til að rækta upp," sagði Vignir, en unnið er að samningum við ráðuneytið vegna Saurbæjar um þessar mundir. "Það hefur orðið veruleg breyting á landinu á Hálsi, þar sem áður voru örfoka melar er nú gróið land, elstu gróðursetningar á svæðinu eru tíu ára og þarna eru tré sem komin eru upp í a.m.k. þriggja metra hæð. Þannig að ræktunarstarfið setur mikinn svip á landið."

Átak hefur verið gert í að fjölga félagsmönnum og skilaði það þeim ágætist árangri að á liðnu ári fjögaði þeim um 10%.

Á vegum félagsins hefur verið plantað um þremur milljónum plantna um árin, fyrst og femst í Eyjafirði og lætur nærri að svæðið nemi um 1200 ha sem gróðursett hefur verið á, en tegundirnar um 160 talsins.