Björgvin G. Sigurðsson
Björgvin G. Sigurðsson
Þeir eru til innan Samfylkingarinnar, sem vilja gefa öðrum rekstrarformum en opinberum rekstri tækifæri innan grunnskólans. Í pistli á heimasíðu Björgvins G.

Þeir eru til innan Samfylkingarinnar, sem vilja gefa öðrum rekstrarformum en opinberum rekstri tækifæri innan grunnskólans. Í pistli á heimasíðu Björgvins G. Sigurðssonar, þingmanns Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, segir hann:

Fjölbreytni í starfsemi grunnskólanna er mikilvæg sem og svigrúm hverfisskólanna til aukins sjálfstæðis. Hverfisskólarnir búa við talsvert sjálfstæði sem má auka með breytingum á námsskrá þar sem t.d. er meira lagt upp úr valfrelsi nemenda og auknu list- og verknámi. Þannig er auðveldara að leita uppi réttu fjölina fyrir marga þá nemendur sem ekki finna sig heima í skólanum sínum."

Og Björgvin segir ennfremur: "Grunneiningin í grunnskólanum er og á að vera hverfisskóli þar sem sveitarfélagið tryggir jafnrétti til náms og það er athyglisverð hugmynd að fleiri en einn skóli séu í hverju hverfi til að auka valfrelsi foreldra um skóla fyrir börnin sín.

Til viðbótar við hverfisskólana eiga að fá að blómstra, sem valkostur fyrir utan þennan ramma, sjálfstætt starfandi skólar þar sem nemendum er ekki mismunað á efnalegum forsendum. Sjálfstætt starfandi grunnskólar (einkareknir fyrir opinbert fé) eru að mínu mati góð viðbót við hverfisskólana."

Sjálfstæðir grunnskólar eru að mati Björgvins "grunnskólar sem eru reknir utan um ákveðna, tiltekna hugmyndafræði, standa öllum opnir og innheimta ekki skólagjöld. Skólar á borð við Barnaskóla Hjallastefnunnar." Hann segir að lokum: "Aukin fjölbreytni á grunnskólastigi getur af sér betra menntakerfi, betri menntun fyrir börnin. Það er markmiðið."

Björgvin G. Sigurðsson er orðinn einn helzti talsmaður Samfylkingarinnar í menntamálum. Eins og aðrir frjálslyndir jafnaðarmenn víða í nágrannalöndunum hefur hann komið auga á möguleikana, sem felast í að nýta kosti einkaframtaksins í skólamálum, þótt menntun grunnskólabarna sé áfram kostuð af almannafé. Hvernig stendur á því að Björgvini tekst ekki að koma þessum hugmyndum sínum áleiðis til samflokksmanna sinna í Reykjavíkurlistanum, sem finna sjálfstæðum skólum allt til foráttu?