ÚRSLIT kosninganna í Írak staðfesta þau vatnaskil sem nú eru að verða í landinu en ljóst er að sjía-múslímar taka við stjórnartaumunum eftir að hafa um áratuga skeið lotið stjórn minnihlutans, súnní-múslíma.

ÚRSLIT kosninganna í Írak staðfesta þau vatnaskil sem nú eru að verða í landinu en ljóst er að sjía-múslímar taka við stjórnartaumunum eftir að hafa um áratuga skeið lotið stjórn minnihlutans, súnní-múslíma. Skipan væntanlegrar ríkisstjórnar verður hins vegar allt önnur en bandarískir ráðamenn höfðu stefnt að, við völdunum taka sjítar sem munu að einhverju leyti vilja móta stefnu sína á grundvelli íslamskra gilda og sem góð tengsl hafa við stjórnvöld í nágrannaríkinu Íran.

Ýmsir helstu bandamenn Bandaríkjanna í Írak hlutu ekki brautargengi í kosningunum sem haldnar voru í janúar, en úrslitin voru tilkynnt nú á sunnudag. Helst ber þar að nefna framboðslista Iyads Allawi, forsætisráðherra bráðabirgðastjórnarinnar þeirrar sem farið hefur með formleg völd í Írak frá því í júní á síðasta ári, en Allawi fékk aðeins 13,8% atkvæðanna og 40 þingsæti.

Vonir stóðu til þess að Allawi fengi nógu mikið fylgi til að geta verið forsætisráðherra áfram en ólíklegt er nú að það gerist.

Þá fékk framboðslisti annars Íraka sem hafður hefur verið í hávegum í Washington, súnnítans Adnans Pachachi, aðeins 17.000 atkvæði í kosningunum og náði engum manni á þing. Framboðslisti bráðabirgðaforseta landsins, súnnítans Ghazi al-Yawar, fékk minna en 2% atkvæða og aðeins fimm þingsæti.

Stóru sigurvegararnir í kosningunum voru - eins og fyrirfram hafði verið spáð - kosningabandalag helstu flokka sjíta. Fékk bandalagið 48,1% atkvæða og 140 þingmenn kjörna, eða meira en meirihluta. Það dugir þó ekki til þess að bandalagið geti stjórnað landinu eitt og sér, til þess þarf tvo þriðju þingsæta og því er líklegt að bandalagið leiti eftir samstarfi við Kúrda, sem fengu næstmest fylgi í kosningunum, eða um 26%.

Kúrdar eru súnní-múslímar, ekki sjítar, og öllu veraldarlegri í þankagangi sínum heldur en ráðandi öfl á sjíta-listanum svonefnda, sem naut blessunar Ali al-Sistanis erkiklerks, helsta trúarleiðtoga sjíta í Írak. En þegar haft er í huga að bæði sjíta-listinn og Jalal Talabani, annar forystumanna Kúrda, hafa átt ágætt samstarf við ráðamenn í Teheran þykir ýmsum fréttaskýrendum sýnt að úrslitin hljóti að teljast nokkuð ankannaleg fyrir Bandaríkjastjórn, sem án efa hefði viljað sjá við völd í Írak veraldlega stjórn, vinveitta Bandaríkjunum, sem virkað hefði getað sem mótvægi við klerkastjórnina í Íran í þessum heimshluta.

2% kjörsókn í Anbar-héraði

Hverju sem þessu líður þá fagnaði George W. Bush Bandaríkjaforseti úrslitunum í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér og hrósaði Írökum fyrir að stíga skref í lýðræðisátt.

Fram hefur komið að kjörsókn var tæplega 60% sem þykir mjög gott miðað við þær aðstæður sem ríkt hafa í Írak. Margir hafa hins vegar lýst áhyggjum sínum vegna þeirrar staðreyndar að súnnítar sátu mestanpartinn heima á kjördag; eftir því var tekið að aðeins 2% atkvæðabærra manna í Anbar-héraði - en þar eru borgirnar Ramadi og Fallujah m.a., þar sem skæruliðar hafa farið mikinn undanfarna mánuði - mættu á kjörstað.

Íraska dagblaðið Al-Mashriq lýsti m.a. þeim ótta sínum að klofningur írösku þjóðarinnar magnaðist við úrslit kosninganna. Adel Abdel Mahdi, fjármálaráðherra í bráðabirgðastjórn Allawis og forystumaður hjá sjíta-listanum sigursæla, lagði hins vegar áherslu á það að vinna þyrfti súnníta til liðs við það verkefni - sem nú bíður íraska þjóðþingsins - að skrifa nýja stjórnarskrá fyrir Írak. "Írak blæðir og á þessum tímapunkti þörfnumst við þess að allir vinni að samstöðu og sáttum," sagði Mahdi sem talinn er líklegur til að verða forsætisráðherra í nýrri stjórn.

Bagdad. AFP, AP, The Washington Post.

Bagdad. AFP, AP, The Washington Post.