Sigrún Kristinsdóttir fæddist í Reykjavík 26. desember 1924. Hún lést 5. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðrún Helga Sigurðardóttir frá Litla Garðshorni í Keflavík, húsmóðir, f. 30. sept. 1901, og Kristinn Ingvarsson frá Björnskoti á Skeiðum, organisti, f. 27. júní 1892, bæði látin. Systur Sigrúnar eru Ingunn Þormar, f. 21. nóv. 1921, og Kristín, f. 27. júní 1931.

Sigrún giftist Erlendi Sigurðssyni, f. 17. okt. 1919. Foreldrar hans voru Þuríður Pétursdóttir frá Brúsastöðum í Þingvallasveit, f. 1886, og Sigurður Árnason frá Vestur Botni í Patreksfirði, f. 1877. Sigrún og Erlendur skildu. Börn þeirra eru: 1) Kristinn, f. 1946, maki var Dagbjört Halldórsdóttir. Þau slitu samvistum. Börn þeirra eru: Haraldur, f. 1971, Brynja, f. 1977, Garðar, f. 1984. Núverandi maki er Ásta Guðmundsdóttir. 2) Helga, f. 1948, maki var Eiríkur Hermannsson. Þau slitu samvistum. Börn þeirra eru: Erlendur, f. 1970, Ragna, f. 1974. Sambýlismaður Helgu var Eggert Elíasson. Núverandi maki er Ásmundur Gíslason. 3) Sigrún, f. 1949, maki Sigurgestur Ingvarsson. Börn þeirra eru: Áslaug, f. 1971, og Frosti, f. 1974. 4) Guðrún Lísa, f. 1950, maki Bragi Baldursson. Börn þeirra eru: Sigrún, f. 1972, Þröstur, f. 1975, Bjarki, f. 1983. 5) Sturla, f. 1954, maki Þóra Þórhildur Guðjónsdóttir. Börn þeirra eru: Sara, f. 1979, Sölvi, f. 1985. Barn Sturlu með Guðrúnu Sigurðardóttur er Björk, f. 1971. 6) Elísabet, f. 1958, maki Björn Ásgrímsson Björnsson. Börn þeirra eru: Heimir, f. 1986, og Thelma, f. 1988. Barn Elísabetar með Höskuldi Ásgeirssyni er Sturla, f. 1975. Langömmubörn Sigrúnar eru orðin 13 talsins.

Sigrún vann ýmis störf í gegnum tíðina, t.d. við matreiðslu á Borgarspítala, við veisluþjónustu, var þerna og matsveinn á skipum Eimskipafélagsins, í mötuneyti Eimskipafélagsins, og meðfram húsmóðurstörfum og uppeldi sex barna stundaði hún framleiðslu á prjónavörum og saumaskap ýmiss konar. Hún lét formlega af störfum vegna aldurs þar sem hún starfaði síðast, hjá Eimskipafélaginu, árið 1991.

Sigrún verður jarðsungin frá Dómkirkjunni í dag, og hefst athöfnin klukkan 15.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Þýð. S. Egilsson.)

Elskuleg mamma, tengdamamma og amma er nú fallin frá eftir stutta sjúkrahúslegu. Hún var ein af þessum hvunndagshetjum síðustu aldar og af mikilli einurð og dugnaði ól hún upp börnin sín sex og fórst það vel úr hendi þrátt fyrir það að standa uppi ein með þau á besta aldri. Öllu mótlæti tók hún með æðruleysi og gerði ætíð gott úr öllu sem hún hafði. Störfum sínum utan heimilis sinnti hún af alúð og samviskusemi og þeir eru margir sem hafa notið góðs af.

Mamma stóð sem klettur við hlið allra barna sinna hvað sem þau tóku sér fyrir hendur og á hverju sem gekk og var sannkallað sameiningartákn fjölskyldunnar. Hún hafði yndislegan húmor og mikla hæfileika sem við nutum öll góðs af og hún kunni líka að njóta þess að vera til.

Við eigum eftir að sakna sárlega allra samverustundanna hvort heldur sem í heimsóknum, sumarbústaðaferðum eða hvar sem við komum saman. En minning hennar mun lifa með okkur öllum.

Við þökkum þér, elsku mamma, fyrir allt sem þú hefur verið okkur.

Hvíl í friði.

Elísabet, Björn, Sturla, Heimir og Thelma.

Við viljum minnast Sigrúnar ömmu með nokkrum bernskumyndum.

Það voru ekki margir sem gátu sagt ,,amma er á sjónum" og það fannst okkur framandi og heillandi starfsvettvangur því amma sigldi til fjarlægra landa. Amma vann sem kokkur og þerna á millilandaskipum Eimskipafélagsins í mörg ár. Það var alltaf mikil eftirvænting þegar beðið var eftir að skipið kæmi að bryggju og spennan jókst þegar við fengum að fara um borð með ömmu og labba um alla þessa löngu og undarlegu ganga og litlu káetur. Hápunkturinn var svo þegar amma gaf okkur útlenskt súkkulaði og dósagos sem þá var sjaldséð. Siglingar til landa eins og Rússlands, A-Þýskalands og Póllands settu svip sinn á heimili hennar; hún átti marga fallega og framandi hluti úr þessum ferðum sem gaman var að skoða og var einhvers konar tign yfir - að ógleymdu banjóinu og litlu sérkennilegu harmónikunum.

Amma var mikið fyrir matargerð og allt svo fallega útbúið og mikil áhersla á að nóg væri til að borða. Hún hafði gaman af því þegar fjölskyldan var saman við veisluundirbúning eða í sláturgerð á haustin, stundir sem við áttum oft saman ásamt langömmu líka og alltaf var eitthvað hlýlegt og skemmtilegt við. Þá miðlaði hún til okkar sem yngri vorum þekkingu sinni á gömlum hefðum og matargerð.

Við kveðjum Sigrúnu ömmu með virðingu og þökk fyrir það sem hún skildi eftir hjá okkur öllum. Blessuð sé minning þín.

Mitt verk er, þá ég fell og fer,

eitt fræ, mitt land, í duft þitt grafið;

mín söngvabrot sem býð ég þér,

eitt blað í ljóðasveig þinn vafið.

En innsta hræring huga míns,

hún hverfa skal til upphafs síns

sem báran - endurheimt í hafið.

(Einar Ben.)

Áslaug, Dagbjartur, Trausti, Njörður, Frosti og Sigurlín.

Það hafði einmitt verið á dagskránni hjá mér að senda ömmu minni bréf daginn sem hún dó. Sólin vakti mig þann morguninn, en hún hafði ekki sést á himnum þar sem ég var staddur, í að minnsta kosti tvær vikur.

Bréfið hefi ég þegar sent, enda búinn að vera lengi að skrifa það, og ég er viss um að hún er búin að lesa það vandlega, en sjálfur get ég varla rifjað það upp, svo langt var bréfið. Það reynist mér nefnilega mun erfiðara að rifja upp dæmisögur og minningar um góða vináttu, heldur en það að upplifa hana, læra og elska.

Á mig sækir annað slagið ótti og sorg, sem hreiðra um sig innra með mér á meðan ég velti fyrir mér hvernig skal halda áfram, eftir ævilanga samleið með ömmu minni sem vin. Eftir umhugsun veit ég hvernig vináttan heldur áfram eftir dauðann, og við eigum enn samleið.

Þegar ég var barn og galaði eftir mömmu minni, var það iðulega amma Sigrún sem svaraði líka. Ég man hve fyndið mér þótti þetta, hálf skrítið, velti fyrir mér hvort hún héldi í raun og veru að hún væri mamma mín.

Og nú síðastliðna daga hef ég hugsað mikið um þetta, það hlutverk að vera móðir svo margra barna, amma enn fleiri, hafa gefið allt þetta af sér, og þó verið svellkaldur töffari sem man strandið við Hornafjörð, Nýpusöguna, löngu biðina eftir ísbrjót í Finnskaflóa og gallabuxnaviðskipti í Murmansk, það allt, hefði einhver sagt að væri helvíti góður metall.

Ástarkveðja.

Bjarki.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum.)

Með þessum orðum vil ég kveðja ömmu mína og nöfnu. Hennar minning mun lifa. Hún var einstök. Ég hef aldrei kynnst neinum henni líkri. Kannski er það einmitt tilgangurinn því þá kann maður að meta þessa sérstöku þætti. Hún var algjör töffari, smellinn sjóari með tækjadellu og dásamleg dama í kápu með hatt. Í mörg ár sigldi hún um heimsins höf og sagði sögur af því þegar hún smyglaði Burda saumablöðum til Austur-Evrópu, keypti loðhúfur í Rússlandi eða gerði kjarakaup á poppvélum. Mér fannst ég hafa fullan rétt á því að grobba mig við krakkana í blokkinni þegar ég sagði að amma mín væri ,,ferna" á skipi meðan ég teygaði 7-up úr áldós. Ég geri mér æ meir grein fyrir því hve lánsöm ég var að hafa umgengist ömmu mína mikið. Ég hélt að allir ættu ömmur sem væru ekki bara upp á punt en nú veit ég að samheldnin og vináttan við ömmu var einstök. Amma var með í öllu. Að amma kæmi með í sumarbústað var sjálfsagðara en að taka nestið með. Þó svo að hin daglegu samskipti minnkuðu þegar maður varð uppteknari af sjálfum sér, ástinni og erfingjum var amma alltaf með manni í hjarta, huga eða orði. Smellin tilsvör hennar eru orðin nokkurs konar orðatiltæki í fjölskyldunni. Hún var sterk fyrirmynd í mörgu. Laus við tilgerð og yfirlæti. Að bera nafn hennar er heiður.

Sigrún Bragadóttir.

Elsku amma. Það á eftir að taka okkur langan tíma að gera okkur grein fyrir því að þú sért farin. Þegar við töluðum við þig síðast var þér farið að líða aðeins betur, svo nokkrum dögum seinna ertu farin. Okkur langaði bara til þess að senda þér nokkur kveðjuorð og vonum að þér líði betur í faðmi Drottins, laus við allan sársauka. Takk fyrir sögurnar af henni Nípu sem þú sagðir okkur þegar við vorum lítil. Við vitum að þú munt vaka yfir okkur og passa upp á okkur.

Við kveðjum þig með sárum söknuði, elsku amma. Megi Guð geyma þig.

Að lýsa þeirra Drottins dýrð

ei dauðleg tunga kann

en helga nálægð himinsins

mitt hjarta þegar fann.

Og lúin sál mín lagðist þar

við lífsins bjarta ós,

og svalg á einu augnabliki

öll þau norðurljós.

Þá barnið hló í brjósti mér,

og birtan varð mín hlíf.

Ég heyrði Drottins hjarta slá,

- þá hvarf mér dauði og líf.

ég sá við undralampans ljós

á leifturhraðri ferð:

Úr ótal slíkum augnablikum

eilífðin er gerð.

(Jóhannes úr Kötlum.)

Thelma Björnsdóttir og Heimir Björnsson.

Elsku amma Sigrún. Það er með miklum söknuði og sorg í hjarta sem við kveðjum þig. Við munum ávallt muna eftir þér eins og þú varst, glöð og skemmtileg.

Þegar við vorum lítil þá var alltaf svo skemmtilegt að fara til þín í heimsókn, sérstaklega þegar öll fjölskyldan hittist í Þangbakkanum. Við krakkarnir æfðum mörg leikritin í herberginu þínu og héldum heilu tónleikana á rúmstokknum hjá þér. Alltaf fengum við líka eitthvert góðgæti þegar komum til þín í heimsókn, brjóstsykur úr álboxinu, kandís eða heimagert brauð. Við munum geyma stundir okkar saman vel og hugsa oft til þín, sérstaklega á Þorláksmessu en það var svona okkar hátíð. Þú alltaf svo uppstríluð með hatt og fínerí. Skatan átti að sjálfsögðu að vera eins kæst og hægt var og ef ekki var siginn fiskur á boðstólum þá var þetta nú "hálfhallærislegt" eins og þú orðaðir það stundum svo skemmtilega.

Elsku amma, við munum sakna þín.

Sara og Sölvi.

Där björkarna susa sin milda sommarsång

och ängen av rosor blommar,

skal vårt strålande brude

följe en gång,

draga fram i den ljuvliga sommar.

Där barndomstidens minnen sväva ljust

omkring

och drömmarna på barndomstigar vandra.

(V. Lund.)

(Þar sem mildur

sumarsöngur þýtur í birkitrjánum

og rósir blómstra á enginu,

mun geislandi fögur brúðurin okkar

fara þar um á ljúfum sumardegi.

Þar sem æskuminning-

arnar sveima allt um kring

og draumar okkar hvarfla

um forna stigu.)

Þessar sænsku ljóðlínur eiga svo vel við er ég nú kveð elskulega móðursystur mína. Það koma svo margar ljúfar minningar fram í hugann. Fyrst og fremst er þakklæti í mínum huga fyrir allar stundir sem ég fékk að njóta í návist hennar.

Ég lít á það sem forréttindi að hafa fengið að umgangast og að hluta til að alast upp með fjölskyldu Sillu, börnin hennar sex eru svo samrýnd og yndisleg og dæturnar hafa alla tíð verið mínar fyrirmyndir. Við vorum ekki gamlar við Elísabet er við byrjuðum að leika okkur saman, og elsku frænka okkar Guðrún Helga, jafngömul Elísabetu og ég ári yngri, var iðulega með okkur líka, en ótímabært fráfall hennar fyrir ári svíður okkur sárt.

Mamma og systur hennar, Silla og Inga, hafa alla tíð verið mjög nánar systur og engar stórframkvæmdir í fjölskyldum okkar voru framkvæmdar nema í samráði við hinar systurnar. Á uppvaxtarárum okkar Elísabetar er Silla og mamma unnu við veisluþjónustu Hótel Borgar vorum við ávallt saman ýmist í Hólmgarðinum eða í Álfheimunum. Við tengdumst órjúfanlegum böndum og köllum við okkur frænkusystur.

Seinna er ég dvaldist í Finnlandi komu mamma og Silla í heimsókn til mín og áttum við þar unaðslega daga saman í sól og hita í finnska skerjagarðinum. Þær heimsóttu Guðrúnu Helgu líka til Noregs þar sem hún bjó lengst af. Þá tímdu þær systur ekki að sofa til að missa ekki af neinu. Sú dvöl hefur ávallt verið ofarlega í huga okkar og oft rifjuð upp og hlustað á sænsku plöturnar og mikið hlegið og oft af engu tilefni.

Síðustu árin höfum við Elísabet og fjölskylda, Sturla og fjölskylda, Guðjón bróðir og fjölskylda, ég og fjölskylda mín dvalið saman í sumarbústaðnum mínum um verslunarmannahelgina. Það hefur aldrei komið annað til greina en að mamma og pabbi meðan hans naut við, en hann féll frá í sept. sl. Silla, Inga og Gæi væru líka með og er yndislegt að hugsa til minninganna frá þessum stundum. Í fjölskyldum okkar er ekkert kynslóðabil og allir eru með ungir sem aldnir.

Síðastliðið sumar var fyrsta sumarið sem Silla gat ekki verið með okkur sökum heilsubrests. Heilsu hennar byrjaði að hraka fyrir rúmu ári og hefur verið mjög sárt að fylgjast með henni er hún naut sín ekki sem skyldi jafnlífsglöð og hress kona sem hún var.

Á síðastliðnu ári hafa þrír úr fjölskyldu okkar fallið frá. Það eru því þung spor að kveðja Sillu núna.

Ég veit að nú líður henni betur og hefur hitt alla ástvini okkar sem gengnir eru, þar ganga þau um græna dali eilífðarinnar og birkitrén suða þar eins og segir í sænska ljóðinu.

Ég og fjölskylda mín eigum Sillu mikið að þakka og sendum öllum börnum hennar, fjölskyldum þeirra og systrum hennar innilegar samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð að styrkja okkur öll.

Gunnvör Kolbeinsdóttir

og fjölskylda.