Frá Tryggva Gíslasyni magister: "SIGURÐUR Nordal sagði eitt sinn, að slettur og tökuorð yrðu íslenskri tungu ekki að aldurtila, heldur megurð málsins, og átti hann þar við orðfæð manna."

SIGURÐUR Nordal sagði eitt sinn, að slettur og tökuorð yrðu íslenskri tungu ekki að aldurtila, heldur megurð málsins, og átti hann þar við orðfæð manna.

Lengi hef ég undrast orðfæð þeirra, sem sýknt og heilagt staglast á því "að leggja eitthvað af". Orðasambandið kemur að vísu snemma fyrir í þýðingum og hefur unnið sér þegnrétt í málinu. Hins vegar er það ofnotað, iðulega að ástæðulausu eða jafnvel í rangri merkingu. Mýmörg orðasambönd eru einnig til í málinu svipaðrar merkingar, sem nota mætti til hátíðarbrigða, s.s. leggja niður, hætta við, afnema, fella niður, fella úr gildi, nema úr gildi, hverfa frá, ógilda, uppræta, varpa frá sér, stöðva, afstýra, uppræta, eyða, afmá, afnema og jafnvel tortíma - og ef menn vilja vera hátíðlegir: leggja niður laupana, leggja fyrir róða, leggja fyrir óðal eða kasta á glæ.

Á dögunum las ég þarflega grein í Morgunblaðinu eftir prófessor við Háskóla Íslands sem segir: Vitað er, að í ráðum er nú m.a. að leggja af tímaritið Ritmennt [...]. Hér er notað orðasambandið "að leggja af" þegar eðlilegra, betra og réttara væri að tala um "að hætta útgáfu ritsins" og segja: "Vitað er að í ráði er, að hætta útgáfu tímaritsins Ritmenntar". Þetta er dæmi um megurð málsins, þegar sífellt er klifað á sama orðasambandinu og önnur, sem eiga betur við, sniðgengin.

Annað orðasamband, sem mjög er ofnotað, er orðasambandið "að taka yfir", sem nýlega hefur verið tekið að láni úr ensku - "take-over". Orðasambandið er notað í tíma og ótíma og virðist vera að útrýma mörgum gömlum og góðum orðasamböndum, sem hafa svipaða merkingu og eiga betur við, s.s. taka í sínar hendur, koma í staðinn fyrir, taka við eða taka við af, leysa af hólmi, eignast, ná tökum á, ná undirtökum eða sölsa undir sig, leggja undir sig, sölsa til sín eða slá eign sinni á, svo nokkur orðasambönd svipaðrar merkingar séu nefnd.

Sagt var á dögunum að "ný stjórn hefði tekið" yfir í félaginu, Þar hefði mátt segja, að "ný stjórn hefði tekið við í félaginu" eða einungis að "ný stjórn hefði verið kosin í félaginu". Mikið var rætt um á dögunum að nýtt eignarhaldsfélag hefði "tekið yfir Magasin du Nord" í stað þess að segja að nýtt félag hefði eignast meirihluta í Magasin du Nord ellegar sölsað undir sig Magasin du Nord, ef menn hefðu viljað taka afstöðu í málinu eða lita frásögn sína.

Með þessu bréfi vil ég biðja fréttamenn og blaðamenn og aðra, sem nota málið opinberlega, að hugleiða meiri fjölbreytni í orðalagi og koma í veg fyrir megurð málsins - koma í veg fyrir að málið falli úr hor.

TRYGGVI GÍSLASON,

Blásölum 22, 201 Kópavogi.

Frá Tryggva Gíslasyni magister