Árni Gunnlaugsson
Árni Gunnlaugsson — Aðsent
Árni Gunnlaugsson fjallar um áfengismál og bindindi: "Líf án áfengis er svo sannarlega eftirsóknarvert og eykur líkur á löngum ævidögum."

STÖÐUGT er reynt að blekkja fólk til víndrykkju með því að halda því fram að hófdrykkja geti verið heilsubót. Þær fullyrðingar ganga í berhögg við niðurstöður þekktra og virtra sérfræðinga á sviði áfengisrannsókna, enda löngu vitað og viðurkennt, að öll áfengisdrykkja hefur skaðleg áhrif á nær öll líffæri líkamans, m.a. skemmir lifur og hjartavöðva og eyðir heilasellum. Þannig hefur t.d. verið leitt í ljós, að 2 / 3 hlutar allra innlagna á sjúkrahús í Bandaríkjunum eru tengdir áfengi beint eða óbeint.

Magnið, sem drukkið er ræður ekki úrslitum um afleiðingarnar eins og fram kemur í eftirfarandi orðum heimsfrægs læknis og vísindamanns, Paolo Arnoldi: "Í orðsins fyllsta skilningi er engin hin minnsta inntaka vínsins skaðlaus og skaðlaust glas af víni er ekki til. Hinn minnsti skammtur víns, dregur úr mótstöðuafli líkamans og eykur alla sjúkdóma." Og meira að segja hafa danskir læknar varað við daglegri neyslu rauðvíns, en fyrir slíkri drykkju hefur undanfarið verið rekinn mikill áróður.

Það er því ámælisvert, þegar leitast er við að stuðla að víndrykkju á þeim fölsku forsendum, að drykkja í litlum mæli sé skaðlaus og þannig tæla ungt fólk til vinfengis við Bakkus. En samkvæmt rannsóknum er talið, að tveir af hverjum tíu, sem byrja neyslu áfengis verði alvarlega háðir áfengisvana á lífsleiðinni.

Heilbrigðar lífsvenjur bæta og lengja lífið

Líf án áfengis er svo sannarlega eftirsóknarvert og eykur líkur á löngum ævidögum. Til marks um það má nefna, að fram hefur farið rannsókn í Kaliforníu og Noregi, þar sem aðventistar voru athugaðir sérstaklega, en þeir temja sér heilbrigðar lífsvenjur og hafna algerlega áfengi. Kom í ljós, að heilsufar aðventista var yfirleitt betra en annarra íbúa á nefndum stöðum og þeir náðu að jafnaði hærri aldri.

Allir eiga að vita, að vínið skerðir dómgreind og skynsemi og afskræmir persónuleikann. Samt leyfir einn af aðdáendum Bakkusar sér nýlega að fara með þau öfugmæli, að "áfengi efli hugarflug".

Látum því hinn heimsþekkta skáldjöfur Goethe segja hér sitt álit á áhrifum áfengis á andagiftina, en hann sagði: "Ég drekk sem stendur ekkert af víni og fer daglega fram í skarpskyggni og vinnuþreki." Og ennfremur skrifaði Goethe: "Ef ég gæti rekið áfengið burtu úr heiminum, væri ég alsæll."

Ein helsta smitleið áfengissýkinnar er hin útbreidda drykkjutíska. Gegn þeirri vá er brýnt að bregðast með forgöngu ráðamanna. Á sama hátt og tóbaksreykingar þykja ekki lengur við hæfi í samkvæmum, ættu framámenn þjóðarinnar að afnema vínveitingar á vegum hins opinbera. Með því væri sýnt gott fordæmi til varnaðar og eftirbreytni eins og Vilhjálmur Hjálmarsson gerði í sinni ráðherratíð og ekki gleymist. Hann veitti aldrei áfengi í sínum veislum og móttökum og vakti það aðdáun almennings.

Og ekki síður væri þarft, ef prestar almennt létu af þeim óþarfa sið að vera með áfeng messuvín við altarisgöngur, en þau geta á vissan hátt haft spillandi áhrif og fælt frá þátttöku í trúariðkun. Enda eru engar trúarlegar ástæður, sem krefjast áfengra drykkja við helgiathafnir, eins og sumir prestar viðurkenna í verki. Hví má annars ekki sleppa víninu og láta nægja að gefa brauðið, eins og yfirleitt tíðkast við kaþólskar messur?

Megi sem flestum takast að læra að njóta lífsins án áfengis og annarra eiturlyfja og þeirrar hamingju, sem því fylgir. Það er ótvíræður ávinningur eins og fram kemur hjá leiðarahöfundi Morgunblaðsins 20. jan. sl., er hann skrifar og ber að þakka: "Best fer á því að bragða ekki áfenga drykki." Þau tímabæru orð er öllum hollt að hafa hugföst.

Árni Gunnlaugsson fjallar um áfengismál og bindindi