"Barn 81" er nú komið til foreldra sinna eftir sjö vikna þref.
"Barn 81" er nú komið til foreldra sinna eftir sjö vikna þref. — AP
NIÐURSTÖÐUR DNA-rannsóknar á dreng, sem lifði af flóðbylgjuna á Sri Lanka um jólin, liggja nú fyrir. Sýna þær og sanna, að hjónin, sem gerðu formlegt tilkall til hans, eru foreldrar hans.

NIÐURSTÖÐUR DNA-rannsóknar á dreng, sem lifði af flóðbylgjuna á Sri Lanka um jólin, liggja nú fyrir. Sýna þær og sanna, að hjónin, sem gerðu formlegt tilkall til hans, eru foreldrar hans.

Dómari á Sri Lanka ákvað, að fram skyldi fara DNA-rannsókn á drengnum, sem er fjögurra mánaða, vegna frétta um, að níu hjón alls héldu því fram, að hann væri sonur þeirra. Raunar var það síðar borið til baka en rannsóknin fór fram og hjónin, sem börðust mest fyrir því að fá drenginn, eru hans réttu foreldrar.

"Ég er svo sæll og ánægður og þakka guði fyrir að fá barnið mitt aftur," sagði faðir þess, Murugupillai Jeyarajah, en þau hjónin misstu allar eigur sínar í flóðinu og búa nú í búðum í Kalmunai.

Íhuga málssókn

Fyrr í mánuðinum voru þau handtekin og sökuð um að hafa ætlað að stela drengnum á sjúkrahúsi en þau voru þau einu, sem lögðu fram formlegt tilkall til hans. Eru þau nú að íhuga málssókn gegn yfirvöldum vegna þeirra andlegu þjáninga, sem þau hafa liðið af þeirra völdum.

Barnið fannst undir miklu braki og var þá kallað "Barn 81" þar sem það var 81. manneskjan, sem flutt var á sjúkrahúsið í bænum eftir hamfarirnar. Talið er að alls hafi um 31.000 manns farist á Sri Lanka er flóðbylgjan gekk á land.

Kalmunai. AFP.

Kalmunai. AFP.