Sigurður Júlíus Grétarsson
Sigurður Júlíus Grétarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Daníel Þór Ólason og Sigurður J. Grétarsson fjalla um spilafíkn og rannsókn á henni meðal Íslendinga: "Nú stendur fyrir dyrum umfangsmikil faraldsfræðileg könnun á algengi og alvarleika spilafíknar meðal fullorðinna á Íslandi."

Hvað er spilafíkn?

Spilafíkn er stjórnlaus þátttaka í peningaspilum sem hefur alvarlegar afleiðingar. Andleg vanlíðan, þunglyndi, kvíði eða streita eru algengir fylgifiskar spilafíknar og spilafíklar misnota oft áfengi eða önnur vímuefni. Spilafíkill er iðulega upptekinn af þrálátum þönkum um peningaspil og hugsar um leiðir til þess að spila áfram, gjarnan í þeim tilgangi að endurheimta glatað fé. Þetta eykur aðeins fjárhagslegan skaða þannig að við andlega vanlíðan bætist oft gjaldþrot. Skaðlegar afleiðingar spilafíknar eru vel þekktar og bitna ekki aðeins á fíklinum sjálfum heldur líka á fjölskyldu hans og samfélaginu öllu.

Mikil umræða hefur átt sér stað í íslenskum fjölmiðlum undanfarin ár um alvarleika og algengi spilafíknar í íslensku samfélagi. Það hefur háð þeirri umræðu að hér hefur skort áreiðanlegar upplýsingar um stöðu mála en án slíkra upplýsinga verður ekki lagt raunhæft mat á þörf fyrir forvarnir og meðferð sem dregið gætu úr útbreiðslu og afleiðingum spilafíknar.

Rannsóknir á spilafíkn

Niðurstöður erlendra rannsókna sýna að víðast hvar hefur framboð peningaspila og aðgengi að þeim aukist til muna síðastliðinn aldarfjórðung. Flestir sem spila peningaspil gera það án vandkvæða en lítill hluti á við verulegan vanda að stríða vegna þátttöku sinnar. Niðurstöður nýlegra rannsókna í Bandaríkjunum og Kanada sýna að um 1-2% fullorðinna eiga við spilafíkn að stríða og um 2,5% til viðbótar eru í nokkrum vanda vegna spilamennsku sinnar. Þær tiltölulega fáu rannsóknir sem hafa verið gerðar á spilafíkn fullorðinna Evrópumanna benda til algengis sem er áþekkt eða ívið minna en í Norður-Ameríku.

Síðastliðinn áratug hefur athygli fræðimanna einnig beinst að þátttöku barna og unglinga í peningaspilum. Niðurstöður fjölda rannsókna sýna að því miður hefur þátttaka unglinga í peningaspilum aukist með aukinni þátttöku fullorðinna og það sem verra er: Spilafíkn er algengari meðal unglinga en fullorðinna. Í Norður-Ameríku eiga um 4,4% til 7,4% unglinga við alvarlegan spilavanda að stríða og svipuðu máli gegnir um breska unglinga. Niðurstöður rannsókna frá Spáni og Noregi leiða í ljós heldur minni vanda eða á bilinu 1,6% til 2,2%.

Undanfarin tvö ár hafa undirritaðir, ásamt samstarfsfólki, unnið að allumfangsmiklum rannsóknum á algengi spilafíknar meðal unglinga og fullorðinna á Íslandi. Nú þegar liggja fyrir niðurstöður tveggja rannsókna á íslenskum unglingum. Sú fyrri náði til 750 sextán til átján ára unglinga í framhaldsskólum en sú síðari til ríflega 3.500 þrettán til fimmtán ára nemenda í grunnskólum í Reykjavík. Meginniðurstöður þessara rannsókna voru að á milli 70 og 80% unglinganna kváðust spila peningaspil í einhverjum mæli en 2% til 2,8% áttu við alvarlegan spilavanda að stríða. Drengir eiga miklu oftar í spilavanda en stúlkur og frekari greining niðurstaðna benti til að áfengis- og vímuefnaneysla og einkenni um athyglisbrest með ofvirkni væru algengari meðal unglinga í spilavanda en annarra hópa. Það er því ljóst að spilafíkn er alvarlegur vandi meðal lítils hluta íslenskra unglinga og mikilvægt að hefja markvisst forvarnar- og meðferðarstarf til að draga úr spilafíkn unglinga. Þessum rannsóknum hafa verið gerð skil á innlendum ráðstefnum og í fræðiritum og hægt er að hafa samband við undirritaða til að fá frekari upplýsingar.

Ný rannsókn á algengi spilafíknar meðal full- orðinna Íslendinga

Nú stendur fyrir dyrum umfangsmikil faraldsfræðileg könnun á algengi og alvarleika spilafíknar meðal fullorðinna á Íslandi. Meginmarkmið hennar er að afla áreiðanlegra upplýsinga um þátttöku fullorðinna Íslendinga í peningaspilum og leggja mat á algengi spilafíknar og afleiðingar hennar í íslensku samfélagi. Á næstu vikum hringja spyrlar á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands í tilviljunarúrtak 5.000 Íslendinga á aldrinum 18 til 70 ára og biðja þá að taka þátt í þessari könnun. Farið verður með öll gögn sem trúnaðarmál og nöfn þeirra sem taka þátt munu aldrei koma fram, hvorki á svarblaði né í úrvinnslu. Tilkynnt hefur verið um könnunina til Persónuverndar og hún er styrkt af Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands, Rannsóknarsjóði Rannís og Happdrætti Háskóla Íslands. Almenn þátttaka þeirra sem hringt er í er skilyrði þess að unnt verði leggja mat á algengi og alvarleika spilafíknar í íslensku samfélagi. Það er því von okkar að allir sem fá hringingu á næstu vikum frá spyrlum Félagsvísindastofnunar sjái sér fært að taka þátt hvort sem þeir taka þátt í peningaspilum eða ekki. Traustar niðurstöður munu bregða ljósi á þann vanda sem spilafíkn er hérlendis og renna stoðum undir raunhæfar aðgerðir til þess að eiga við þann vanda.

Daníel Þór Ólason og Sigurður J. Grétarsson fjalla um spilafíkn og rannsókn á henni meðal Íslendinga