Veðurspá | Vestanáttir hafa verið óvenjuríkjandi í vetur í annars snúningasamri tíð segir í nýrri veðurspá frá Veðurklúbbnum á Dalbæ.

Veðurspá | Vestanáttir hafa verið óvenjuríkjandi í vetur í annars snúningasamri tíð segir í nýrri veðurspá frá Veðurklúbbnum á Dalbæ. "Við teljum að það breytist ekki á þessu tungli sem kviknaði á sprengidag í vnv, eða "yfir Bæjarfjallinu" eins og einn meðlimur orðaði það svo skemmtilega," segir í spánni. "Það verður þó ekki alltaf auðvelt að henda reiður á hvaðan hann kemur til með að blása, ekki frekar en verið hefur í vetur. Þá skulum við líka búast við éljagangi og snjókomu. Og ef við lítum til drauma klúbbmeðlima, þá kemur til með að blása hressilega, með hléum þó."

Gömul þjóðtrú segir að öskudagur eigi sér 18 bræður, sú speki virðist, koma ágætlega heim og saman við þessa spá klúbbfélaga, éljagangur og gola.

Kyndilmessa var 2. febrúar síðastliðinn með roki, þokkalega hlý en sólarlaus. "Það teljum við að viti á gott. Sólskin á kyndilmessu boðar snjóþyngsli fram á vorið."