FÉLAGSFUNDUR Samtaka íþróttafréttamanna, sem haldinn var 14. febrúar sl., harmar þingsályktun 15 þingmanna Sjálfstæðisflokksins þess efnis að þýðingarskylda á erlendum íþróttaviðburðum í beinni útsendingu verði afnumin.

FÉLAGSFUNDUR Samtaka íþróttafréttamanna, sem haldinn var 14. febrúar sl., harmar þingsályktun 15 þingmanna Sjálfstæðisflokksins þess efnis að þýðingarskylda á erlendum íþróttaviðburðum í beinni útsendingu verði afnumin. Fundurinn ítrekar ályktun sína frá því á aðalfundi SÍ í nóvember sl.:

"Samtök íþróttafréttamanna fordæma ítrekuð lögbrot Skjás eins með því að sjónvarpa enskum knattspyrnuleikjum og samantektarþáttum af þeim með lýsingu á ensku.

SÍ hvetja Skjá einn til að fara að útvarpslögum og fylgja þeirri áratugalöngu hefð að íþróttaviðburðum sé lýst á íslensku í íslensku sjónvarpi.

SÍ benda á að þingsályktunartillagan hefur mun víðtækari afleiðingar í för með sér verði hún samþykkt en þær að leikjum úr ensku knattspyrnunni verði lýst á ensku. SÍ líta á hana sem beina árás á störf félagsmanna og beina því til Blaðamannafélags Íslands og Félags fréttamanna að þau taki málið fyrir á sínum vettvangi."