VALGERÐUR Sverrisdóttir viðskiptaráðherra segir að leikreglur á breskum matvörumarkaði séu athyglisverðar en vill engu svara um hvort hún telji þær henta við íslenskar aðstæður.

VALGERÐUR Sverrisdóttir viðskiptaráðherra segir að leikreglur á breskum matvörumarkaði séu athyglisverðar en vill engu svara um hvort hún telji þær henta við íslenskar aðstæður. Segist Valgerður leggja þunga áherslu á sjálfstæði Samkeppnisstofnunar og svigrúm hennar til að fylgjast með því hvort samkeppnislög séu brotin á íslenska matvörumarkaðnum.

Leyfðu að gerast

Haft var eftir Bill Grimsey, fyrrv. forstjóra Big Food Group í Bretlandi, í Viðskiptablaði Morgunblaðsins sl. fimmtudag að leikreglurnar þar í landi hefðu orðið til þess að Tesco-verslunarkeðjan herjaði inn á dagvörumarkaðinn þar sem Big Food Group starfaði. Bresk stjórnvöld hefðu leyft þessu að gerast, í stað þess að setja svo stórum aðila eins og Tesco skorður út frá samkeppnisástæðum við að stækka enn frekar.

Lagt var út af þessum orðum Grimseys í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sl. sunnudag og sagt að ætla verði "að taki stjórnvöld á Íslandi á sig rögg, undir forystu hins þróttmikla viðskiptaráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, og taki upp skilgreiningu á matvörumarkaðnum hér, sem sé líkleg til að stuðla að aukinni samkeppni á þeim vettvangi" verði þeim ráðstöfunum vel tekið af forráðamönnum Baugs, sem hefur tekið yfir rekstur fyrirtækja á vegum Big Food Group.

Valgerður sagðist vera þakklát fyrir "þessa góðu hvatningu" frá Morgunblaðinu. Hún sagði samkeppnisyfirvöld hafa miklu hlutverki að gegna á matvörumarkaðnum, sitt hlutverk væri að halda utan um lögin og í því sambandi minnti hún á væntanlegt frumvarp sem miðaðist að því að styrkja samkeppnisyfirvöld enn frekar. Hún gæti ekki skipað samkeppnisyfirvöldum fyrir verkum. Þau yrðu að ráða því sjálf hvernig þau störfuðu innan ramma laganna. Það væri ekki hlutverk Samkeppnisstofnunar að búa samkeppnina til heldur að hafa eftirlit með markaðsráðandi fyrirtækjum og að þau brytu ekki í bága við lög. Myndu þau brjóta af sér ítrekað yrði hægt að grípa inn í og krefja þau um skipulagsbreytingar, samkvæmt væntanlegu frumvarpi.

Lögin áþekk

Valgerður sagði að eftir breytingu á samkeppnislögunum árið 2000 væru þau orðin mjög áþekk því sem tíðkaðist víða í nágrannalöndunum og Samkeppnisstofnun hefði náið samstarf við margar systurstofnanir í Evrópu, einkum á Norðurlöndunum.