Hulda Lind Jóhannsdóttir leikkona.
Hulda Lind Jóhannsdóttir leikkona. — Ljósmynd/Nadja Ekman
HULDA Lind Jóhannsdóttir heitir íslensk leikkona sem hefur fengið hlutverk við hið virta leikhús Dramaten í Stokkhólmi.

HULDA Lind Jóhannsdóttir heitir íslensk leikkona sem hefur fengið hlutverk við hið virta leikhús Dramaten í Stokkhólmi. Fyrsta hlutverk hennar þar er aðalhlutverk í barnaleikriti sem nefnist Ruttet - Rotið á íslensku - og verður frumsýnt í haust á litla sviði leikhússins.

"Ég hef lengi starfað við Riksteatern, sem er Þjóðleikhús Svíþjóðar og tók þátt í barnaleiksýningu fyrir nokkrum árum sem varð mjög vinsæl. Þar hlaut ég þónokkra athygli," segir Hulda Lind aðspurð um tilkomu ráðningarinnar. "Ég hef líka unnið áður með leikstjóranum sem er að fara leikstýra verkinu á Dramaten núna og hún vildi gjarnan fá mig. Þannig gengur þetta oft fyrir sig."

Ekki fastráðning

Hulda Lind hefur verið búsett í Svíþjóð síðan árið 1989 og hlaut leiklistarmenntun sína í Gautaborg á árunum 1991-1993. Síðan þá hefur hún starfað við leikhús þar ytra og starfað meira og minna á Riksteatern síðan árið 1999. Þó var hún ekki fastráðin þar, enda segir hún sjaldgæft að leikarar séu fastráðnir. "Yfirleitt gerir maður samninga til einnar sýningar í einu. Ef maður er mjög heppinn getur maður verið ráðinn til tveggja ára," segir hún og bætir við að slíkir tímabundnir samningar séu ekki að öllu leyti ákjósanlegir, þýði meðal annars launaleysi yfir sumartímann þegar sjaldgæft er að sýningar séu haldnar.

Þó svo að Hulda Lind sé ekki heldur að fá fastráðningu við Dramaten, segir hún það mikinn heiður að komast þar að. "Það þykir voða fínt og mikil fjöður í hattinn fyrir mann," segir hún. "Það fínasta sem maður getur gert sem leikari í sænsku leikhúslífi er að leika á stóra sviðinu þar. Ég verð á litla sviðinu, en kannski á ég möguleika á enn einu skrefi upp á við."

Lítur vel út á pappírnum

Starf Huldu Lindar við Riksteatern hefur þýtt að hún hefur þurft að ferðast mjög mikið um Svíþjóð og önnur lönd, en eitt helsta hlutverk leikhússins er að þjóna öllu landinu með ferðasýningum. "Þar af leiðandi er maður ekkert mjög áberandi hér í Stokhólmi. Sýningin á Dramaten á eftir að hafa þá þýðingu að ég verð meira áberandi á sviðinu hér í borginni og á þannig möguleika á fleiri hlutverkum við leikhús sem starfa hér í borginni. Það lítur mjög vel út á pappírnum að hafa unnið á Dramaten," segir Hulda Lind sem er tveggja barna móðir, tveggja og níu mánaða. Hún vill því gjarnan minnka við sig ferðalögin sem fylgja starfinu á Riksteatern. "Þetta er svo stórt land og margir leikarar, þannig að það skiptir miklu máli að vera sýnilegur á þeim vettvangi sem maður er að starfa, Stokkhólmi í mínu tilfelli. Ég hef til dæmis ekki hugmynd um hvaða leikarar eru að vinna við Borgarleikhúsið í Gautaborg."

Hulda Lind hefur aldrei leikið á sviði á Íslandi, en segist gjarnan vilja fá tækifæri til þess í framtíðinni. "Ég ætlaði aldrei að eiga heima í Svíþjóð. Ég varð bara eftir hérna; fór í skóla, kynntist manninum mínum, fékk vinnu. Nú er ég komin með tvö börn og maðurinn minn starfar sem fréttamaður í sjónvarpinu hérna úti, þannig að það væri ekkert auðvelt að taka sig upp og koma heim," segir hún. "En það væri ofsalega gaman að fá að gera eitthvað heima á Íslandi, ef eitthvað spennandi byðist. Því auðvitað blundar alltaf í manni að fara heim aftur. Ég held að allir Íslendingar séu þannig."

ingamaria@mbl.is