Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra tók réttan pól í hæðina þegar hún sagði í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins: "Mér finnst miður, ef rótgrónir skólar eins og Landakotsskólinn og Ísaksskóli fá ekki svigrúm til síns rekstrar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra tók réttan pól í hæðina þegar hún sagði í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins: "Mér finnst miður, ef rótgrónir skólar eins og Landakotsskólinn og Ísaksskóli fá ekki svigrúm til síns rekstrar. Það er greinilega verið að draga úr möguleikum þeirra til að starfa í grunnskólakerfinu í Reykjavík. Ég er hlessa á því, hvað lítillar framsýni gætir hjá þeim sem ráða ferðinni í borginni, að þvinga sjálfstæða skóla eins og Landakotsskóla úr einkarekstri af því hann hentar ekki pólitísku landslagi þeirra.

Grunnskólarnir verða að búa við svipaða samkeppnisstöðu og sjálfstæða skólastefnu frekar en miðstýringu. Það þarf því að styrkja réttarstöðu sjálfstæðu skólanna. Það er ófært að þeir séu háðir pólitískum duttlungum þeirra, sem með völdin fara hverju sinni. Þar að auki eru þessir rótgrónu skólar sem hafa sannað gildi sitt hluti af ákveðnum menningararfi sem við eigum að virða."

Þetta er hverju orði sannara. Það er ótækt að margra áratuga merkilegt starf sjálfstæðra skóla sé unnið fyrir gýg af því að stjórnmálamönnum er illa við einkarekstur. Og það stendur að sjálfsögðu engum nær en menntamálaráðherra sjálfri að styrkja réttarstöðu einkaskólanna. Slíkt er hægt að gera með almennri löggjöf, eins og gert hefur verið víða í nágrannalöndum okkar. Helzt strax á þessu þingi, því að Reykjavíkurlistanum virðist ganga ágætlega það ætlunarverk sitt að drepa sjálfstæða skóla í borginni.

Ef skapaður verður almennur rammi um starfsemi skóla, sem reknir eru af öðrum en opinberum aðilum, má líka vænta þess að fleiri sjái tækifæri til að setja slíka skóla á stofn, til hagsbóta fyrir nemendur og foreldra, sem fyrir vikið fengju aukið val um skóla.