Sigsteinn skoðar stoltur mynd af eiginkonunni Helgu heilsa Noregskonungi á sjöunda áratugnum.
Sigsteinn skoðar stoltur mynd af eiginkonunni Helgu heilsa Noregskonungi á sjöunda áratugnum. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í fimmtíu ár bjó Sigsteinn Pálsson bóndi á Blikastöðum og sá sveitina sína, sem nú heitir Mosfellsbær, breytast úr dreifbýlu landbúnaðarsvæði í þéttbýlan bæ. Hann sagði Sunnu Ósk Logadóttur sögu sína, sem er um leið hluti af sögu Mosfellsbæjar.

Ég er jafngamall fyrsta bílnum sem kom til Íslands og símanum," segir Sigsteinn Pálsson, fyrrverandi bóndi á Blikastöðum, sem fagnar aldarafmæli sínu á morgun. "Það er ekki eitt sem hefur breyst heldur allt," segir hann um þær breytingar sem orðið hafa frá því hann var barn, t.d. varðandi tækni í landbúnaði og samgöngum. En Sigsteinn er jákvæður gagnvart breytingum, hann segist t.d. ánægður með þá þróun sem orðið hefur í Mosfellsbæ síðan hann hóf búskap á Blikastöðum árið 1942. "Það er allt jákvætt," segir Sigsteinn. "Einhvers staðar verður fólkið að búa," segir hann um þéttbýlismyndunina.

Á Blikastaðalandinu verður bráðlega reist íbúðabyggð, en landið, sem er við landamörk Mosfellsbæjar og Reykjavíkur, seldu Sigsteinn og eiginkona hans Helga Jónína Magnúsdóttir fyrir nokkrum árum. Sigsteinn segir að það hafi verið eini kosturinn, þegar fyrirsjáanlegt var að börnin þeirra tvö, Kristín og Magnús, ætluðu ekki að taka við búinu. Hann segist ekkert hafa á móti því að byggð rísi á landinu sem tengdafaðir hans og síðar hann sjálfur, ræktuðu svo úr varð gjöful jörð. "Þetta var oft erfitt en alltaf gaman," segir hann um búskaparárin að Blikastöðum.

Helga lést 25. febrúar árið 1999, 92 ára að aldri.

Frá Austfjörðum til Mosfellssveitar

Sig steinn fæddist á bænum Tungu í Fáskrúðsfirði 16. febrúar 1905. Foreldrar hans voru Páll Þorsteinsson bóndi og hreppstjóri þar og Elínborg Stefánsdóttir. Sigsteinn átti heima í Tungu að mestu til ársins 1935 er hann réð sig í vinnu í eitt ár að Reykjum í Ölfusi og í kjölfarið sem ráðsmann að Suður-Reykjum í Mosfellsbæ árið 1936, þar sem hann starfaði í fjögur ár. Hann stundaði nám einn vetur við Unglingaskólann í Neskaupstað (1923-24) og var einn vetur á Bændaskólanum að Hólum (1932-33).

Mosfellssveitin, sem nú heitir Mosfellsbær, var í þá daga gjörólík því sem nú er. "Hér snerist allt um landbúnað þegar ég kom," rifjar Sigsteinn upp. "Það sem gerði sveitina frábrugðna öðrum var að hér var mikil garðyrkja og gróðurhús, það gerði heita vatnið."

Það var á þessum fyrstu árum í Mosfellssveitinni sem Sigsteinn kynntist konu sinni til sextíu ára, Helgu Magnúsdóttur, en þau giftust árið 1939.

"Við kynntumst á balli í Brúarlandi," segir Sigsteinn og brosir að minningunni. "Svo gerði ég mér ýmislegt til erindis til að fara á skrifstofuna í Mjólkurfélaginu og í Mjólkurstöðina til að kynnast henni," segir Sigsteinn en Helga vann á þessum árum á hjá Mjólkurfélaginu.

Þú hefur verið alveg heillaður af henni?

"Það má nú aldeilis vera," segir Sigsteinn brosandi.

Ábyrgðarhluti að taka við rekstrinum

Er tengdafaðir Sigsteins, Magnús Þorláksson, varð bráðkvaddur vorið 1942 fluttu þau Helga að Blikastöðum og tóku við búinu. "Blikastaðir voru þá stórt bú og þar var mikil nýrækt," rifjar Sigsteinn upp. "Það var mikill ábyrgðarhluti að taka við rekstrinum. En við einbeittum okkur að því að halda áfram uppbyggingunni. Tengdafaðir minn hafði gert mikið úr litlu."

Sigsteinn segir að jörðin hafi ekki verið landmikil, en þegar búið var að rækta hana vel upp var hún gjöful. Þegar þau Helga tóku við búinu voru þar um 40 mjólkurkýr en í upphafi voru búin tvö, þar til Melavallabúið í Sogamýri í Reykjavík var lagt niður. "Síðar bættum við nú við útihúsi á Blikastöðum svo þegar það var flest voru þarna um 50-60 mjólkurkýr og samtals um 90-100 gripir," segir Sigsteinn.

En í þá daga voru engar mjaltarvélar, allt var handmjólkað. Sömuleiðis voru engar dráttarvélar en notast var við dráttarhesta. Því var þörf á miklu vinnuafli á bænum. "Það var stundum erfitt að fá vinnufólk," segir Sigsteinn, en þegar þau Helga taka við Blikastaðabúinu er Bretinn kominn til landsins og næga vinnu að fá. Síðar komu hingað til lands danskir landbúnaðarverkamenn sem störfuðu á búunum þegar enga Íslendinga var að fá til starfa.

Beðið eftir nýjungum

Sm ám saman komu ýmsar tækninýjungar til sögunnar sem breyttu starfi bænda til muna. "Maður beið í ofvæni eftir hverri nýjung sem að kom," segir Sigsteinn. "Dráttarvélar komu fljótlega en þar voru fyrir ákaflega góðir dráttarhestar. Það var búið að rækta mikið þegar við tókum við en við bættum við það. Mér þótti ákaflega gaman að rækta. Ég hafði eiginlega meira yndi af ræktuninni en skepnuhaldinu."

En Sigsteinn þakkar Helgu hversu vel búskapurinn á Blikastöðum tókst til. "Helga var svo fjölhæf. Hún gat gengið í fjósaverk og sest svo niður og saumað út. Það var sama á hverju hún snerti, það lék allt í höndunum á henni. Við stóðum vel saman og þetta var farsælt hjónaband."

Sigsteinn segir að flest árin hafi eitthvað verið um að vera á Blikastöðum, "annaðhvort stóðum við í ræktunarframkvæmdum eða byggingarframkvæmdum." Hann segir eftirminnilegast þegar þau hjónin létu byggja nýtt íbúðarhús í stað þess gamla sem fyrir var. Það var á árunum 1946-47. "Það var stórt stökk," segir Sigsteinn, meðan hann virðir fyrir sér gamla ljósmynd af íbúðarhúsinu. "Það var óskaplega gaman að standa í þessu en stundum var þetta erfitt."

Á fyrstu búskaparárunum var oft margt í heimili á Blikastöðum, vinnufólk og börn þeirra, stundum 15-20 manns.

Að auki var þar oft gestkvæmt. Í ágúst árið 1965 bauð Helga til að mynda konum af þingi Kvenfélagasambands Íslands, sem sett var að Lágafelli, í hádegismat og eru nöfn þeirra allra rituð í gestabók þeirra hjóna. Á árunum 1963-71 var Helga formaður sambandsins. Þá ritaði sjálf Lady Bird Johnson, þá varaforsetafrú Bandaríkjanna, nafn sitt í gestabókina um miðjan september árið 1963. Hún var þá hér í heimsókn ásamt manni sínum og vildi skoða sveitabæ. Stórbýlið Blikastaðir urðu fyrir valinu.

Sigsteinn og Helga hættu með kúabúskap 1973 en bjuggu á Blikastöðum allt til ársins 1992 er þau fluttu að Hlaðhömrum. Enn er búið á jörðinni, börn þeirra, Kristín og Magnús, búa þar enn. Eftir að kýrnar voru farnar leigði Sigsteinn landið til beitar.

Sjóður í minningu Helgu

Sigs teinn segist vel fylgjast með nýjungum í búvísindum. Árið 1999 stofnaði hann Blikastaðasjóðinn til minningar um Helgu konu sína og foreldra hennar, Magnús Þorláksson og Kristínu Jósafatsdóttur. Hlutverk sjóðsins er að styrkja nemendur sem lokið hafa háskólanámi frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri til framhaldsnáms eða til rannsókna í landbúnaðarvísindum. Aðspurður um hvernig honum lítist á nýjustu tækniundrin, t.d. rúllubaggana, er hann jákvæður sem fyrr og segir: "Það er stórkostlegt öryggi í rúllubaggaheyskapnum. Það er hægt að heyja hvernig sem tíðin er."

Sigsteinn hefur ávallt látið til sín taka í félagsmálum. Hann er annar tveggja stofnenda Lionsklúbbs Mosfellsbæjar sem enn starfar í klúbbnum og var á síðasta ári heiðraður fyrir störf sín en þá var hann elsti starfandi Lionsfélagi í heiminum. Hann var hreppstjóri í tvo áratugi og var í sóknarnefnd Lágafellssóknar í tæpa þrjá áratugi svo fátt eitt sé nefnt. Enda hefur hann skoðun á málefnum kirkjunnar, í það minnsta hvar ný kirkja skuli rísa í Mosfellsbæ, líkt og nú er rætt um. Hann segir ásana á landamerkjum gömlu Lágafellsjarðarinnar og Blikastaða, svokallaða Hrossaskjólsása, tilvalinn stað.

Sigsteinn lætur enn til sín taka í félagslífinu, stundar leikfimi nær daglega og spilar brids 1-2 sinnum í viku.

En að lokum er ekki úr vegi að spyrja hver sé galdurinn að baki því að halda góðri heilsu þrátt fyrir háan aldur. Eftirtektarvert er hversu vel hann man nöfn, ártöl og atburði, líkt og þeir hafi gerst í gær. "Ég get ekki skýrt það öðruvísi en með því að ég hef unnið, borðað og sofið," segir Sigsteinn. Hann segir langlífi í föðurættinni, langafi hans hafi til að mynda átt fáa mánuði í hundrað árin er hann lést.

Sigsteinn ætlar að taka á móti gestum í Hlégarði milli kl. 16-19 á morgun, á afmælisdeginum.