Magnús Einar Finnsson fæddist á Akureyri 21. júlí 1959. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri sunnudaginn 13. febrúar síðastliðinn. Hann var sonur hjónanna Huldu Árnadóttur handavinnukennara og Finns Torfa Hjörleifssonar kennara og síðar héraðsdómara.

Magnús ólst upp fyrstu æviárin í Reykjavík en síðar lengst af hjá móður sinni á Akureyri. Albróðir Magnúsar Einars er Árni, f. 1958, en hálfsystkin samfeðra eru Einar Torfi, f. 1965, Hjörleifur, f. 1969, og Glóey, f. 1970.

Magnús kvæntist 11. apríl 1981 Jóhönnu Erlu Birgisdóttur, f. 26. maí 1963. Foreldrar hennar eru hjónin Sumarrós Garðarsdóttir og sr. Birgir Snæbjörnsson, fyrrv. prófastur á Akureyri. Börn Jóhönnu og Magnúsar eru þrjú: 1) Arnaldur Birgir háskólanemi, f. 2. nóv. 1980. Sambýliskona hans er Paola Sabine Jensen Sewe, f. 19. ág. 1982. 2) Andri Freyr nemi í vélstjórn, f. 3. júlí 1984. Sambýliskona hans er Inga Kristín Sigurgeirsdóttir, f. 1. sept 1987. 3) Sigrún María framhaldsskólanemi, f. 21. jan. 1986.

Magnús Einar lærði tæknifræði, fyrst á Akureyri og síðan við Odense Teknikum í Óðinsvéum í Danmörku, og þaðan brautskráðist hann sem véltæknifræðingur í janúar 1984. Um vorið það ár hóf hann störf hjá Skipavík hf. í Stykkishólmi, en þremur árum síðar, 1987, gerðist hann starfsmaður Hitaveitu Akureyrar og síðan þeirra fyrirtækja sem við tóku af henni, síðast Norðurorku hf., eftir að hitaveitan, vatnsveitan og rafveitan á Akureyri höfðu sameinast í eitt fyrirtæki. Þar var hann deildarstjóri tæknisviðs til dánardags.

Magnús Einar starfaði mikið að félagsmálum. Einkum lét hann málefni skautaíþróttarinnar til sín taka. Hann sat í stjórn Skautafélags Akureyrar frá 1979-80 og síðan frá 1987 til dánardægurs, og formaður þess félags var hann frá 1999. Þá var hann og í stjórn Skautasambands Íslands og formaður þess 1997-99 og 2001-2004.

Magnús Einar verður jarðsunginn frá Akureyrarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Magnús Einar var afskaplega ljúfur drengur. Hann var fastur fyrir í rökræðum, en fyrst og fremst minnist ég hans sem leiftrandi gleðigjafa. Oft var hann hrókur alls fagnaðar þar sem menn komu saman sér til gleðiauka. Hann hafði óvenju bjartan og dillandi hlátur sem tók hugi annarra með sér.

Samt var hann alvörumaður. Hann festi ráð sitt snemma, og hann var liðlega tvítugur þegar fyrsta barnið hans var í heiminn borið. Þá var hann við nám í Danmörku. Þau Jóhanna Erla, sem var fáeinum árum yngri en hann, þurftu á öllu sínu að halda til að komast af. Og það tókst þeim bærilega, ráðdeildarfólk og fyrirhyggju.

Ríkur þáttur í fari Magnúsar var trygglyndi. Það reyndi ég, lengst af fjarlægur faðir, frá hans fyrstu barnstíð. Bréfin og kortin sem hann skrifaði mér, og þeir bræður hann og Árni, geymi ég og skoða til minningar um þessa litlu glókolla mína. Fullorðinn maður rækti hann farsællega umgengni við föður sinn og föðurfólk og alla sína vandamenn.

Hartnær aldarfjórðungur er nú liðinn síðan Magnús gekk í hjónaband. Kornung var hún Jóhanna Erla þegar hún var manni sínum gefin, 17 ára gömul, og hafði þá fætt frumburð sinn. Eindregin gifta fylgdi sambúð þeirra, elskusemi og tiltrú, og óbilandi hjálparhella reyndist Jóhanna manni sínum í hans erfiðu veikindum undir lokin. Magnús var með afbrigðum natinn og umhyggjusamur fjölskyldufaðir og tók til hendi í hverju sem var. Ekki gat ég greint að kynslóðabil væri milli hans og barna hans. Þau elskuðu föður sinn og höfðu af honum mikið traust. Móður sinni sinnti hann af alúð og hjálpaði margvíslega þegar hún þurfti þess við. Mér er einnig kunnugt að í starfi sínu sem véltæknifræðingur hlaut hann orð fyrir dugnað og samviskusemi og var vel látinn af yfirmönnum sem undirmönnum.

Það gat varla hjá því farið að maður með skapgerð og hæfileika Magnúsar Einars léti til sín taka í félagsmálum. Þeim þætti í lífi hans er ég ekki nægilega kunnugur til að fjalla um. Ég veit þó af því sem hann sjálfur sagði mér, að hann fór með drjúgan tíma og lagði mikla vinnu og hugsun í störf sín fyrir samtök skautamanna.

Hér hefur ekki verið rakinn æviferill, aðeins dregnar upp fáeinar útlínur þeirrar myndar sem ég vil geyma af þessum ljúfa dreng mínum. Hann lifir í bjartri minningu og mannvænlegum börnum sínum.

Finnur Torfi Hjörleifsson.

Magnús Einar vildi fara eigin leiðir og lét ekki ætíð stjórnast af mér sem var rúmu ári eldri og reyndi að passa upp á hann. Eitt sinn fannst hann fyrir utan leikfangabúð í miðbæ Reykjavíkur þar sem hann horfði hugfanginn inn um gluggann. Hann var þriggja ára, lét sig dreyma og áttaði sig ekki á því að hans væri ákaft leitað.

Leikir okkar mótuðust af nánasta umhverfi Brekkugötu 29 á Akureyri þar sem var skíðabrekka, skautasvell, fótboltavöllur, glás af krökkum og fullt af görðum þar sem leikin var fallin spýtan. Við tileinkuðum okkur norðlensku og gengum í KA. Hann fylgdi mér og ég fylgdi honum.

Magnús átti við tímabundna fötlun að etja í bernsku og eins og til að árétta að hann hefði náð fullum bata hóf hann að stunda skautaíþróttina af miklu kappi. Eftir að hann fluttist aftur til Akureyrar ásamt Jóhönnu og börnunum þremur var eldhugur hans helgaður skautaíþróttinni. Draumurinn um skautahöll á Akureyri varð að veruleika og þar átti Magnús stóran hlut að máli.

Magnúsi fylgdi mikil lífshamingja. Hann eignaðist frábæra fjölskyldu, hann naut þess að starfa að uppbyggingu hita- og orkuveitu á Akureyri og í frítíma sínum átti fjölskyldan og skautaíþróttin hug hans allan. Magnús var einfaldlega mjög skemmtilegur maður sem gott var að umgangast í leik og starfi. Það skal að vísu viðurkennt að hann gat verið bæði stríðinn og strembinn þegar skoðanir hans féllu ekki að hugmyndum annarra fjölskyldumeðlima að sunnan. Hann hafði jafnvel unun af því að vera á öndverðum meiði við okkur hin í deilumálum líðandi stundar en fátt var svo heilagt að húmorinn hyrfi honum.

Ég var hreykinn af bróður mínum og við erum stolt af arfleifð hans. Bæjarsamfélagið á Akureyri sýnir sínar bestu hliðar í sorg sinni. Mestur er þó missir fjölskyldu hans. Hugur okkar er hjá Jóhönnu og börnunum.

Árni Finnsson.

Það var svolítill uggur í brjósti þegar dóttir okkar, Jóhanna Erla, giftist sautján ára og hélt til Danmerkur ásamt eiginmanni sínum, Magnúsi Einari Finnssyni, og fimm mánaða syni þeirra. Sá ótti reyndist þó ástæðulaus því í ljós kom að Jóhanna hafði eignast úrvalsmann, sem ávallt lét sér einkar annt um heimili þeirra og vakti þar með umhyggju og kærleika yfir öllu.

Samhent og samtaka tóku þau öllu er að höndum bar, glaðværð og umhyggja mættu öllum sem sóttu þau heim.

Börnin þrjú, Arnaldur Birgir, Andri Freyr og Sigrún María, eignuðust þarna indælt athvarf og geta ávallt verið þakklát fyrir það sem þeim var svo ríkulega miðlað. Magnús tók mikinn þátt í heimilisstörfunum og reyndist hann hinn besti matreiðslumaður. Margar ánægjulegar stundir áttum við með þeim á heimili þeirra sem við þökkum fyrir.

Verkin léku í höndum Magnúsar, en þó var mest vert um umhyggju hans og elsku.

Af lífi og sál tók Magnús þátt í störfum Skautafélags Akureyrar og gegndi þar formennsku. Hann var ætíð boðinn og búinn til þess að leggja þar fram sitt lið og gladdist innilega þegar merkum áfanga var náð er glæsileg skautahöll var vígð. Brautryðjandastarfið var ómetanlegt og á eftir að skila sér ríkulega fyrir æsku Akureyrar.

Það var aldrei hávaði eða yfirlæti yfir störfum Magnúsar, en minningin um góðan og mikilhæfan dreng mun lifa.

Söknuður býr í huga þeirra er Magnúsi kynntust, mestur er hann þó hjá eiginkonunni sem reyndist honum svo ómetanleg stoð og stytta í erfiðum veikindum hans, sem hann bar með stakri hetjulund.

Börn og tengdadætur báru ríkulega birtu inn í líf hans allt til kveðjustundar.

Við tengdaforeldrar þökkum af hjarta hjálpsemi Magnúsar og vináttu sem var ómetanleg.

Blessuð sé minning góðs drengs.

Rósa og Birgir.

Hvíldu hjarta.

Húmblíð nóttin hefur fold í faðmi sveipt,

mildir geislar mánans hafa

munarslæðum dalinn reift.

Bládögg vafin blómin hvíla,

blundar fugl á kvisti vær.

Sofðu einnig, órótt hjarta,

allt er þögult fjær og nær.

Hvíldu, hjarta, hvíldu.

Hvíldu, hjarta.

Sjá hve fljótið silfurlygna sveimar hljótt

út í hafið ógnardjúpa

er því vaggar hægt og rótt.

Lát þú einnig, ljúfa hjarta,

ljósa drauma bera þig

burt frá sorg og burt frá kvíða,

burt frá vöku þyrnistig.

Hvíldu, hjarta, hvíldu.

(Hulda.)

Blessuð sé minning um traustan og góðan mann.

Elsku Jóhanna, Arnaldur, Andri, Sigrún, Paola, Inga, Hulda, Finnur og aðrir aðstandendur. Við sendum ykkur hlýjar samúðarkveðjur, megi guð vaka yfir ykkur öllum.

Sigríður, Laufey,

Sigurður Árni,

Elín og fjölskyldur.

Kveðja frá Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands

Magnús Finnsson félagi okkar úr forystusveit íþróttahreyfingarinnar lést 13. febrúar sl. eftir stutta og snarpa viðureign við krabbamein. Það er ekki lengra síðan en í byrjun nóvember sl. sem Magnús stóð að stofnun Íshokkísambands Íslands, keikur, hress og lífsglaður. Þremur mánuðum síðar er hann allur. Magnús var á þriðja áratug í forystusveit skautaíþrótta á Íslandi. Það er langur tími hjá ekki eldri manni. Hann kom fyrst inn í stjórn Skautafélags Akureyrar 1979 en hjá Skautasambandi Íslands starfaði hann, frá stofnun þess sambands, í ýmsum mikilvægum embættum, bæði í aðalstjórn sambandsins en einnig og aðallega í íshokkídeild. Formennska, gjaldkerastörf og dómgæsla, já öll störf voru jafn mikilvæg í augum Magga, hann lagði fram mikinn tíma og framlag til uppbyggingar skautaíþróttanna. Magnús var nákvæmur í orði og verki og var annt um að öll þau mál sem að hans verksviði sneru væru í góðu lagi. Hann var ekki margmáll en lagði jafnan gott til mála og tjáði sig þegar þess þurfti. Magnús vann mikið starf s.l. haust í undirbúning að stofnun Íshokkísambands Íslands. Þar nýttust vel reynsla hans og kostir. Stofnun sérstaks Íshokkísambands var honum kappsmál og draumur sem rættist á síðasta ári. Hann fær því miður ekki að njóta þeirrar vinnu, en það er verk íshokkíhreyfingarinnar að halda þeim kyndli á lofti í minningu Magnúsar Finnssonar.

Íþrótta- og ólympíusamband Íslands þakkar góðum félaga samfylgd og samvinnu. Fjölskyldu hans sendum við okkar dýpstu samúð. Megi minningin um góðan dreng lifa.

Ellert B. Schram forseti,

Stefán Konráðsson

framkvæmdastjóri.

Sunnudagurinn 13. febrúar sl. var sorgardagur hjá okkur skautafólki vegna þess að þá horfðum við upp á vin okkar tapa í baráttu sinni við illvígan sjúkdóm.

Það var árið 1997 að ég kynntist Magnúsi fyrst, þegar ég kom ný inn í stjórn Skautasambandsins, en Magnús var þá formaður þess. Skautasambandið var þá deildaskipt, hokkídeild og hlaupadeild, og þrátt fyrir að Magnús væri hokkímaður bar hann alla tíð hag hlaupadeildarinnar sér fyrir brjósti og sýndi því áhuga sem við vorum að gera. Árið 2003 hélt hlaupadeildin sitt fyrsta Norðurlandamót og þegar sendir voru út boðsmiðar gleymdist Magnús. Hann lét það ekki aftra sér heldur keyrði frá Akureyri og horfði á mótið. Þegar ég lýsti ánægju minni yfir því að sjá hann og bað um leið afsökunar á því að hafa ekki boðið honum formlega sagði hann: "Ég vissi að það hefði gleymst í öllum undirbúningnum." Þetta er lýsandi fyrir Magnús, að fylgjast með því sem var að gerast hjá okkur og vera ekki að æsa sig yfir hlutunum.

Á þessum árum sem við vorum saman í stjórn hef ég ósjaldan hringt í hann norður til þess að kvarta, leita ráða eða bara spjalla. Það var alltaf gott að leita til hans, sama hvert erindið var. Ég kveð Magnús með söknuði og þakka honum fyrir samfylgdina, hún var bæði lærdómsrík og gefandi.

Jóhönnu og börnunum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Megi góður Guð styrkja ykkur á þessum erfiða tíma.

Elísabet Eyjólfsdóttir, formaður Skautasambands Íslands.

Það er mikill missir fyrir allt skautafólk að missa einn af máttarstólpum sínum langt fyrir aldur fram. Magnús Einar Finnsson, formaður Skautafélags Akureyrar, fyrrum formaður Skautasambands Íslands og núverandi stjórnarmaður í nýstofnuðu Íshokkísambandi, lést eftir stutta og snarpa baráttu við illvígan sjúkdóm. Magnús var skautaáhugamaður af lífi og sál og lagði sig fram um að vinna þessari íþrótt brautargengi. Hann var ásamt Guðmundi Péturssyni fulltrúi Skautafélags Akureyrar í skautanefnd ÍSÍ frá árinu 1991 og má segja að stofnun þessarar nefndar hafi markað upphafið af þeirri miklu uppbyggingu sem skautaíþróttirnar hafa gengið í gegnum á síðustu árum. Akureyringar höfðu með krafti sínum og óbilandi bjartsýni á framtíð skautaíþrótta komið sér upp vélfrystu skautasvelli, því fyrsta á landinu, í janúar 1988. Fyrir félag sitt sat Magnús í nefndum og ráðum alla tíð, hann var leikmaður, þjálfari, fararstjóri, liðsstjóri og síðustu árin gegndi hann formennsku í félaginu sínu af mikilli fag- og trúmennsku. Undir hans stjórn urðu gríðarlegar breytingar á högum félagsins, stærstar þegar sá merki áfangi varð að byggt var yfir svellið á Akureyri. Magnús gegndi um árabil formennsku í Skautasambandi Íslands og undir hans forystu náðist langþráður draumur skautamanna í gegn, þegar Skautasambandinu var skipt upp í tvö sérsambönd innan ÍSÍ. Íshokkísamband Íslands sem hefur með málefni íshokkííþróttarinnar að gera og Skautasamband Íslands sem að hefur með málefni skautahlaupara og listdansara að gera. Hinn 6. nóvember síðastliðinn þegar Íshokkísamband Íslands varð formlega sjálfstætt sérsamband innan ÍSÍ var Magnús kjörinn gjaldkeri stjórnarinnar og gegndi hann því embætti fram í andlátið af sömu alúð og trúmennsku og einkennt höfðu önnur störf hans fyrir íslenskt skautafólk.

Stjórn Íshokkísambands Íslands vill þakka þessum heiðursmanni ómetanleg störf hans í þágu skautaíþróttanna. Jóhönnu Erlu Birgisdóttur, eftirlifandi eiginkonu hans, og börnum viljum við þakka fyrir þolinmæðina og stuðninginn í gegnum árin um leið og við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

F.h. Stjórnar Íshokkísambands Íslands.

Viðar Garðarsson formaður.

Kveðja frá Skautafélagi Akureyrar

Formaður félagsins okkar, Magnús Einar Finnsson, er látinn. Magnús kom fyrst í inn í stjórn Skautafélags Akureyrar árið 1979, þá aðeins tvítugur að aldri, en segja má að frá því upp úr 1990 hafi hann verið ein helsta stoð félagsins og stytta. Hann hefur síðan þá ávallt gegnt trúnaðarstörfum fyrir félagið, í nefndum og stjórnum, jafnt innan þess sem utan. Magnús gegndi formennsku í Skautasambandi Íslands á árunum 1997-1999 og 2001- 2004 auk þess sem hann sat í stjórn Íshokkídeildar Skautasambandsins frá stofnun árið 1995 til 1999 og aftur frá 2003 til dánardags. Hann var formaður Skautafélags Akureyrar frá 1999 til dánardags.

Framlag Magnúsar til félags- og uppbyggingarstarfs skautaíþróttarinnar var meira og stærra en hægt er að koma frá sér í nokkrum fátæklegum orðum. Hann var virkur félagsmaður sem lét mikið að sér kveða í málefnum íþróttarinnar og félagsins og við vorum lánsöm á fá notið krafta hans, þrautseigju og dugnaðar. Magnús átti stóran þátt í uppbyggingu Skautafélags Akureyrar síðasta hálfan annan áratuginn og vegur þar þyngst baráttan fyrir bættri aðstöðu skautafólks með byggingu skautahallarinnar svo og öll sú ómælda vinna sem fór í að halda uppi starfi íshokkídeildar.

Magnús var mikill áhugamaður um íshokkí, keppti sjálfur og varð Íslandsmeistari með liði sínu fyrstu árin eftir endurreisn Íslandsmeistaramótsins árið 1991 auk þess sem hann tók að sér þjálfun liðsins og gerðist liðsstjóri þess á milli. Magnús var drifkraftur íshokkídeildarinnar í rúman áratug og starfaði ötullega að deildinni alveg til hinstu stundar. Jafnframt spilaði Magnús curling með curling-deild félagsins og keppti á mótum á þess vegum.

Við eigum Magnúsi Einari Finnssyni mikið að þakka. Þrotlaust og óeigingjarnt starf hans í þágu félagsins hefur verið okkur ómetanlegt og munum við njóta ávaxta þess um ókomna tíð. Missir okkar er mikill, Magnús var góður vinur og sannkallaður heiðursmaður. Þó að stórt skarð hafi verið höggvið í okkar félagsskap sem seint verður fyllt, er missir fjölskyldu Magnúsar og ástvina hans mestur og þeim vottum við okkar dýpstu samúð.

Við fráfall Magnúsar Einars Finnssonar, formanns Skautafélags Akureyrar og eins af forystumanna okkar skautamanna til margra ára, er okkur öllum hollt að leiða hugann að lífinu og eilífðinni og því, hvernig við kjósum að lifa þá örskotsstund sem okkur er ætlað á þessari jörð. Enginn má sköpum renna, en svo skyndilegt brotthvarf manns á besta aldri, kemur okkur sem eftir lifum alltaf jafn mikið á óvart. Okkur finnst almættið ósanngjarnt og leitum svara, sem sjaldan finnast.

Magnús hafði brennandi áhuga á íshokkí og var ötull málsvari Skautafélags Akureyrar í öllum sínum störfum fyrir félagið, svo og heildarsamtök okkar skautamanna.Magnús var í forystusveit íshokkímanna og gegndi þar trúnaðarstörfum um árabil. Við fráfall hans er því höggvið skarð í raðir okkar skautafólks.

Fyrir hönd Skautafélagsins Bjarnarins sendum við eftirlifandi eiginkonu og fjölskyldu innilegustu samúðarkveðjur.

Magnús Jónasson, formaður.

Nöpur er nóttin,

niðdimm og köld

senn kemur sólin,

sækir öll völd

sorgin hún sefur

sálinni í

víst eftir vetur,

vorar á ný.

(P.E.J.)

Stuttri og erfiðri baráttu er lokið. Samstarfsmaður okkar, Magnús Finnsson tapaði í þeirri baráttu. Hann gekk til hennar með sömu þrautseigju og æðruleysi og að öðru því sem hann tók sér fyrir hendur.

Magnús var þægilegur vinnufélagi, þó hann væri ekki alltaf sammála manni á kaffistofunni.

Hann lauk þó oftast umræðunum á háum og léttum hlátri og varð þá fátt um varnir. Annars var hann vel heima í mörgum málum og velti ýmsum hlutum fyrir sér, sem sköpuðu líflegar umræður. Okkur skortir orð þegar ungt fólk fellur frá og maður situr eftir með spurninguna, hvers vegna? Við viljum votta eiginkonu, börnum, og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúðaróskir og megi minningin um Magnús Finnsson lifa með ykkur.

Fyrir hönd samstarfsfólks á Norðurorku.

Páll Eyþór Jóhannsson.

Hver er tilgangur lífsins? Hvers vegna og af hverju? Þessar spurningar hafa runnið í gegnum hug okkar síðustu daga en á fáeinum vikum hefur sá mikli vágestur sem krabbamein er lagt góðan dreng að velli. Maggi hennar Jóhönnu er allur, langt fyrir aldur fram.

Maggi var einn af þessum mönnum sem gaman er að þekkja og umgangast. Hann og Jóhanna voru sem eitt. Hárbeittur húmor þeirra hjóna, sem alltaf voru tilbúin að sjá spaugilegu hliðarnar á sjálfum sér, smitaði út frá sér og öllum leið vel í návist þeirra. Alltaf voru þau tilbúin að taka þátt í þeim uppákomum sem við í Starfsmannafélagi skrifstofu og verkstæðis Samherja hf. höfum staðið fyrir og ekki stóð á því að þau hjón væru hrókar alls fagnaðar. Skemmst er að minnast þátttöku okkar í nýliðamóti í curling á síðasta ári undir þeirra forystu. Þar var Maggi á heimavelli en skautaíþróttin var hans líf og yndi. Að loknu ánægjulegu móti var því slegið föstu að curlingmót yrði árlegur viðburður í starfi starfsmannafélagsins. Ekki grunaði okkur á þeirri stundu að Maggi myndi ekki verða þátttakandi að ári.

Elsku Jóhanna, á slíkri stundu er erfitt að finna réttu orðin. Öllum var ljóst að Maggi var stóra ástin í lífi þínu, þið voruð klettar hvort annars og stóðuð þétt saman í blíðu og stríðu. Við biðjum þess að algóður Guð styrki þig, börn þín og aðra ástvini um alla framtíð.

Blessuð sé minning um góðan dreng, hans verður sárt saknað.

Starfsfólk Samherja hf.