Aðbúnaður söngvara í Íslensku óperunni. Mjög lágt er til lofts baksviðs og steinveggir hráir og berir. Að auki ganga steypubitar víða niður úr lofti. Þeir eru klæddir svampi svo venjulegt fólk beri ekki skaða af að ganga þar um gólf.
Aðbúnaður söngvara í Íslensku óperunni. Mjög lágt er til lofts baksviðs og steinveggir hráir og berir. Að auki ganga steypubitar víða niður úr lofti. Þeir eru klæddir svampi svo venjulegt fólk beri ekki skaða af að ganga þar um gólf. — Morgunblaðið/Jim Smart
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska óperan er í sviðsljósinu þessa dagana.

Íslenska óperan er í sviðsljósinu þessa dagana. Á laugardag birtist í Lesbók Morgunblaðsins grein eftir Jónas Sen tónlistargagnrýnanda, þar sem hann gagnrýnir ýmislegt í starfsemi óperunnar, einkum listræna stefnu, sem hann segir ekki samrýmast þeim þrönga kosti sem Óperan býr við í Gamla bíói. Bjarni Daníelsson svaraði grein Jónasar í Morgunblaðinu á mánudag, og Jónas svaraði að bragði í blaði gærdagsins. Umræðan er komin af stað, og vonandi góðu heilli. Það er nefnilega þörf á að ræða málefni menningarstofnana eins og Óperunnar, sem reknar eru að stórum hluta af almannafé, og eðlilegt að skoðanaskipti fari fram og hugmyndir um starfsemina viðraðar á almennum vettvangi.

Í umræðum um Íslensku óperuna má ekki gleyma því að í þann aldarfjórðung eða svo, sem hún hefur starfað, hefur grettistaki verið lyft í óperumálum á Íslandi. Eins og fram kemur í grein Jónasar í Lesbók, eru aðstæður til óperuflutnings í Gamla bíói slæmar, en þrátt fyrir það hefur tekist að kveikja áhuga þjóðarinnar á óperulistinni og, eins og Jónas bendir réttilega á, einkum þeirri sögulegu hefð ítalskrar óperu, sem hefur notið mestra vinsælda um allan heim. Það er ekki lítið afrek að kveikja þennan neista hjá lítilli þjóð, af sama skörungsskap og gert hefur verið í Íslensku óperunni.

Það breytir því ekki að starfsemi Íslensku óperunnar er ekki hafin yfir gagnrýni, og má ekki vera það. Það leynir sér ekki að áhugi Íslendinga á óperutónlist er mikill. Fyrir tilstilli Íslensku óperunnar höfum við fengið að sjá rjómann af því besta sem óperubókmenntirnar eiga og er það vel. En hvenær er komið nóg af "sígildum safngripum", sem að auki eru sýndir við óviðunandi skilyrði? Jónas Sen vitnar í orð Bjarna Daníelssonar í Morgunblaðinu fyrir um þremur árum, þar sem Bjarni segir: "Það er ekki mikil gróska í ritun ópera sem ná hylli óperugesta. Hins vegar njóta klassísku óperurnar stöðugra vinsælda og höfða til fólks í stórum stíl. Ekkert óperuhús sem ég þekki velur alfarið ný óperuverk til sýningar." Mín spurning er einfaldlega sú: Hvernig í ósköpunum ætti að vera gróska í ritun ópera sem ná hylli óperugesta, þegar slíkar óperur eru einfaldlega ekki settar á svið? Hvar eiga þær að ná hylli almennings? "Í útlöndum" er sennilega skásta svarið sem ég hef uppá að bjóða, því íslenskar óperur virðast frekar eiga upp á pallborðið þar en hér heima. Mér finnst ástæða til að ítreka athugasemd Jónasar Sen um þetta vegna þess að við eigum nú tvær óperur sem hafa vakið athygli erlendis, Fjórða söng Guðrúnar, eftir Hauk Tómasson, en fyrir verkið fékk Haukur Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skömmu; og óperu Hafliða Hallgrímssonar byggða á ævi rússneska skáldsins Daniils Kharms, en frumgerð þeirrar óperu var flutt í Salnum fyrir nokkrum árum við rífandi ánægju þeirra sem á horfðu. Hvar er Íslenska óperan meðan þessu fer fram?

Það kann að vera rétt hjá Bjarna að engin óperuhús helgi sig flutningi nýrra verka, en það eru sannarlega til óperufélög sem helga starfsemi sína nýjum verkum; í þeim tilfellum eru hús aukaatriði en sýningum valdir staðir eftir hentugleikum. Það er líka staðreynd, að á Íslandi hafa verið samdar að minnsta kosti 35 óperur. Hvar sjáum við þær? Það eru tæp 20 ár síðan ég sá óperu Karólínu Eiríksdóttur, Mann hef ég séð, tæp 15 ár síðan ég sá óperu Hjálmars H. Ragnarssonar, Rhodymenia palmata, og þrjátíu ár síðan ég sá Þrymskviðu Jóns Ásgeirssonar. Hvernig eiga slík verk að ná hylli þegar þau eru aldrei sýnd? Margar íslenskar óperur hafa aldrei verið settar upp. Íslenska óperan verður að fara að sýna í verki að hún sé vettvangur fyrir íslenska óperu að einhverju leyti, því þótt vonlaust sé að öll samin verk séu líkleg til að öðlast vinsældir þarf að gefa þeim sanngjarnt tækifæri, til þess að hægt sé að fullyrða um það hvort þau hafi burði til þess eða ekki. Meðan þær eru ekki sýndar liggja þær dauðar í skúffum höfunda sinna. Og hvar ættu íslenskar óperur að hljóma ef ekki í Íslensku óperunni? - eða ætlum við áfram að reiða okkur á forvitni útlendinga um íslenska menningu, og stæra okkur svo sjálf af "útrásinni" þegar við sjáum að útlendingarnir voru á undan okkur að átta sig á okkar eigin ágæti. Nýjustu fregnir herma að Svíar hafi boðið Caput að flytja Fjórða söng Guðrúnar þar í landi á næstunni.

Nýjar og nýlegar erlendar óperur ættu líka að vera fastur liður á dagskrá Óperunnar. Í tíð Gerrits Schuils sem listræns stjórnanda Óperunnar var sleginn nýr tónn í þeim efnum, sem gaf svo góð fyrirheit um framtíð stofnunarinnar, en illu heilli hraktist hann úr starfi.

Víst er Gamla bíó ómögulegt hús, og merkilegt í raun, að Vinnueftirlit ríkisins skuli yfirleitt heimila þar atvinnustarfsemi af nokkru tagi. Við stærum okkur meira að segja af því að "hafa getað" sett Aidu þar upp um árið. Jú, það tókst, en hvaða greiði var Aidu gerður með því? Óperan þarf svo bráðnauðsynlega að fá betra athvarf og atlæti. Það er spurning um líf eða dauða stofnunarinnar, ætli hún sér að halda sig á sömu listrænu miðum; að hafa þungann á stórum sígildum ítölskum og þýskum óperum; og jafnvel einnig þótt hún vilji stefna á önnur og framsæknari mið. Jónas Sen nefnir í sinni grein hugsanlegt samstarf við Þjóðleikhúsið, sem hlýtur að teljast prýðilegur kostur. Hins vegar hlýtur sá kostur að vera bestur, sem oft hefur verið velt upp í umræðunni um Óperuna, og hann er sá, að Íslenska óperan fái inni í Tónlistarhúsinu. Þeirri spurningu hefur aldrei verið svarað hreint út hvers vegna það á ekki að verða. Peningar - jú, það er dýrara, en ekki dýrara en að byggja síðarmeir hús fyrir Íslensku óperuna. Og sá tími mun koma fyrr en síðar, að sú krafa verði hávær. Hugmyndir um að breyta húsum sem þegar eru til, til að þjóna Óperunni, eru farsakenndar og ávísun á klúður og málamiðlanir sem engum munu gagnast. Hvaða ljón eru eiginlega í veginum fyrir því að Óperan fái inni í húsinu? Samstarf Óperunnar við Sinfóníuhljómsveitina er svo rakið, og í raun þegar til staðar, að það þarf enga viðskiptasnillinga til að sjá hagkvæmnina í slíkum samrekstri.

Báðar stofnanirnar hafa framkvæmdastjóra á sínum snærum sem hvorugur er fagmaður í tónlistinni. Gætu stofnanirnar sameinast undir einni öflugri og fagmannlegri listrænni stjórn? Teldist það ekki kostur í þessu tilfelli? Líkt og Óperan hefur Sinfóníuhljómsveitin verið gagnrýnd fyrir rýran hlut íslenskra og nýrra verka á sinni efnisskrá. Þessar stóru stofnanir ættu að líta til lítils hóps eins og Kammersveitar Reykjavíkur, þar sem mikill metnaður er lagður í flutning bæði íslenskra og nýrra verka í bland við eldri. Þar er fyrirmynd sem virkar vel - og Kammersveitin, sem lýtur faglegri stjórn, nýtur bæði vinsælda og viðurkenningar fyrir vikið.

Getur verið að einhvers staðar liggi ljón í vegi innan stofnananna sjálfra sem ekki vilja í samstarf af því tagi sem hér hefur verið nefnt? Bjarni Daníelsson óperustjóri hefur lýst sig fúsan til þess, en hvað með Sinfóníuna? Hefur hún verið andsnúin hugmyndum um að Óperan fái inni í Tónlistarhúsi allrar þjóðarinnar? Þessar spurningar þarf að ræða umbúðalaust og þeim þarf að svara. Sama á við um spurningar um listræna stefnu og sýn slíkra stofnana. Þeir sem taka þátt í þeirri umræðu þurfa að skilja að hún má ekki snúast um persónur, - hagur tónlistarinnar og þeirra sem hennar njóta verður að ganga fyrir.