ÁFORM ríkisstjórnarinnar um að sameina Landsvirkjun, RARIK og Orkubú Vestfjarða voru harðlega gagnrýnd af stjórnarandstöðunni á Alþingi í gær. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra sagði á hinn bóginn margt mæla með sameiningu fyrirtækjanna.

ÁFORM ríkisstjórnarinnar um að sameina Landsvirkjun, RARIK og Orkubú Vestfjarða voru harðlega gagnrýnd af stjórnarandstöðunni á Alþingi í gær. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra sagði á hinn bóginn margt mæla með sameiningu fyrirtækjanna. Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokks, tók fram að þessi mál hefðu ekki verið rædd innan þingflokkanna, þar með talinn þingflokk framsóknarmanna.

Berjast gegn sameiningu

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, er samþykkur því að losa Reykjavíkurborg við sinn hluta í Landsvirkjun og telur þarflaust að borgin bindi 20 milljarða króna í Landsvirkjun sem nýta mætti til brýnni mála. Hann sagðist hins vegar á móti sameiningunni. Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði flokksmenn sína mundu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að fyrirbyggja sameiningu fyrirtækjanna þriggja. Guðjón A. Kristjánsson, Frjálslynda flokknum, sagði að með sameiningunni væri ekki verið að horfa til hagsmuna almennings eða landsbyggðar.

Valgerður Sverrisdóttir sagði að með sameiningunni yrði eiginfjárstaðan styrkt og hagræðing yrði umtalsverð, m.a. í viðhaldi háspennulína. Með þessu móti lækkaði kostnaður við raforkukerfið og fyrir vikið yrði verð til notenda lægra.