Bjarki A. Brynjarsson
Bjarki A. Brynjarsson
Bjarki A. Brynjarsson fjallar um þátttöku kvenna í tækni- og verkfræði: "Lágar væntingar til kvenna geta haft eins neikvæð áhrif og bein kynjamismunun og getur skýrt að hluta hversu lítill hluti kvenna stefnir á æðstu prófgráður."

NÝLEG ummæli rektors Harvard-háskóla, Lawrence Summers, um að "náttúrulegur kynjamunur" geti verið ástæða þess að konur eru fámennar í tækni- og verkfræði hafa vakið miklar umræður og jafnvel deilur. Því miður hefur athyglin þó fyrst og fremst beinst að fortíðinni fremur en að líta til framtíðar og finna leiðir til úrbóta.

Ekki þarf að spyrja að því hvort konur geti náð árangri í stærðfræði, verkfræði og raunvísindum - afrek Marie Curie fyrir u.þ.b. 100 árum eyddu efasemdum um það. Hins vegar er mikilvægt að leita svara við því hvernig hvetja megi fleiri konur til þátttöku í þessum greinum. Fjölmargar rannsóknir á hæfileikum og þátttöku karla og kvenna í tækni- og verkfræði hafa sýnt fram á nauðsyn þess að beina sjónum að hefðum og öðrum samfélagslegum þáttum. Hugmyndir rektors Harvard um að "náttúrulegur kynjamunur" geti skýrt hlutfallslega litla þátttöku kvenna í tækni- og verkfræði geta endurvakið gamlar bábiljur og byggt undir neikvæðar staðalímyndir.

Er þátttaka kvenna í tækni- og verkfræðigreinum mikilvæg?

Hátækni og tæknileg nýsköpun er að verða einn helsti drifkraftur hagkerfisins, samtímis því sem fyrir liggur að fjöldi þeirra sem sækja tækni- og verkfræðinám hér á landi er allt of lítill og hlutfallslega minni en í nágrannalöndum okkar. Við þessar aðstæður er mikilvægt að jafnt konur sem karlar sæki í þessar greinar og leggi þeim til hæfileika og sjónarmið. Þar til fjöldi kvenna og karla í tækni- og verkfræði jafnast er ljóst að virkjun hæfileika á þessu sviði hefur ekki verið hámörkuð.

Ef þátttaka kvenna í tækni- og verkfræði vex ekki í hlutfalli við vaxandi þátttöku kvenna í atvinnulífinu að öðru leyti verður vaxandi skekkja í kynjasamsetningu tæknifólks sem getur dregið enn frekar úr áhuga kvenna á tækni- og verkfræði. Íslenskt samfélag má ekki við því að vera eftirbátur í tækni- og verkfræði.

Aukinn áhugi kvenna á tækni- og verkfræðinámi?

Margvíslegur lærdómur hefur þegar verið dreginn af rannsóknum og reynslu háskóla um það hvernig best skuli staðið að því að hámarka árangur nemenda. Nýlegar rannsóknir sýna t.d. að breyttar kennsluaðferðir geta leitt til sambærilegs árangurs kvenna og karla í stærðfræði á framhaldsskólastigi. Mikilvægasta og árangursríkasta aðferðin er að tryggja að konur hafi sterka og jákvæða kennara, kvenkyns og karlkyns, sem trúa á hæfileika kvenna, staðfesta þá og þróa áfram. Lágar væntingar til kvenna geta haft eins neikvæð áhrif og bein kynjamismunun og getur skýrt að hluta hversu lítill hluti kvenna stefnir á æðstu prófgráður.

Háskólar verða að þróa andrúmsloft og reglur sem hjálpa konum með börn að ná jafnvægi milli vinnustaðar og heimilis.

Þótt enn sé langt í land með að ráðningar, störf og framgangur kvenna í háskólum á sviðum tækni- og verkfræði séu til jafns við karla hefur nokkuð áunnist. Skv. tölum frá National Science Foundation í USA, var 10,9% doktorsgráða í verkfræði veitt til kvenna þar árið 1994 en 16,8% árið 2001. Vaxandi fjöldi kvenna stundar nú nám í öflugustu háskólum heims og staðfesta ekki aðeins mikla grunnhæfni, heldur sýna einnig hugmyndaauðgi, ákveðni, móttækileika og vinnuhörku sem eru nauðsynlegar undirstöður árangurs í raunvísindum og verkfræði, eins og í mörgum öðrum greinum.

Þessar tölur sýna vaxandi þátttöku kvenna í greinum sem hafa, í gegnum tíðina, ekki verið þeim vinveittar. Það er gríðarlega mikilvægt, ekki aðeins fyrir háskólasamfélagið heldur samfélagið í heild, að framtíðin opni konum enn frekari tækifæri í tækni- og verkfræði.

Til hamingju, Ragnhildur Geirsdóttir

Það er ánægjulegt að sjá að verkfræðimenntaðar konur eru farnar að ná meiri frama í atvinnulífinu og sérstaklega ber að fagna nýjasta dæminu þar um, þ.e. ráðningu Ragnhildar Geirsdóttur verkfræðings sem forstjóra Flugleiða hf.

Ný tækni- og verkfræðideild sameinaðs háskóla Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands tekur til starfa á næstunni. Í uppbyggingu nýrrar deildar er tækifæri til að jafna hlut kvenna í röðum kennara, taka tillit til sjónarmiða kvenna við uppbyggingu og útfærslu námsbrauta og hvetja ungar konur til þess að sýna frumkvæði og styrkja stöðu sína í tækni- og verkfræðigreinum.

Heimildir: Grein rektora MIT, Princeton og Stanford sem birtist í Boston Globe 12. febrúar 2005 og National Science Foundation, www.nsf.gov - feb. 2005.

Bjarki A. Brynjarsson fjallar um þátttöku kvenna í tækni- og verkfræði