ÁKVEÐIÐ hefur verið að Útlendingastofnun sendi lögreglustjórum mánaðarlega lista yfir handhafa þeirra dvalarleyfa sem renna út í mánuðinum. Lögreglan á síðan að fylgja því eftir að viðkomandi hverfi af landi brott en hefji ekki ólöglega atvinnuþátttöku.

ÁKVEÐIÐ hefur verið að Útlendingastofnun sendi lögreglustjórum mánaðarlega lista yfir handhafa þeirra dvalarleyfa sem renna út í mánuðinum. Lögreglan á síðan að fylgja því eftir að viðkomandi hverfi af landi brott en hefji ekki ólöglega atvinnuþátttöku.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skriflegu svari dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar, við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar.

Í svarinu kemur fram að embættismenn ráðuneytisins hafi á síðustu vikum rætt við fulltrúa ríkislögreglustjóra og lögregluembætta á höfuðborgarsvæðinu um hvernig best sé að framfylgja lögum um atvinnuþátttöku útlendinga. Þar hafi m.a. komið fram tillögur um að endurskoða gildistíma skattkorta útlendinga í tímabundinni dvöl, þannig að þau taki mið af gildistíma dvalarleyfa.

"Enn fremur hefur verið rætt um að fjarlægja nöfn útlendinga af þjóðskrá þegar löglegri dvöl þeirra lýkur."

Í svarinu segir að það sé mat ráðherra "að brýnt sé að tryggja að þeir sem nýta útlendinga í atvinnustarfsemi í trássi við lög og rétt séu látnir sæta ábyrgð."

Jóhanna Sigurðardóttir spyr m.a. út í vinnulöggjöfina og í svarinu segir að umfang brota á þeirri löggjöf hafi ekki verið kannað nægilega. "Þó virðist sem langstærstur hluti þeirra mála sem upp koma eða spurnir berast af snúist um atvinnuþátttöku fólks frá nýju ESB- ríkjunum tíu," segir í svarinu. "Þetta fólk hefur þá réttarstöðu að það getur ferðast löglega til landsins sem ferðamenn. Þar sem fólkið ferðast innan Schengen-svæðisins er ekki heimilt að framkvæma sérstakt landamæraeftirlit við komuna til Íslands nema í ákveðnum sérgreindum tilvikum. Þess vegna er ekki hægt að kanna kerfisbundið hver tilgangur dvalar viðkomandi er hérlendis eða hvernig högum hans er háttað. Því er ekki raunhæft að taka á þessu vandamáli nema að mjög takmörkuðu leyti við landamæragæslu."

Yfir 7.500 dvalarleyfi

Í svarinu kemur fram að eftirlit lögreglu með útlendingum sé stöðugt að aukast. Nú finnst t.d. varla ólögmætt vinnuafl í fiskvinnslu og verði að ætla að það megi rekja til þess að eftirlitið hafi orðið skilvirkara og lögreglumenn meðvitaðri um réttarheimildir til eftirlitsins. Að sögn lögreglumanna sé ólöglegt vinnuafl einkum að finna í byggingariðnaði.

Í svarinu kemur fram að 7.510 dvalarleyfi hafi verið gefin út á síðasta ári, en til samanburðar voru 2.100 dvalarleyfi gefin út árið 1990. Af þeim 7.510 sem voru gefin út á síðasta ári voru 1.200 gefin til Pólverja, 1.172 til Bandaríkjamanna, 449 til Filippseyinga, 364 til Litháa, 344 til Kínverja, 333 til Jógóslava og 294 til Taílendinga, svo dæmi séu nefnd.