Bæjarar þrengja að Arsenal í meistaradeildinni. Frakkinn Willy Sagnol og Argentínumaðurinn Martin Demichelis, leikmenn Bayern, sækja að Spánverjanum Jose Reyes, leikmanni Arsenal.
Bæjarar þrengja að Arsenal í meistaradeildinni. Frakkinn Willy Sagnol og Argentínumaðurinn Martin Demichelis, leikmenn Bayern, sækja að Spánverjanum Jose Reyes, leikmanni Arsenal. — Reuters
HEPPNIN var svo sannarlega með ensku meisturunum í Arsenal þegar þeir heimsóttu Bayern München í meistaradeildinni í knattspyrnu í gærkvöldi.

HEPPNIN var svo sannarlega með ensku meisturunum í Arsenal þegar þeir heimsóttu Bayern München í meistaradeildinni í knattspyrnu í gærkvöldi. Bæjarar mættu tilbúnir til leiks, léku ensku meistarana sundur og saman og þegar upp var staðið mega Lundúnastrákarnir teljast heppnir að fara heim með 3:1 á bakinu.

Claudio Pizarro kom Bayern á bragðið strax á fjórðu mínútu, fékk boltann inn fyrir steinsofandi vörn Arsenal og skoraði auðveldlega. Ekki sú byrjun sem Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hafði óskað sér í kuldanum í München. Pizzaro var aftur á ferðinni í upphafi síðari hálfleiks og aftur svaf vörn Arsenal á verðinum, þó enginn eins fast og Kolo Abib Toure, sem hafði nagað sig í handarbökin í leikhléinu fyrir hræðileg byrjendamistök í fyrsta marki Bæjara.

En Toure vaknaði til lífsins er á leið og það var hann sem kveikti vonir Arsenal um að komast áfram í keppninni þegar hann minnkaði muninn á 89. mínútu en í millitíðinni hafði Hasan Salihamidzic komið Bayern í 3:0.

Mark Toure þýðir að ensku meisturunum nægir að sigra 2:0 þegar liðin mætast á Highbury 9. mars og hljóta leikmenn félagsins að þakka Toure úr því sem komið var. Mun þægilegra að taka á móti Oliver Kahn og félögum eftir 3:1 tap en 3:0 eins og allt stefndi í.

"Við misstum einbeitinguna í smástund og var refsað fyrir það," sagði Bixente Lizarazu, varnarmaður Bayern eftir leikinn. "Við vorum með þennan leik í höndunum og allt stefndi í mjög hagstæð úrslit fyrir okkur, en því miður tókst okkur ekki að fylgja því eftir og það var virkilega leiðinlegt að fá á sig mark svona seint í leiknum. En það er samt betra en að gera jafntefli," sagði varnarmaðurinn, sem átti náðugan dag þar sem leikmenn Arsenal voru hugmyndasnauðir og sóknir þeirra og leikurinn ekki svipur hjá sjón.

Fyrsta mark Bayern kom eins og áður segir í upphafi leiks. Toure hitti boltann illa með kollinum þegar hann ætlaði að skalla frá marki sínu eftir langa markspyrnu Kahns, markvarðar Bayern. Boltinn fór af kolli Toure fyrir fætur Pizarro.

Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður náðu leikmenn Arsenal loks tökum á sjálfum sér, héldu knettinum ágætlega innan liðsins en heimamenn vörðust af skynsemi og Arsenal komst hvorki lönd né strönd.

Perúmaðurinn Pizarro skallaði í netið eftir aukaspyrnu snemma í síðari hálfleik, stakk sér fram fyrir Toure sem átti að gæta hans.

Það var greinilegt að vörn Arsenal saknaði Sol Campbell og Dennis Bergkamp hefði gert liðinu gott. Hins vegar var ekki að sjá á leik Bayern að liðið saknaði Michael Ballacks.

"Það hefði verið vonlítið að mæta Bayern heima eftir 3:0 tap en 3:1 breytir öllu fyrir okkur. Nú eigum við möguleika. Mörkin sem við fengum á okkur voru öll af ódýrari gerðinni og það er ekki oft sem við fáum þrjú slík á okkur," sagði Jens Lehmann, markvörður Arsenal, eftir leikinn.

PSV lagði Mónakó

Varnarmaðurinn Alex gerði eina mark leiksins þegar PSV mætti Mónakó, sem lék til úrslita í keppninni í fyrra. Alex stökk hæst allra í miðjum teig á 9. mínútu og skallaði í netið. Leikmenn PSV léku vel og fengu nokkur færi til að skora fleiri mörk.