Steinunn Valdís Óskarsdóttir
Steinunn Valdís Óskarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
YFIRLÝSING svæðisfélags Vinstri grænna í Reykjavík þess efnis að VG í Reykjavík hljóti að leggjast eindregið gegn sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun var unnin í fullu samráði við borgarfulltrúa flokksins innan R-listans.

YFIRLÝSING svæðisfélags Vinstri grænna í Reykjavík þess efnis að VG í Reykjavík hljóti að leggjast eindregið gegn sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun var unnin í fullu samráði við borgarfulltrúa flokksins innan R-listans. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri segir að þessi afstaða VG í Reykjavík setji ekki viljayfirlýsingu eigenda Landsvirkjunar, sem undirrituð var í síðustu viku, í uppnám. Í þeirri yfirlýsingu gaf ríkið fyrirheit um að kaupa eignarhlut Reykjavíkurborgar og Akureyrar af ríkinu.

Yfirlýsing VGR er svohljóðandi: "Vinstrihreyfingin - grænt framboð í Reykjavík leggur áherslu á að eitt af meginstefnumálum flokksins er að grunnþjónusta samfélagsins sé rekin á félagslegum forsendum og sé í almanna eigu. Nú þegar iðnaðarráðherra hefur lýst því yfir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að til standi að setja Landsvirkjun á markað er ljóst að VG í Reykjavík hlýtur að leggjast eindregið gegn fyrirhugaðri sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun. Það þjónar hvorki hagsmunum Reykvíkinga né annarra landsmanna að málið fari lengra á þeim forsendum sem iðnaðarráðherra hefur lagt upp. Af þessum sökum áskilur VG í Reykjavík sér allan rétt til að leggjast gegn þessum áformum."

Snýr að áformum ríkisins

Steinunn Valdís sagði að það væru auðvitað mjög skiptar skoðanir um þetta mál. Hún heyrði að það væri líka ágreiningur í þingflokki framsóknarmanna og hugsanlega í þingflokki sjálfstæðismanna, þó að hún vissi það ekki, en hún teldi að þessi ályktun VG í Reykjavík sneri fyrst og fremst að áformum ríkisins um einkavæðingu.

"Ég hefði viljað skilja þetta tvennt að. Það hefur verið yfirlýst stefna þessa meirihluta að losa hlut sinn í Landsvirkjun og í því felast miklir hagsmunir fyrir Reykjavíkurborg. Þetta er hlutur upp á tugi milljarða króna og það hafa allir borgarfulltrúar og allir flokkar sem standa að Reykjavíkurlistanum verið þeirrar skoðunar að það bæri að losa þennan hlut. Ég held hins vegar að yfirlýsingar ráðherranna í kjölfar undirritunarinnar um einkavæðingu hafi sett menn svolítið út af sporinu víða," sagði Steinunn Valdís.

Hún sagði að þannig vildu menn tengja saman einkavæðingu Landsvirkjunar annars vegar og hins vegar það að Reykjavíkurborg væri að fara út úr Landsvirkjun, en að hennar mati ætti að horfa á þetta aðskilið. Það væri hagsmunamál fyrir Reykjavíkurborg að losa út sinn hlut. Hvað ríkið gerði síðan við Landsvirkjun væri mál sem yrði að takast á um á Alþingi.

Breytt staða

Svandís Svavarsdóttir, formaður VG í Reykjavík, sagði spurð um yfirlýsingu svæðisfélagsins í Reykjavík og hvort borgarfulltrúar flokksins innan Reykjavíkurlistans myndu leggjast gegn því að borgin seldi sinn hlut, að hún sæi ekki annað en staðan í málinu væri nokkuð breytt eftir yfirlýsingu iðnaðar- og viðskiptaráðherra um einkavæðingu Landsvirkjunar og yfirlýsing svæðisfélagsins í Reykjavík væri unnin í fullu samráði við borgarfulltrúa flokksins. Þarna væri um tvennt að ræða. Annars vegar þá grundvallarforsendu hvað varðaði stefnumál Vinstri grænna að almannaþjónusta ætti að vera í eigu almennings og rekin á félagslegum forsendum. Hins vegar væru það hagsmunir Reykjavíkurborgar og þeir gríðarlegu fjármunir sem væru bundnir í Landsvirkjun, sem vissulega þyrfti að taka tillit til.

"Við lítum svo á að við getum ekki tekið þátt í þessu fyrirhugaða einkavæðingarferli. Við getum ekki annað en reynt að hægja á því eða koma í veg fyrir það úr því við höfum stöðu til þess," sagði Svandís.