Sveitakeppni Bridshátíðar.

Sveitakeppni Bridshátíðar.

Norður
G53
KD6 N/AV
Á105
G742

Vestur Austur
K976 ÁD4
1094 8
K4 G9862
K1095 D863

Suður
1082
ÁG7532
D73
Á

Símon Símonarson og félagar í sveit Garða og véla unnu sveitakeppni Bridshátíðar - Flugleiðamótið - 70 liða keppni sem lauk á mánudagskvöld eftir tveggja daga baráttu á Hótel Loftleiðum. Með Símoni spiluðu Rúnar Magnússon, Friðjón Þórhallsson, Sigfús Örn Árnason og Stefán Guðjohnsen. Nafni Símonar, Bretinn Simon Gillis, varð í öðru sæti, en með honum spiluðu norsku stórmeistararnir Erik Sælensminde, Boye Brogeland og Jan Petter Svendsen.

Spilið að ofan er úr fimmtu umferð Flugleiðamótsins. Sagt er að "opnun á móti opnun sé samasem geim", sem í þessu tilfelli þýddi það að suður varð víða sagnhafi í fjórum hjörtum eftir opnun norðurs á Standard-laufi eða Precision-tígli.

Fjögur hjörtu er ekki gæfulegur samningur, en nokkrir sagnhafar fengu út tígulkóng, sem gefur níunda slaginn og vinningsvon. Eða hvað? Hvernig á að spila eftir þessa ágætu byrjun?

Tæknilega sinnaðir spilarar myndu drepa á tígulás, spila laufi á ás og nota innkomur blinds á KD í trompi til að stinga tvö lauf. Þá vinnst geimið ef laufhjónin falla önnur eða þriðju og trompið kemur 2-2. Sem er ekki beinlínis líklegt og ekki raunin hér.

Hagsýnir spilarar fara aðra leið. Þeir gera eins og Tony Forrester boðar - taka langlitinn sinn og vonast eftir hjálp frá mótherjunum. Segjum að sagnhafi taki á tígulás og spili öllum trompunum sex til enda. Ef AV eru með allt á hreinu geta þeir tryggt sér fjóra slagi, en í reynd er erfitt að henda rétt af sér. Á einu borði kaus austur að henda tveimur spöðum (og drottningunni þar með), sem gaf sagnhafa færi á að byggja þar upp slag. Annars staðar lét austur endaspila sig í spaða til að spila tígli frá tígulgosanum í lokin. Og hitt sást líka, að austur henti öllum tíglunum.

Ráðlegging Forresters um "gúmmískvísinn" er því sannarlega í fullu gildi: "Taktu langlitinn þinn og sjáðu hvað gerist." Stefán Vilhjálmsson las fyrri pistla um ráð Bretans og orti snarlega - á ensku:

Use your face of poker, please!

play like Master Tony.

Wring them in a "rubber" squeeze,

it really works, though, phoney.

Og Stefán átti líka til íslenska útgáfu:

Með pókerfeisi er frami vís,

þér fer sem Tona snjalla.

Ef gleymir ekki gúmmískvís,

getur platað alla.