"VIÐ horfum upp á það að Davíð [Oddsson] er okkar styrkasta stoð í því að koma í veg fyrir að við göngum í Evrópusambandið. Mér hefur fundist Davíð vera að linast í þessum málum, sem við höfum alltaf mátt búast við að hann myndi gera að lokum.

"VIÐ horfum upp á það að Davíð [Oddsson] er okkar styrkasta stoð í því að koma í veg fyrir að við göngum í Evrópusambandið. Mér hefur fundist Davíð vera að linast í þessum málum, sem við höfum alltaf mátt búast við að hann myndi gera að lokum. Þá notum við hann ekkert sem stuðpúða lengur," sagði Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur, á flokksráðsfundi Vinstri-grænna um helgina þegar hann varaði fundarmenn við því að linast í afstöðu sinni til ESB. Vildi hann markvissari baráttu ESB-andstæðinga, hvatti til fundahalda þar sem þessi mál væru rædd og snarpari andstöðu.

Viss uppgjöf

"Við eigum ekki bara að segja að við séum á móti innlimun í Evrópusambandið. Við eigum að taka undir með Ragnari Árnasyni þegar hann bendir á, og vekur það mál upp, að það sé ekkert sjálfgefið að við eigum að vera í Evrópska efnahagssvæðinu áfram," sagði Ragnar.

Honum fannst eins og viss uppgjöf væri í andstöðu við ESB innan Vinstri-grænna og þær raddir heyrðust að þetta væri ekki mál málanna. Sama uppgjöf hefði hafist hjá Alþýðusambandinu og öðrum slíkum samtökum. Þessi sérstaða VG mætti ekki dofna í opinberri umræðu.

Ekki spunnust miklar umræður um Evrópusambandið á fundinum, en þó gerði Ögmundur Jónasson, þingmaður, grein fyrir þjónustutilskipun sambandsins. Var að lokum ályktað gegn henni og varað alvarlega við tilskipuninni.