"Frábært starfsfólk," segja foreldrar: Svanhvít Jóhannsdóttir, Sigríður María Atladóttir, Fairouz Naimy og Magnea Jónsdóttir.
"Frábært starfsfólk," segja foreldrar: Svanhvít Jóhannsdóttir, Sigríður María Atladóttir, Fairouz Naimy og Magnea Jónsdóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FLENSA af völdum RS-veiru hefur lagst óvenjuþungt á ungbörn í vetur og hefur gífurlegt álag verið á deildum Barnaspítala Hringsins frá áramótum. Hvorki fleiri né færri en tæplega 1.

FLENSA af völdum RS-veiru hefur lagst óvenjuþungt á ungbörn í vetur og hefur gífurlegt álag verið á deildum Barnaspítala Hringsins frá áramótum. Hvorki fleiri né færri en tæplega 1.900 börn hafa komið á bráðamóttöku spítalans frá áramótum sem er meira en helmingi meira en á sama tíma í fyrra. Eitt þúsund börn komu á bráðadeildina nú í janúar og það sem af er febrúar hafa rúmlega 800 börn verið færð þangað. RS-veiran veldur öndunarfærasýkingum og leggst þyngst á allra yngstu börnin, allt frá nokkurra daga eða vikna gömlum til nokkurra mánaða. Hafa læknar á barnaspítalanum aldrei séð eins erfiðan faraldur eins og í vetur. Það gerist ekki oft að leggja þurfi börn inn á spítalann af þessum sökum en síðastliðnar vikur hafa allt upp í 10 börn þurft að leggjast inn og þar af hefur þurft að setja nokkur þeirra í öndunarvélar.

Mikið vaktaálag hjá starfsfólki

"Flensan stendur sem hæst núna og við erum ennþá að sjá aukningu í komutölum á spítalann," segir Ingileif Sigfúsdóttir deildarstjóri á Barnaspítala Hringsins. Mikið vaktaálag hefur verið á starfsfólki spítalans og hafa loturnar verið æði langar hjá mörgum.

Barnaspítalinn er mjög vel tækjum búinn til að mæta þessum alvarlega flensufaraldri en það vantar bara fleira starfsfólk að sögn Atla Dagbjartssonar yfirlæknis á vökudeild barnaspítalans. "Það er nokkuð þungt í okkur hljóðið um þessar mundir vegna þess hve gríðarlega hefur verið gengið nærri okkur í sparnaðaraðgerðum og uppsögnum á starfsfólki. Það reyna allir að leggja harðar að sér til að láta ástandið ekki koma niður á sjúklingunum en þetta gengur ekki til eilífðar. Þó hefur okkur tekist að halda þessu á réttum kili, en það er ekki hægt nema með því gríðarlega góða starfsfólki sem hér vinnur."

Til að gefa mynd af því sem var uppi á teningnum í janúar - þegar eitt þúsund börn komu á bráðamóttökuna - voru þrír hjúkrunarfræðingar og einn sjúkraliði á morgun- og kvöldvöktum auk tveggja hjúkrunarfræðinga á næturvöktum. Hjúkrunarfræðingar á gjörgæsludeildinni hafa borið hitann og þungann en starfsfólk af öllum öðrum deildum hefur líka verið kallað til aðstoðar.

Ekki þurfa öll börn að dvelja lengi á spítalanum en 16% þeirra eru höfð undir eftirliti í 5 klukkustundir eða meira. Ríflega tíunda hvert barn þarf hinsvegar á innlögn að halda að sögn Sigurðar Kristjánssonar yfirlæknis sem segir barnapestirnar í vetur hafa verið óvenjugrimmar og starfsliðið finni meira fyrir álaginu nú en áður t.d. veturinn 2001 sem var erfiður.

Meginorsök innlagnar hjá börnum er öndunarerfiðleikar vegna slíms sem myndast við veirusýkinguna og situr þungt í örsmáum lungnaberkjum yngstu barnanna. Þetta slím er oft þykkara en gengur og gerist í venjulegu kvefi að sögn Atla og getur stíflað öndunarveginn með þeim afleiðingum að börnin gefast upp á að anda. "Þá þarf að setja þau í öndunarvélar," segir hann. Þetta eru t.d. börn sem hafa fæðst fyrir tímann og eru einna viðkvæmust fyrir sýkingum.

RS-veran smitast einkum við snertingu en líka við öndun. Smákvef í einhverjum getur smitað barn illilega og því er handþvottur mikilvæg smitvörn að sögn Sigurðar. Um 80% allra tveggja ára barna hafa fengið RS veiruna en hjá langflestum eru einkennin saklausari en svo að þau þurfi spítalameðferð. Það eru hins vegar þau yngstu sem ekki hafa lifað faraldur áður sem eru hvað berskjölduðust.