Leiðtogar Atlantshafsbandalagsríkjanna stilla sér upp í Brussel vegna hefðbundinnar hópmyndar á leiðtogafundum. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra er þriðji frá vinstri í efstu röð.
Leiðtogar Atlantshafsbandalagsríkjanna stilla sér upp í Brussel vegna hefðbundinnar hópmyndar á leiðtogafundum. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra er þriðji frá vinstri í efstu röð. — AP
HALLDÓR Ásgrímsson forsætisráðherra sótti fund leiðtoga aðildarþjóða Atlantshafsbandalagsins, NATO, í Brussel í gær en þar var m.a. ákveðið að öll ríkin veittu Írökum aðstoð af einhverju tagi við uppbyggingu landsins.

HALLDÓR Ásgrímsson forsætisráðherra sótti fund leiðtoga aðildarþjóða Atlantshafsbandalagsins, NATO, í Brussel í gær en þar var m.a. ákveðið að öll ríkin veittu Írökum aðstoð af einhverju tagi við uppbyggingu landsins. Íslendingar munu leggja fram fé í sameiginlegan sjóð til að kosta þjálfun öryggissveita Íraka og munu greiða fyrir loftflutninga í tengslum við áætlunina. Halldór segir þessa sameiginlegu ákvörðun mjög mikilvæga fyrir bandalagið.

"Menn töluðu mikið um mikilvægi þess að þessar þjóðir héldu áfram að styrkja lýðræði í heiminum, hvort sem er í Afganistan, á Balkanskaga, eða í Mið-Austurlöndum. Það var greinilegt að menn vildu leggja til hliðar gömul ágreiningsmál og horfa fram á veg," sagði forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið í gær.

Rætt var á fundinum um möguleikana á því að NATO kæmi ef til vill að friðargæslu á svæðum Palestínumanna ef friður semdist. "Það var rætt með opnum hætti á fundi leiðtoganna," sagði Halldór. "Fram kom að Palestínumenn hafa mikinn áhuga á því að NATO komi að þjálfun öryggissveita Palestínu. Það er einnig ljóst að bæði Ísraelsmenn og Palestínumenn myndu treysta Atlantshafsbandalaginu best til þess að sjá um öryggisgæslu eftir að friðarsamningar hafa náðst.

Ísraelar myndu treysta Bandaríkjamönnum best, Palestínumenn Evrópuþjóðunum. Það eins og liggur í loftinu að málamiðlunin gæti verið að Atlantshafsbandalagið kæmi að þessum málum. Það hafa engar ákvarðanir verið teknar í þessum efnum en í umræðunum í dag var dyrum haldið opnum.

Atlantshafsbandalagið er þau samtök í heiminum sem best er treyst til friðargæslu. Það hefur komið í ljós á Balkanskaga og í Afganistan og komið hefur fram í samtölum við forystumenn í Írak að þeir leggja mikið upp úr því að bandalagið komi þar að málum. Þeir vilja það miklu frekar en að það sé ein og ein þjóð sem það geri, þeir vilja að það séu samtök þjóða sem taka þátt í starfinu. Bandalagið nýtur mikils trausts um allan heim, samtökin þykja áreiðanleg í því hlutverki að hjálpa til við að halda friðinn."

Forseti Úkraínu, Viktor Jústsjenko, sem var gestur leiðtogafundarins, lagði að sögn Halldórs áherslu á að þjóð hans vildi sem fyrst fá aðild að bandalaginu. "Og fulltrúar Eystrasaltsríkjanna sögðu að núna fyrst væri almenningur í löndum þeirra öruggur með framtíð sína eftir að ríkin hafa gengið í Atlantshafsbandalagið."

Bush og Evrópuleiðtogar vilja græða sárin

Halldór sagði ræðu George W. Bush Bandaríkjaforseta í Brussel á mánudag hafa verið yfirgripsmikla. "Það er ljóst að Bush kemur hér í þeim tilgangi að skapa sér og Bandaríkjunum meira traust í Evrópu. Menn gera sér grein fyrir því að þessi samskipti hafa beðið hnekki á undanförnum mánuðum og árum. Bæði hann og aðrir leiðtogar eru að leggja sig fram um að græða þau sár sem þar hafa myndast. Mér fannst ríkja mikil einlægni hér í dag. Menn sjá að báðir aðilar hafa mikla hagsmuni af því að koma þessum samskiptum í lag og vilja að það ríki meiri eindrægni innan Atlantshafsbandalagsins."

Hörð orð hafa stundum fallið á undanförnum árum í samskiptunum en Halldór sagði andrúmsloftið hafa verið gott í Brussel. Aldrei bæri á nokkurri andúð í garð Bush af hálfu nokkurra NATO-leiðtoga. "Maður verður aldrei var við það. Gagnkvæm virðing ríkir á þessum fundum og menn leggja sig fram um það að eiga góð samskipti við alla. Ég hef aldrei orðið var við neina persónulega andúð eða pirring í máli manna í garð Bandaríkjaforseta. Þvert á móti þá var greinilegt að bæði [Jacques] Chirac og [Gerhard Schröder] lögðu sig sérstaklega fram um það að sýna fram á vináttu við Bandaríkin," sagði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra.