"SAMTÖK banka og verbréfafyrirtækja koma fram undir dulargervi; aðilar sem þykjast vera að berjast fyrir opinni og frjálsri samkeppni en eru í reynd samráðsvettvangur allra helstu fjármálastofnana landsins.

"SAMTÖK banka og verbréfafyrirtækja koma fram undir dulargervi; aðilar sem þykjast vera að berjast fyrir opinni og frjálsri samkeppni en eru í reynd samráðsvettvangur allra helstu fjármálastofnana landsins. Þær virðast hafa sameinast um að koma hættulegasta samkeppnisaðilanum út af markaði. Og það er Íbúðalánasjóður," segir Ögmundur Jónasson, þingmaður VG.

Hann segir bankana vilja komast yfir öll viðskipti Íbúðalánasjóðs sem sé í samfélagslegri eign. Nóg sé að horfa á söguna til að átta sig á þessu. Fyrst hafi verið reynt að bola Íbúðalánasjóði út af markaðnum með kæru til ESA, Eftirlitsstofnunar Evrópska efnahagssvæðisins. Þegar það hafi ekki gengið liðu ekki nema ellefu dagar þangað til bankarnir hafi lækkað vexti sína. Og nú sé aftur kært og að þessu inni til EFTA-dómstólsins. Niðurstöðu hans sé beðið.

Ófullnægjandi auglýsingar

"Það er rangt að bankarnir veiti Íbúðalánasjóði eðlilegt og sanngjarnt aðhald. Þessu er öfugt farið nema hvað bankarnir kveinka sér undan þessu aðhaldi og beita öllum ráðum til að koma í veg fyrir það," segir Ögmundur. Hann furðar sig á því að talsmaður Sambands banka og verðbréfafyrirtækja, Guðjón Rúnarsson, saki Íbúðalánasjóð um "grímulausa samkeppni". "Bíddu, er það ekki það sem þeir þykjast vera að beita sér fyrir?"

Ögmundur bendir á að á heimasíðu SBV segi að Byggðastofnun eigi aðild að samtökunum. "Hún hlýtur þess vegna að vera ábyrg fyrir þessu sem þarna er að gerast," segir hann og spyr hvort þetta sé með vitund og samþykki stjórnvalda. Aðför að Íbúðalánasjóði muni koma verst út fyrir dreifbýlið.

Þingmaður Vinstri-grænna segist hafa heimildir fyrir því að Fjármálaeftirlitið hafi gert athugasemdir við auglýsingar bankanna um íbúðalán á 4,15% vöxtum. Lánin séu í reynd þinglýst með 5,1% vöxtum. Viðskiptavinir þurfi að uppfylla viss skilyrði og fallast á skilmála bankanna til að fá lán á lægri vöxtum.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, bendir í þessu sambandi á umræðuskjal sem gefið var út af FME í desember sl. Þar segir að krafa sé gerð um að vandað sé til auglýsinga vegna fasteignalána og fram komi með skýrum hætti ef vaxtakjör eða aðrir skilmálar séu háðir tilteknum skilyrðum. "Að mati Fjármálaeftirlitsins hafa auglýsingar og kynningar ekki í öllum tilvikum verið fullnægjandi hvað þetta varðar og hefur þeim athugasemdum verið beint til lánastofnana að bæta úr þar sem þess er þörf."