GÖTUEFTIRLIT fíkniefnadeildarinnar í Reykjavík hefur komið upp um 32 fíkniefnamál í þessum mánuði og hefur lagt hald á um 600 grömm af fíkniefnum. Fíkniefnin hafa fundist við húsleitir, í bílum, á skemmtistöðum og við leit á fólki á götum úti.

GÖTUEFTIRLIT fíkniefnadeildarinnar í Reykjavík hefur komið upp um 32 fíkniefnamál í þessum mánuði og hefur lagt hald á um 600 grömm af fíkniefnum. Fíkniefnin hafa fundist við húsleitir, í bílum, á skemmtistöðum og við leit á fólki á götum úti.

Í þessum málum tók lögregla 64 grömm af maríjúana, 457 grömm af hassi, 49 grömm af amfetamíni, 11 grömm af kókaíni, einn skammt af LSD og 35 steratöflur. Lögregla mun kæra 35 einstaklinga vegna þessara mála.

Fimm lögreglumenn vinna við götueftirlitið sem var komið á fót fyrir nokkrum árum. "Það er ætlunin að efla þetta eftirlit og halda því gangandi af fullu afli. Markmiðið með götueftirlitinu er að sporna við sölu og dreifingu fíkniefna á götunni samhliða rannsóknum á stærri og umfangsmeiri málum," segir Ásgeir Karlsson yfirmaður fíkniefnadeildarinnar.