Kristinn Pétursson
Kristinn Pétursson
Kristinn Pétursson fjallar um stefnu íslenskra stjórnvalda í Íraksmálinu: "Hvernig getur rógburður um forsætisráðherra þjóðarinnar viðgengst hérlendis mánuðum saman?"

FRAMKOMA sem sumir fjölmiðlar og fleiri sýna forætisráðherra, Halldóri Ásgrímssyni, út af Íraksmálinu er alveg dæmalaus! Virðing sumra fjölmiðlamanna fyrir stjórnmálamönnum hæfir vel götustrákum. Ég kynntist Halldóri Ásgrímssyni á Alþingi 1988-1991 og átti með honum gott samstarf. Halldór er með traustustu mönnum. Ég var og er stundum ósammála pólitískum sjónarmiðum Halldórs, en ber fyrir þeim virðingu og ætlast til að aðrir virði mín sjónarmið. Virðing fyrir andstæðum sjónarmiðum er grundvallaratriði í lýðræðisríki og að umfjöllun um ráðamenn þjóðarinnar sé af tilhlýðilegri virðingu.

Nú liggur það fyrir - staðfest af Eiríki Tómassyni forseta Lagastofnunar Háskóla Íslands - að Halldór fór faglega rétt að allri málsmeðferð í Íraksmálinu. Ákvæði laga í þingsköpum um að "bera mál undir utanríkismálanefnd" á einungis við ef um stefnubreytingu Alþingis hefði verið að ræða í utanríkismálum. Mótuð stefna Alþingis í utanríkismálum er samþykkt varnarsamnings Íslands og USA annars vegar, og aðild Íslands að NATO hins vegar. Við vinnum samkvæmt þessu og störfum að ábyrgð gegn hryðjuverkastarfsemi og ógnarstjórnum. Þetta er kjarni þessa máls.

Þó allt þetta hafi komið fram halda sumir fjölmiðlar áfram að japla daglega á útúrsnúningi um þessi grundvallaratriði. Snúa þessu öllu á hvolf, með rógburði um að athafnir forsætisráðherra landsins í Íraksmálinu hafi ekki samrýmst stjórnskipun lýðveldisins, þegar hann gegndi störfum utanríkisráðherra! Svona rógburður er með ólíkindum! Formaður Blaðamannafélags Íslands birti svo tæra lygafrétt um þetta á Stöð 2. Hafði samt manndóm til að segja af sér - að hálfu! Siðgæðisvitund hans er enn svo brengluð, að hann getur áfram gegnt formennsku í félagi blaðamanna! Á að skilja það þannig að "meðaltal" á siðgæði félaga í Blaðamannafélagi Íslands sé með slíkum "standard"? Eru þeir sem halda áfram að djöflast með rógburð á hendur forsætisráðherra landsins að segja okkur að hryðjuverkamenn eigi að njóta vafans?

Hvernig getur rógburður um forsætisráðherra þjóðarinnar viðgengst hérlendis mánuðum saman? Er það stefna einhverra áhrifavalda að reyna að skipta út í stjórnarráðinu til að koma nýrri stjórn til valda sem hafi þá stefnu að hætta farsælu vestrænu varnarsamstafi og hætta að berjast gegn hryðjuverkum, í skiptum fyrir nýja stefnu, friðun á hryðjuverkamönnum og ógnarstjórnum? Er það nýja stefnan?

Kristinn Pétursson fjallar um stefnu íslenskra stjórnvalda í Íraksmálinu