HERSTEINN Pálsson, rithöfundur, blaðamaður og þýðandi, andaðist 21. febrúar sl. 88 ára að aldri. Hersteinn fæddist í Reykjavík 31. október 1916. Foreldrar hans voru Guðrún Sigríður Indriðadóttir leikkona og Páll Jónatan Steingrímsson ritstjóri.

HERSTEINN Pálsson, rithöfundur, blaðamaður og þýðandi, andaðist 21. febrúar sl. 88 ára að aldri. Hersteinn fæddist í Reykjavík 31. október 1916. Foreldrar hans voru Guðrún Sigríður Indriðadóttir leikkona og Páll Jónatan Steingrímsson ritstjóri.

Hersteinn varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1935 og var í námi við Háskóla Íslands 1935-36. Hann var blaðamaður við Vísi 1936-42 og ritstjóri 1942-63. Hersteinn var fréttaritari UPI -fréttastofunnar 1942-63 og New York Times 1944-63. Hann starfaði hjá Upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna í Reykjavík 1963-66. Forstjóri Ritverks hf., fyrsta almannatengslafyrirtækis hér á landi, var hann frá 1967. Þá var Hersteinn formaður Blaðamannafélags Íslands 1946-47. Hann var einn þriggja stofnenda Lionshreyfingarinnar á Íslandi 1951.

Hersteinn var ötull þýðandi bóka, kvikmynda og sjónvarpsefnis. Hann þýddi yfir 300 bækur og um 4.000 kvikmyndatexta fyrir sjónvarp og kvikmyndahús. Auk þess liggja eftir hann nokkrar bækur.

Hersteinn var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1988.

Eftirlifandi eiginkona Hersteins er Margrét Ásgeirsdóttir. Þau eignuðust tvö börn, Ingu verkfræðing og Pál prófessor.