Víkverji brá sér á skyndibitastað um helgina með börnin og ákvað að reyna að fylgja hollustusjónarmiðum sem mest hann mátti. Af þeim sökum varð Subway fyrir valinu.

Víkverji brá sér á skyndibitastað um helgina með börnin og ákvað að reyna að fylgja hollustusjónarmiðum sem mest hann mátti. Af þeim sökum varð Subway fyrir valinu. Allt gekk þetta ágætlega fyrir sig, eða þar til veitingarnar voru komnar á borðið og ung dóttir Víkverja minnti föður sinn á að hann hefði gleymt að kaupa krakkapakka. Með í þeim kaupum fylgir ávallt eitthvert dót, sem sú litla hafði mestan áhuga á.

Víkverji mannaði sig upp í að fara að afgreiðsluborðinu og spyrja hvort ekki mætti kaupa leikfang, það hefði í raun verið hið eina sem vantaði upp á viðskiptin skömmu áður. En það kom á daginn að þetta var alls ekki hægt. Starfsmenn sögðu afgreiðslukassann ekki bjóða upp á þennan möguleika, ekki væri hægt að kaupa dót eftir á!

Með þessi skilaboð sneri Víkverji hneykslaður til baka að borðinu og ekki minnkaði óánægja þeirrar litlu. Eitthvað virtust afgreiðslustúlkurnar fá samviskubit því ein þeirra kom fljótlega að borðinu og bauð telpunni og bróður hennar sárabót í formi myndasagnablaðs eða litabókar. Vonbrigðin voru það mikil við borðið að þessu boði var hafnað, án þess að Víkverji fengi nokkru um ráðið.

Hvernig væri nú að stjórnendur Subway skoðuðu þessa afgreiðslukassa betur og huguðu að sveigjanleikanum? Á meðan ætlar Víkverji að reyna að standa sig betur í föðurhlutverkinu.

Fyrst rætt er um Subway-keðjuna getur Víkverji ekki sleppt því að greina frá undrun sinni yfir auglýsingamennskunni í þættinum Idol-Extra á Popptíví. Þar gengur þáttastjórnandinn á milli viðmælenda með fulla vasa af fríðindum og gylliboðum frá styrktaraðilum þáttarins. Steininn tók úr þegar heiðursmanninum Ragga Bjarna voru boðnir frímiðar á Subway. Maður býður ekki Ragga Bjarna út að borða á skyndibitastað!