Hluthafar Fjölmennt var á aðalfundi Íslandsbanka en hluthafar í bankanum eru á ellefta þúsund talsins.
Hluthafar Fjölmennt var á aðalfundi Íslandsbanka en hluthafar í bankanum eru á ellefta þúsund talsins. — Morgunblaðið/Þorkell
"NOKKUR merki ójafnvægis hafa komið fram í hagvísum síðustu mánuði. Verðbólga mælist há og viðskiptahalli mikill. Þá hafa miklar verðhækkanir verið á eignamörkuðum, s.s. á íbúðamarkaði.

"NOKKUR merki ójafnvægis hafa komið fram í hagvísum síðustu mánuði. Verðbólga mælist há og viðskiptahalli mikill. Þá hafa miklar verðhækkanir verið á eignamörkuðum, s.s. á íbúðamarkaði. Þenslan virðist því enn og aftur vera að grafa um sig í innlendu efnahagslífi. Það eru vonbrigði að þessi staða skuli vera komin upp nú þegar hagstjórnin hafði næg tækifæri til að bregðast við þeim vanda sem var að skapast," sagði Einar Sveinsson stjórnarformaður Íslandsbanka á aðalfundi bankans í gær.

"Vitað var um stóriðjuframkvæmdirnar með fyrirvara og hvaða áhrif þær hefðu ef stjórnvöld brygðust ekki við af nægjanlegum krafti í tíma. Afleiðingin er mun erfiðari barátta innlendra fyrirtækja fyrir markaðshlutdeild sinni og arðsemi á alþjóðlegum markaði. Staða sem kann að koma niður á hagvexti þegar til lengdar er litið. Þetta er áhyggjuefni," sagði Einar.

Furðar sig á viðbrögðum ÍLS

Hann lagði áherslu á í máli sínu að markverður árangur hefði náðst í íslensku efnahagslífi á síðustu árum og vöxtur hefði hér verið umfram það sem hefði verið í flestum nágrannaríkjanna. "Með áherslu á markaðsvæðingu, þátttöku í alþjóðasamfélaginu og eflingu grunnþátta hagvaxtar á borð við fjarskipta-, mennta- og heilbrigðiskerfi þjóðarinnar höfum við náð að styrkja stöðu okkar meðal tekjuhæstu þjóða heims. Þó ávallt sé hægt að benda á hluti sem hefðu mátt betur fara er rétt að gleðjast yfir þeim markverða árangri sem við höfum náð. Við getum státað af því að hér á landi eru markaðir virkari, menntakerfið öflugra, færri fyrirtæki í ríkiseigu, fjarskiptakerfið öflugra og færri hindranir í erlendum viðskiptum en voru fyrir rúmum áratug eða svo. Þjóðin stendur betur fyrir vikið."

Einar furðaði sig jafnframt á viðbrögðum ríkisstofnunarinnar Íbúðalánasjóðs við auknu frjálsræði og harðnandi samkeppni á húsnæðislánamarkaði. "Sá sjóður starfar eftir sérlögum, nýtur ríkisábyrgðar án þess að greiða fyrir það, og er í samkeppni við einkaaðila á ójöfnum forsendum. Það hlýtur að vera tímaspursmál hvenær síðustu afskiptum ríkisvaldsins af fjármálamarkaðnum lýkur og ótrúlegt að stjórnvöld hafi enn ekki áttað sig að fullu á þeim ávinningi sem frelsisvæðing fjármálakerfisins hefur skilað samfélaginu. Það er mikilvægt að húsnæðislánamarkaðurinn hér á landi nái sama þroska og í þeim löndum sem við berum okkur saman við," sagði Einar.

Tvöfalt til Menningarsjóðs

Aðalfundur bankans samþykkti einróma þær tillögur sem lagðar höfðu verið fyrir fundinn. Nokkrir fundarmanna kváðu sér þó hljóðs varðandi tillögu um 50 milljóna króna framlag í Menningarsjóð Íslandsbanka. Þótti þeim ástæða til að auka við framlagið í ljósi góðrar afkomu bankans. Því lagði stjórnin fram nýja tillögu á fundinum, um að framlag til Menningarsjóðs yrði 100 milljónir króna.

Meðal samþykktra tillagna var að greiddur skyldi 4.550 milljóna króna arður til hluthafa en hluthöfum er gefinn kostur á að fá allt að helming arðsins greiddan í hlutafé í bankanum á genginu 10,65.

Jafnframt var samþykkt að bankaráð skyldi framvegis kallað stjórn í samræmi við almenningshlutafélög almennt. Þá fékk stjórnin fékk heimild fundarins til að auka hlutafé um allt að 1.213 milljónir króna.

Helgi dró sig til baka

SJÁLFKJÖRIÐ var í stjórn Íslandsbanka og tekur Þórarinn V. Þórarinsson sæti í stjórn bankans. Að öðru leyti er stjórnin óbreytt. Átta voru í framboði til sjö stjórnarsæta en Helgi Magnússon sem setið hefur í stjórninni sl. 8 ár dró framboð sitt til baka skömmu fyrir fundinn.

Í yfirlýsingu frá Helga segir: "Ég hef fundið fyrir öflugum og góðum stuðningi frá miklum fjölda hluthafa sem lagt hafa áherslu á að ég sæti áfram í stjórn Íslandsbanka hf. enda hef ég átt sæti í bankaráðinu í átta ár á miklum uppgangstímum. Ég tel mig hafa haft vísan stuðning meira en 10% hluthafa sem hefði nægt fyrir stjórnarsæti. Það hefur hins vegar komið mér á óvart hve forystumenn bankans hafa lagt mikið á sig til að freista þess að binda endi á átta ára setu mína í bankaráði og eins andstaða þeirra við nauðsynlegt aðhald minnihluta og þörf skoðanaskipti innan stjórnar í svo stóru almenningshlutafélagi. Ég tel kröftum mínum betur varið í jákvæðara umhverfi."

Helgi vildi ekki tjá sig frekar um málið þegar Morgunblaðið leitaði eftir því.