Guðmundur Ragnar
Guðmundur Ragnar
EDDA Printing and Publishing Ltd. hefur fyrir hönd óstofnaðs eignarhaldsfélags keypt Prentmet ehf. en kaupverðið er trúnaðarmál. Dótturfélag Prentmets, Prentverk Akraness, fylgir með í kaupunum.

EDDA Printing and Publishing Ltd. hefur fyrir hönd óstofnaðs eignarhaldsfélags keypt Prentmet ehf. en kaupverðið er trúnaðarmál. Dótturfélag Prentmets, Prentverk Akraness, fylgir með í kaupunum. Fyrir á Edda PP allt hlutafé í Edda Printing LLC sem rekur eina stærstu og fullkomnustu prentsmiðju Pétursborgar í Rússlandi. Áætluð sameiginleg velta prentsmiðjanna á Íslandi og Rússlandi á yfirstandandi ári er vel á fjórða milljarð króna og þar af rúmlega helmingur ytra.

"Þetta var ekki auðveld ákvörðun fyrir okkur hjónin því Prentmet er litla barnið okkar, ef svo má segja. Við höfum rekið og hlúð vel að fyrirtækinu sem hefur endurspeglast í þeim uppgangi sem hefur verið hjá okkur," segir Guðmundur Ragnar Guðmundsson en hann og kona hans, Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttur, hófu rekstur Prentmets árið 1992 og voru þá einu starfsmenn þess en nú starfa þar rúmlega 100 manns. "Við tókum þessa ákvörðun og töldum okkur geta verið með góða samvisku þar sem þarna væru aðilar sem hefðu mikinn metnað og hafa sýnt það í öllu sem þeir gera að þeir standa vel að öllum hlutum."

Guðmundur segir það hafa verið lykilatriði hjá kaupendunum að þau hjónin verði áfram. "Það verður allt óbreytt. Við tökum bæði sæti stjórn Prentmets og það var sett sem skilyrði að ég myndi taka sæti í stjórnum fyrirtækja sem eru í eigu þessara aðila og verða stofnuð í framtíðinni." Hann segir Prentmet standa mjög framarlega í tæknimálum, það sé t.d. með fullkomnustu arkaprentvél sem til sé á Íslandi, vél sem kosti 250 milljónir og hafi verið tekin í notkun 2003. Velta félagsins nam tæplega 830 milljónum króna í fyrra og jókst um 31% á milli ára, jafnmikið og milli áranna 2002 og 2003.