10. mars 2005 | Aðsent efni | 715 orð | 1 mynd

Vetrarljós og gömul hús í Reykjavík

Nanna Hermanson
Nanna Hermanson
Nanna Hermanson fjallar um upplifun útlendinga á miðbæ Reykjavíkur: "Mikilvægt er að varðveita þessi fáu hús sem eftir eru fyrir komandi kynslóðir."
"EN HVAÐ þessi gata er falleg," sagði kona ein um Skólavörðustíginn þegar við gengum niður götuna einn laugardagsmorguninn. Ég varð hissa, hafði alltaf litið á hana sem skemmtilega og huggulega, en ekki beint fallega. En nú var ég á ferðinni ásamt þrettán sænskum konum á ýmsum aldri, sundleikfimihópnum mínum frá Stokkhólmi.

Við vorum heppnar með helgarferðina okkar, ekki bara veðrið heldur lentum beint í Vetrarljósahátíð borgarinnar. Eftir viðkomu í Bláa lóninu komum við í Safn Einars Jónssonar og eftir frábæran kvöldmat í húsi Bernhöfts bakara hrifumst við af fossum Rúríar í Listasafni Íslands og verkum gömlu meistaranna. Talsvert af fólki var þar og sérstakt, aðlaðandi andrúmsloft alveg fram að miðnætti. Góð hugmynd þessi Ljósahátíð!

Á laugardagsmorguninn gengum við um Kvosina en hópurinn hafði skoðað gömul kort af Reykjavík og séð ljósmyndir áður svo að hægt var að útskýra legu landnámsbæjar og nýja Fjalaköttinn fyrir þeim. Í Grjótaþorpinu sáum við hjá Sögufélaginu gamalt plakat með mynd af Kvennaskólanum við Austurvöll sem sýndi hvernig hann var augnstunginn fyrir tuttugu árum, en ég hafði einmitt bent félögum mínum á þetta gullfallega hús sem búið er að laga. Ein stúlka talaði seinna um hve sterkt myndin orkaði á hana. Í gluggum Kirsuberjatrésins var allt ljósgrænt og inni voru hillurnar fullar af öllum regnbogans litum, efnum og útfærslum og formum. Spurt var hvort þessi hönnun sem sæist svo víða væri framhald á gamalli frásagnarhefð?

Sýningu Þjóðminjasafnsins var vel tekið af hópnum og einn þátttakandinn hélt því fram að hún væri sú besta hún hefði séð í nokkru þjóðminjasafni. Enda er gaman að segja frá þessum gersemum sem eru þar til sýnis. Ekki fóru allar í Sundhöllina en við, sem vorum þar í laug þegar tískusýning hófst á bakkanum, gleymum því seint. Þetta var líka þáttur í Vetrarljósi sem kom okkur á óvart.

Eftir frábært kvöld í Árbæjarsafni var á sunnudegi farið til Þingvalla, Gullfoss og Geysis. Enginn varð fyrir vonbrigðum. Eftir glæsilegan kvöldverð spurði ég svo hvað þeim hefði þótt merkast. Efst á lista var náttúran og vetrarlitirnir, fallegri en að sumri, sagði ein sem hafði komið áður. Það kom gestunum á óvart hve nýtískulegt allt virtist vera. Hve maturinn var góður og móttökurnar hlýlegar. Ekki gat ég svarað þeirri spurningu hvað heimamönnum fyndist um túrista. Ótrúlegt þótti hve söfnin væru mörg og flott. Þeim hafði líka þótt gaman að heyra um karla eins og Hallgrím Pétursson og við hlustuðum í rútunni á upplestur á sálmi eftir hann, sem var frábærlega vel lesinn.

Ég hafði ekki sagt félögum mínum frá því að húsvernd hefði komist í logandi umræðu vegna áætlana um byggingar við Laugaveginn þegar ég spurði hvað þeim fyndist um miðbæinn. Ummælin voru öll afar jákvæð. Það er gaman að öllum þessum litum og hvað húsin eru ólíkir einstaklingar frá ýmsum tímum. Bárujárninu var hrósað fyrir að líta ekki út sem "járn", og ein ung kona sagðist vera sérstaklega hrifin af ryðinu sem hún ljósmyndaði í gríð og erg. Hún veitti líka veggjakroti athygli og fannst það lífga upp á gráa veggi. "Snickarglädjen" eða útskurðurinn á timburhúsunum fannst fleirum afskaplega fallegur. Ein spurning kom upp og spurt var af hverju gluggar næðu svo hátt upp undir loft og gat ég ekki svarað því. Tengibyggingar úr gleri við gömul hús, eins og við Alþingishúsið, fannst nokkrum mjög smart, þær finnast ekki í Stokkhólmi. Ein konan var sérstaklega hrifin af Hegningarhúsinu sem hún taldi fallegt og einstakt. Sú ósk var borin fram að ekki yrði farið með miðbæinn eins og með miðbæ Stokkhólms þar sem peningjahyggjan olli því að gömul hús voru rifin og við það var eins og sérkenni borgarinnar máðust út. Hér væri enn sambland frá ýmsum tímum eins og í Kaupmannahöfn og það er miklu skemmtilegra og líflegra. Þessi orð hópsins voru miklu meira afgerandi og jákvæðari en ég hafði búist við. Þess vegna langar mig að koma þeim á framfæri. Hins vegar var ég fegin því að ég var ein, þegar ég snemma á sunnudagsmorgni gekk um Kvosina og sá leifar af "gleði" næturinnar sem hreinsunardeildin var að fara að taka saman.

Ferðamenn hafa gaman af þessum gömlu hverfum og sjá þau í ljósi sem heimamenn e.t.v. skynja ekki jafn sterkt og vilja oft gleyma. Mikilvægt er að varðveita þessi fáu hús sem eftir eru fyrir komandi kynslóðir.

Nanna Hermanson fjallar um upplifun útlendinga á miðbæ Reykjavíkur

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.