15. mars 2005 | Innlendar fréttir | 126 orð

Í kuldagreipum

Konráð Erlendsson kvartar yfir hafís og harðindum, þó að hann viðurkenni að næturfrost sé ekki óvenjulegt í mars. Hann yrkir braghendur: Norðanáttin næðir köld um nef og vanga. Af heiðabrúnum fönnin fýkur, frostið hart um hörund strýkur.
Konráð Erlendsson kvartar yfir hafís og harðindum, þó að hann viðurkenni að næturfrost sé ekki óvenjulegt í mars. Hann yrkir braghendur:

Norðanáttin næðir köld um nef og vanga.

Af heiðabrúnum fönnin fýkur,

frostið hart um hörund strýkur.

Niðdimm hríðin nístir hold og nagar sálir.

Frostreykur úr fjörðum stígur,

frerinn djúpt í jörðu smýgur.

Sigrúnu Haraldsdóttur þykir gott að geta ort um veðrið eins og vanalega:

Okkur hrellir kulda kast,

kletta flengir bára.

Vorið unga frosið fast

í fangi gamla Kára.

Sagt er að Jón biskup Þorkelsson Vídalín hafi ort er hann lagði á Kaldadal í síðustu ferð sinni, en hann komst með naumindum í sæluhús á leiðinni og lést þar:

Herra guð í himnasal,

haltu mér við trúna.

Kvíði eg fyrir Kaldadal;

kvelda tekur núna.

pebl@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.