Drekinn fyrr og nú Leiklist Hávar Sigurjónsson MR sýnir á Herranótt Drekann eftir Jewgení Schwarz í þýðingu Örnólfs Árnasonar. Leikmynd og búningar: María Valsdóttir. Leikstjóri: Hallmar Sigurðsson.

Drekinn fyrr og nú Leiklist Hávar Sigurjónsson

MR sýnir á Herranótt Drekann eftir Jewgení Schwarz í þýðingu Örnólfs Árnasonar.

Leikmynd og búningar:

María Valsdóttir.

Leikstjóri: Hallmar Sigurðsson.

Drekinn er háðsk ádeila á pólitískt einræði, skrifað í skugga Stalínstímabilsins, og að sjálfsögðu bannað strax eftir frumsýningu og lá í þagnargildi fram yfir 1960. Schwarz skrifar ádeilu sína sem ævintýri, riddarinn Lanselot kemur til borgar sem stjórnað hefur verið um aldir af illum dreka. Íbúarnir hafa vanist ógnarstjórn hans og sumir hafa auðvitað gott af drekanum, hafa komið sér þægilega fyrir, fengið góðar stöður eins og gengur.

Hetjan Lanselot skorar drekann umsvifalaust á hólm, til að bjarga stúlkunni sem drekinn hefur helgað sér og síðan rúllar þetta allt af stað með öllum græjum ævintýrisins, fljúgandi teppum, huliðshöttum og talandi dýrum. Ævintýrið eitt og sér er skemmtilegt, textinn er spaugilegur en sem leikrit rís það ekki hátt nema hinu raunverulega efni sé haldið að áhorfendum, a.m.k. þannig að þeir fái á tilfinninguna að leikendur viti af þeirri hlið verksins. Það sakar auðvitað ekki að flytjendum sé ádeilan einhvers virði. Leikrit á borð við Drekann verður í meira lagi undarlegt að horfa á þegar það er flutt sem "söguleg gamanádeila", minjagripur um stað og stund þegar vesæll sovéskur höfundur neyddist tl að koma óánægju sinni á framfæri dulbúinni; í dag eru breyttir tímar, allt gengur vel alls staðar og táknræn ævintýri þarf hvergi að skrifa. Drekinn hefur á okkur slíkt tak að fáir treysta sér í verkfall, Bosnía hlýtur að vera á annarri plánetu, og við höfum það ágætt þótt allt sé af okkur tekið og ekkert komi í staðinn. Vegna alls þessa hefði kannski mátt svipast betur um í nútímanum eftir tilvísunum, í stað þess að horfa til fortíðar og benda á fasisma 3. og 4. áratugarins. Það er túlkun sem segir við áhorfendur; í dag er ekkert að, en í gamla daga var ýmislegt í ólagi.

Sviðsetning Hallmars Sigurðssonar í Tjarnarbæ er áferðarfalleg og hnökralaus. Leikmyndin er í anda ævintýrsins og leikhópurinn stendur sig í heild vel en kemur ekki á óvart. Elín Lilja Jónasdóttir og Markús Þór Andrésson gerðu mjög vel en Markús má gæta þess á stöku stað, að hraðinn verði ekki of mikill. Ólafur Darri Ólafsson sýndi talsverð tilþrif en hefði einnig hag af því að flýta sér hægt. Þá stóðu stúlkurnar þrjár sem skiptu drekanum á milli sín sig ágætlega og er ekki hægt að gera upp á milli þeirra þar sem ógjörningur er að átta sig á hver var hvað. Skiptir kannski ekki meginmáli. Í heild er þetta falleg sýning og vel unnin. Það er kannski stór krafa að heimta fullkomnari skilning á verkinu af svo ungum og óþjálfuðum flytjendum, og krafan snýr kannski fremur að leikstjóranum, þar sem honum hefði verið í lófa lagið að halda betur fram "móral" verksins með þeirri kunnáttu sem hann býr yfir.